Hringrásarverslunin Hringekjan tók þá ákvörðun nýverið að taka allar vörur frá Shein úr endursölu í verslun sinni. Jana Maren Óskarsdóttir, annar eigandi Hringekjunnar, segir vörur frá Shein ekki falla að hugmyndafræði fyrirtækisins, að sporna gegn fatasóun og stuðla að heilbrigðari fatainnkaupum. Hringekjan opnaði í ársbyrjun 2021 og er í hópi ört fjölgandi verslana þar sem fólki gefst kostur á að leigja bás og selja notuð föt, skó og fylgihluti.
Í aðdraganda ákvörðunarinnar að hætta að selja föt frá Shein hafði Jana samband við Sorpu þar sem hún fékk þær upplýsingar að fatnaður frá Shein flokkast sem eitraður textíll og eigi því að fara í sérstakan gám fyrir eitraðan úrgang. „Okkur finnst mikilvægt að taka fram að skila þessum fatnaði alls ekki í gáma góðgerðarsamtaka þar sem þau myndu halda áfram að eitra notendur og umhverfið,“ segir Jana.
Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og viðskiptaþróunarstjóri Sorpu, segir í samtali við Kjarnann að upplýsingarnar sem Jana fékk hafi verið byggðar á misskilngi. Sorpa hefur ekki tekið málið til skoðunar en Gunnar Dofri bendir á að það sé hlutverk Rauða krossins, sem sér um nytjagámana, að taka afstöðu til þess hvort um eitraðan úrgang sé að ræða.
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var fullyrt að Sorpa flokki vörur frá Shein sem eitraðan úrgang. Það hefur nú verið leiðrétt.
Stofnandi Shein sérfræðingur í leitarvélabestun
Shein var stofnað árið 2008 og hét þá SheInside og seldi aðallega brúðarkjóla. Árið 2012 breytti eigandinn, Chris Xu, áherslum fyrirtækisins og byrjaði að selja tískufatnað fyrir unglingsstúlkur og breytti síðar nafninu í Shein (borið fram she-in). Chris Xu var enginn sérstakur tískufrömuður en hann sérhæfði sig í leitarvélabestun (e. search engine optimization) og er tæknimiðuð nálgun í markaðssetningu talin ein helsta ástæða þess hvað fyrirtækið hefur vaxið hratt.
Shein er í dag metið á yfir 100 milljarða Bandaríkjadala. Það er meira en samanlagt virði tískurisanna H&M og Zara. Í fyrra tók snjallforrit Shein fram úr Amazon sem vinsælasta innkaupa-appið í Bandaríkjunum og er heimasíða Shein einnig mest heimsótta fatasíða í heimi. Stærsti markaður Shein er í Bandaríkjunum, Brasilíu, Frakklandi og Spáni.
Ónötuð föt frá Shein í endursölu sem notuð föt
Íslenskir neytendur hafa tekið Shein opnum örmum. Ef kauphegðun Íslendinga á netinu er skoðuð eru föt, skór og fylgihlutir vinsælasti vöruflokkurinn og er Shein með átta prósent hlutdeild erlendra netverslana þegar kemur að fatakaupum, á eftir Boozt og Asos.
Föt og fylgihluti frá Shein hafa verið að sjást í auknum mæli í Hringekjunni að sögn Jönu en dæmi eru um að föt frá Shein komi í Hringekjuna enn með miðanum á. „Og þá kannski sömu eða svipaða flík í mismunandi munstrum eða litum sem er þá ekki verið að nota. Fólk er þá kannski að panta sér alls konar og sjá svo hvað passar og hvað er flott.“
Þetta er hættuleg þróun að mati Jönu. „Það er akkúrat það sem við viljum ekki vera að ýta undir, að það sé auðvelt að versla sér eitthvað svona á netinu og svo endurselja það hjá okkur. Okkur finnst það ekki alveg passa þar sem starfsemin snýst um að leiðrétta ofneyslu á fatnaði. Við fórum að velta fyrir okkur af hverju við værum að selja þessar vörur þar sem við höfum heyrt ýmislegt slæmt um starfsemi þess. Því meira sem við fórum að lesa okkur til um þetta, því meira varð þetta bara lausnin. Við viljum ekki hafa þetta í versluninni okkar.“
Blý, PFAS, þalöt og önnur eiturefni langt yfir viðmiðunarmörkum
Rannsóknir hafa sýnt að vörur frá Shein innihalda skaðleg efni. Í október 2021 sýndi kanadíska sjónvarpsstöðin CBC fréttaskýringaþátt um skaðleg efni í vörum frá Shein. Af þeim vörum sem rannsakaðar voru innihélt ein vara af hverjum fimm umtalsvert magn eiturefna, meðal annars blý, PFAS og þalöt. Flíkurnar sem CBC rannsakaði voru meðal annars ætluð börnum og ófrískum konum. Rannsakendur komust að því að jakki fyrir ungabarn, keyptur af heimasíðu Shein, innihélt nánast 20 sinnum meira blý en heilbrigðisstofnun Kanada telur öruggt fyrir börn. Taska frá Shein innihélt efni sem var fimm sinnum yfir viðmiðunarmörkum.
Hvatning til að stíga skrefi lengra
Viðbrögðin við ákvörðun Hringekjunnar eru fyrst og fremst jákvæð að sögn Jönu. „Við eiginlega trúðum því ekki hvað þetta var allt jákvætt. Við vorum alveg búin að búa okkur undir einhverja gagnrýni en það var lítið sem ekkert af því.“
Hrósum hefur aftur á móti rignt yfir Hringekjuna og Jana hefur fengið fyrirspurnir frá kúnnum um önnur hraðtískumerki, til að mynda H&M og spænsku merkin Stradivarius og Pull and Bear. „Við erum að reyna að taka eitt skref í einu og kynna okkur málin vel áður,. Við viljum aðallega vekja fólk til umhugsunar um innihaldsefni í fatnaði, og hvaða áhrif offramleiðsla og neysla hefur á umhverfið og samfélagið okkar.“
„Margir nota þau rök að aðeins sé hægt að kaupa ódýran fatnað í gegnum fyrirtæki á borð við Shein, en í raun hafa þær flíkur að meðaltali stuttan líftíma. Það er miklu betri lausn til lengdar að velja vel flíkur úr hringrásarverslunum á góðum kjörum heldur en að kaupa mikið magn af ódýrum flíkum sem endast í styttri tíma,“ segir Jana, sem útilokar ekki að Hringekjan muni hætta endursölu á á vörum frá fleiri merkjum.
Eftir því sem Kjarninn kemst næst er Hringekjan fyrsta verslunin sem selur notaðan fatnað og fylgihluti sem bannar vörur frá ákveðnum framleiðanda.
Jana segir að með ákvörðuninni hafi Hringekjan ekki viljað setja pressu á aðrar verslanir til að gera slíkt hið sama. „Okkar rök eru eiturefnin og skaðlega dótið og í rauninni að breyta hugsunarhættinum um að fólk hætti að versla við þau þannig að það þurfi ekki að losa sig við svona hluti.“
„Þetta erum við að hugsa um hver við erum sem fyrirtæki og hvernig okkur langar að kynna okkur fyrir almenningi. Það eru margir sem hafa ekki hugmynd um þetta og vissu ekki einu sinni hvaða merki þetta væri en áttu þetta til inni í skáp af því að það hafði verið að kaupa þetta á mörkuðunum.“
Með því að útiloka vörur frá Shein vill Hringekjan fyrst og fremst vekja fólk til umhugsunar um kauphegðun sína og umhverfisvitund.