Hún gæti orðið lífshættuleg, hitabylgjan sem nú þegar geisar í vestanverðri Evrópu og á samkvæmt spám eftir að teygja sig víðar. Veðurfræðingar óttast að hitinn mikli eigi eftir að ríkja næstu daga og jafnvel vikur. Að hitabylgjan verði jafnvel sú mesta á þessum slóðum í tæpar þrjár aldir.
Frá því í byrjun júlí hefur hitinn margsinnis náð 38 stigum í höfuðborgum Portúgals og Spánar. Brennandi heitt hefur verið í Sevilla á Spáni á hverjum degi í meira en viku. Í síðustu viku náði hann 44 gráðum.
Langvarandi hitabylgja
„Við höfum áhyggjur af því að þessi hiti gæti orðið að langvinnri hitabylgju á mörgum stöðum í Evrópu,“ segir Tyler Roys, veðurfræðingur hjá bandarísku veðurfréttastofunni AccuWeather. Með langvinnri hitabylgju er átt við að óvenju mikill hiti mælist í tuttugu daga í röð eða lengur. Hann segir hitabylgjuna ekki verða bundna við Portúgal, Frakkland og Spán heldur megi gera ráð fyrir að dalir Ungverjalands, austurhlutar Króatíu, Bosníu og Serbíu, syðstu hlutar Rúmeníu og þeir nyrstu í Búlgaríu verði fyrir barðinu á bylgjunni
Ein mesta hitabylgja sem orðið hefur í Evrópu gekk yfir árið 2003. Talið er að jafnvel 30 þúsund manns hafi látist vegna hennar. Sú sem nú er í uppsiglingu gæti orðið meiri – jafnvel sú mesta í álfunni frá árinu 1757.
En hvaðan kemur þessi gríðarlegi hiti?
Frá eyðimörkinni Sahara í Afríku. Þaðan streymir nú mjög heitt loft sem með degi hverjum færist norðan og austar. Þess er að vænta að það nái til Belgíu, Hollands, Þýskalands og Bretlands yfir helgi. Hitastigið þar hefur víða verið óvenjuhátt í sumar en talið er að mörg hitamet muni falla á allra næstu dögum.
Þótt heitt verði í London er ekki talið að öfgarnar verði þar mestar þótt spáð sé 30-35 stiga hita þar – jafnvel alla helgina og fram eftir næstu viku.
Gefnar hafa verið út viðvaranir, sumar appelsínugular og jafnvel rauðar, vegna þess sem koma skal. Þar er það ekki vindhraðinn sem ræður litnum líkt og við Íslendingar eigum svo vel að þekkja heldur hitastigið. Því hærra – þeim mun dekkri verður liturinn sem notaður er til að vara við.
Sky News segir að bresk stjórnvöld hafi rætt hvort að lýsa þurfi yfir neyðarástandi. Til að það sé gert þarf hitabylgjan að ógna heilsu fólks, ekki aðeins þeirra sem viðkvæmir eru vegna veikinda eða aldurs heldur ungu og heilbrigðu fólki.
Í París má eiga von á um 38-40 stiga hita um helgina og fyrstu daga næstu viku. Þar er barátta við gróðurelda hafin í suðvesturhluta landsins og þúsundum manna verið gert að yfirgefa heimili sín vegna þeirra. Í dag er þjóðhátíðardagur þeirra og engar flugeldasýningar voru á döfinni enda gætu flugeldar auðveldlega kveikt í þurrum gróðri víða.
En ástandið verður verst í Portúgal og á Spáni, ef spár ganga eftir. Í löndum þar sem þegar er mjög heitt og gróðureldar farnir að geisa vegna þurrka.
Nær hitinn á Spáni 50 stigum?
Veðurfræðingur AccuWeather telur að í austurhluta Portúgal og í suður- og vesturhluta Spánar gæti hitinn nálgast það sem þekkist helst í Dauðadalnum í Bandaríkjunum – heitasta stað veraldar. Þegar í dag, fimmtudag, gæti hitastigið nálgast 50 gráðurnar á Spáni.
Þetta gæti haft áhrif á ferðaplön fólks. Þegar hafa verið teknar ákvarðanir um að loka nokkrum ferðamannastöðum í Portúgal og það sama gæti orðið uppi á teningnum á Spáni og í Frakklandi.
Vissulega munu loftkældar byggingar hjálpa en þess má geta að til dæmis á Ítalíu er ekki hægt að kæla niður fyrir 27 gráðurnar. Það er gert í sparnaðarskyni vegna orkuskorts sem vofir yfir Evrópu vegna stríðsins í Úkraínu, segir í grein Politico.
Reikna má með að hiti verði yfir meðaltali miðað við árstíma víða á meginlandi Evrópu á næstu dögum og jafnvel vikum.
Veðurstofan hvatti Íslendinga á faraldsfæti að kynna sér vel veðurspár á áfangastöðum sínum.