Sú nýbreytni í upplýsingamiðlun yfirvalda vegna kórónuveirufaraldursins var kynnt til sögunnar í upphafi viku að á vefnum covid.is er nú búið að koma upp dálki þar sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mun koma skriflegum skilaboðum áleiðis til almennings.
Í dag gerir hann það í annað sinn og lýsir yfir áhyggjum af stöðu mála, en hartnær hundrað smit greindust innanlands í gær. Þórólfur rekur á hinum nýja vettvangi sínum að einungis um 40 prósent hafi verið í sóttkví við greiningu og um helmingur smitaðra hafi verið fullbólusett fólk, allt frá ungabörnum til 92 ára einstaklings.
„Síðastliðinn sólarhring lögðust þrír inn á Landspítalann vegna COVID-19 og eru nú alls 15 inniliggjandi vegna COVID og þrír á gjörgæsludeild, þar af einn á öndunarvél,“ skrifar sóttvarnalæknir.
„Þróun faraldursins hér er því enn versnandi og faraldurinn í veldisvexti. Líklegt er að þessi þróun hvað varðar heildarfjölda smita haldi áfram sem mun leiða til versnandi ástands á Landsspítalanum,“ segir í færslu Þórólfs, sem biðlar til almennings um að leggja sitt af mörkum til að hindra útbreiðslu veirunnar þrátt fyrir að litlar opinberar takmarkanir séu nú í gildi.
„Við getum forðast hópamyndanir með ókunnugum, viðhaft eins metra nándarreglu, notað andlitsgrímur í aðstæðum þar sem nánd við ókunnuga er undir einum metra og gætt að góðri sótthreinsun handa,“ skrifar Þórólfur og bætir því við að ef fólk finni fyrir einkennum sem bent gætu til COVID-19 ætti fólk að halda sig til hlés, forðast margmenni og umgengni við viðkvæma einstaklinga og fara í sýnatöku.
„Hollt er hins vegar að hafa í huga þá reynslu okkar að samfélagslegum smitum fækkar ekki fyrr en gripið er til takmarkandi aðgerða í samfélaginu,“ skrifar Þórólfur Guðnason að lokum.
Stefnt að afléttingu allra aðgerða 18. nóvember
Einungis níu dagar eru frá því að ríkisstjórnin ákvað að létta á samkomutakmörkunum, meðal annars aflétta grímuskyldu á flestum þeim stöðum þar sem hún átti við og leyfa 2.000 manns að koma saman á viðburðum. Við sama tilefni var boðað að til stæði að aflétta öllum samkomutakmörkunum innanlands þann 18. nóvember.
Það var þó tilkynnt með þeim fyrirvara að allt gengi vel, samkvæmt því sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði er hún kynnti ákvörðun stjórnvalda.