Þríeykið, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, komu saman á ný á upplýsingafundi almannavarna síðdegis eftir töluvert hlé en síðasti upplýsingafundur almannavarna vegna COVID-19 fór fram 12. ágúst eða fyrir tæpum þremur mánuðum.
„Viðvörunarmerkin eru skýr, smitum fjölgar mikið og það hefur áhrif á daglegt líf fjölmargra. Heilbrigðiskerfið er undir álagi og bognar smám saman,” sagði Víðir. 167 smit innanlandssmit greindust í gær og hafa aldrei verið fleiri.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti um hertar samkomutakmarkanir að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Takmarkanir munu taka gildi næsta miðvikudag þegar fjöldatakmarkanir fara úr 2.000 manns í 500.
Grímuskylda verður tekin upp og sú aðgerð tekur gildi á morgun. Opnunartími veitingastaða verður skertur enn á ný um tvær klukkustundir. Opið verður til kl. 23 á kvöldin og síðustu gestir skulu vera farnir fyrir miðnætti. Þá verður eins metra nálægðarreglan aftur kynnt til sögunnar.
Fólki í sóttkví vísað frá farsóttarhótelum
Smitrakning er þung þessa dagana að sögn Víðis sem hefur áhrif á gæði þeirrar þjónustu. Farsóttarhótelin eru full og hefur fólk sem hugðist fara í sóttkví á farsóttarhóteli hafi þurf að leita annað.
„Við höfum staðið í þessari baráttu í 22 mánuði og enn og aftur horfum við öll fram á verkefni sem við eigum enga aðra kosta völ á en að takast á við. Við þekkjum þetta og við kunnum þetta og við getum vel gert þetta. Þegar við sýnum samstöðu þá gengur okkur vel,“ sagði Víðir og bætti við að það sé ekki í boði að hengja haus og vera fúll, staðan sé einfaldlega sú að það stefnir í að sjúkrahúsinnlagnir verði fleiri en kerfið ráði við.
„Við verðum að standa saman og taka enn eina brekkuna í þessari baráttu.“
Til þeirra sem eru á móti hertari aðgerðum sagði Víðir að við berum líka ábyrgð á öðrum í samfélaginu. „Nú hafa verið litlar takmarkanir í samfélaginu um hríð og við sjáum samt hvernig staðan er.“
Að mati Þórólfs er það sem muna ráða úrslitum í bylgjunni hvernig einstaklingar standi sig í einstaklingsbundnum sóttvörnum. Þá hvatti hann fólk sem hefur fengið boð í bólusetningu en ekki mætt að láta bólusetja sig en um 11 prósent þeirra sem boðuð hafa verið hafa ekki verið bólusett.
Þá sagði hann stöðuna á Landspítala og sjúkrahúsinu á Akureyri vera þunga og ljóst að ef fram heldur sem horfir mun neyðarástand skapast á spítölunum.
Þórólfur sagðist vona að aðgerðirnar sem boðaðar voru í dag skili árangri. „Við vitum hvað virkar og þurfum ekki að finna upp hjólið.“