Á mánudagskvöld birtist fréttaskýring á vef breska ríkisútvarpsins BBC þar sem farið var yfir hvernig Íslandi hefði tekist að slá kórónuveirufaraldurinn niður og verða á ný nær smitlaust land. Í gær greindust svo 17 kórónuveirusmit innanlands, líklega flest af hinu bráðsmitandi B117-afbrigði veirunnar, sem fyrst fannst í Bretlandi.
Ríkisstjórnin fundar nú um hvort grípa skuli til hertra aðgerða innanlands til að hefta útbreiðslu veirunnar. Það má því með sanni segja að umfjöllun BBC, undir fyrirsögn sem gæti útlagst sem „Hvernig Ísland stemmdi stigu við og hafði betur gegn veirunni“ á íslensku, hafi komið fram á óheppilegum tíma.
Í fréttaskýringunni segir að síðan veiran var „upprætt“ úr samfélaginu í júní í fyrra hefðu verið sett upp „stállandamæri“ og vísað til þess að allir farþegar á leið til landsins hafi þurft að fara í sóttkví og undirgangast skimanir við komuna.
Katrín segir veiruna hafa haldið sér vakandi í heilt ár
Í umfjöllun BBC er rætt við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni, Kára Stefánsson forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, Gylfa Þór Þorsteinsson sem stýrir farsóttarhúsi Rauða krossins og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem játar fyrir blaðamanni BBC að vera orðin þreytt á veirufárinu, sem hafi haldið henni vakandi í heilt ár.
„Ég vildi að þessu væri bara öllu lokið og ég gæti farið að tala um stjórnmál aftur,“ er haft eftir forsætisráðherra.
Í greininni er minnst á að hið svokallaða breska afbrigði veirunnar (B117) hafi í fyrsta sinn smitast á milli manna innanlands nýlega, en einnig segir frá því að tekist hafi að komast fyrir frekari útbreiðslu smita. Afbrigðið væri þar af leiðandi ekki að valda sama usla hér á landi og annars staðar í Evrópu.
Ekki virðist þó bitið úr nálinni með það í ljósi tíðinda dagsins.
New Yorker lýsti yfir sigri Íslands í júní
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem erlendir miðlar fjalla um „sigra Íslands“ í baráttunni við veiruna skömmu áður en ný bylgja brýst út. Síðasta sumar fjallaði bandaríska tímaritið New Yorker ítarlega um hvernig Ísland hefði haft betur gegn kórónuveirunni.
Sú umfjöllun, undir fyrirsögninni „Hvernig Ísland sigraði kórónuveiruna“ birtist þann 1. júní í fyrra og var enn í töluverðri dreifingu á samfélagsmiðlum á borð við Twitter löngu eftir að næsta bylgja veirufaraldursins náði flugi á Íslandi.
Í umfjöllun BBC er haft er Gylfa Þór hjá Rauða krossinum að í sumar hafi starfsmenn sóttvarnahússins komið saman og fagnað því að enginn væri lengur inniliggjandi hjá þeim.
Hann sagði að hið sama yrði ekki uppi á teningnum nú, þrátt fyrir að staðan hafi virst góð er blaðamaður BBC ræddi við hann.
„Ekki fleiri COVID-kveðjupartý. Ekki enn.“