Fátt ætti að koma á óvart við jarðarför Elísabetar II drottningar. Hún var orðin 96 ára gömul og áratugum saman hafa legið fyrir áætlanir um hvernig skuli staðið að málum, hvort sem lítur að hefðum, siðum og venjum við konunglegar útfarir eða öryggisgæsluna. Lögregluyfirvöld, sjúkra- og slökkvilið búa sig undir sitt stærsta verkefni hingað til. Búist er við um 2.000 gestum til athafnarinnar í Westminster Abbey, gestum sem þurfa mikla öryggisgæslu vegna starfa sinna og stöðu. Þar má nefna forseta, forsætisráðherra, keisara og kóngafólk. Fólk sem þarf fylgdarlið – og að komast hratt ferða sinna ólíkt almúganum. En lögreglan þarf einnig að gæta almúgans og nú er ljóst að hundruð þúsunda manna ætla að votta drottningunni virðingu sína við útförina í dag.
Opinber útför, með öllum þeim heiðursverði og öðru sem slíku fylgir, hefur ekki farið fram í Bretlandi síðan Winston Churchill lést árið 1965, fyrir hartnær hálfri öld. Vissulega hafa mörg fyrirmennin látist síðan þá – drottningarmaður, drottningarmóðir og þar fram eftir götunum – en útfarir þeirra fengu ekki hinn „opinbera“ stimpil. Það gerði ekki heldur útför Díönu prinsessu.
Þar sem um opinbera útför er að ræða munu t.d. 142 sjóliðar úr konunglega sjóhernum draga vagn með kistu Elísabetar frá Westminster Hall, þar sem kistan hefur staðið undanfarna daga, til Westminster Abbey, þar sem útförin fer fram, en ekki hestar. Þetta er hefð sem komið var á er Viktoría drottning lést árið 1901.
Filippus drottningarmaður lést á meðan heimsfaraldur COVID-19 stóð yfir. Hans útför var því sögulega lágstemmd. Svo hafa verið haldin vegleg og mikil brúðkaup í konungsfjölskyldunni, það stærsta síðari ár vitanlega brúðkaup Vilhjálms prins og Katrínar. Hátíðarhöld á sjötíu ára krýningarafmæli drottningar voru einnig mjög umfangsmikil. Allt eru þetta stórviðburðir sem var sjónvarpað um víða veröld.
Helsti viðburður sem hægt er að bera útför Elísabetar saman við þegar kemur að öryggisgæslu eru Ólympíuleikarnir í London árið 2012. Það er hins vegar ljóst að þeir blikna í samanburði við umfang aðgerða sem gripið er til vegna útfarar drottningar Bretlands til rúmlega sjö áratuga.
„Ef þú hugsar um Lundúna-maraþonið, konungleg brúðkaup og ólympíuleikana – þá er [jarðarförin] allt þetta samanlagt,“ sagði Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna fyrir helgi.
„Lundúnarbrúin“ er heitið sem yfirvöld hafa í fleiri ár kallað áætlanir sínar um viðburði í kjölfar andláts drottningar. Þær voru fyrst útfærðar á sjötta áratugnum, er hún tók við völdum, en hafa síðan þá verið uppfærðar þrisvar á ári. Í þeim er tekið tillit til aðstæðna í heiminum hverju sinni og mat lagt á helstu ógnir. Fjölmargar stofnanir ríkisins koma að málum. Elísabet vissi hvernig málum yrði hagað og kvittaði upp á það áður en hún lést.
Leyniþjónustustofnanir, m.a. í Bretlandi og Bandaríkjunum, munu vinna saman og deila upplýsingum. Það eru ekki aðeins ógnir frá hryðjuverkasamtökum sem taka þarf með í reikninginn heldur einnig frá einstaklingum. „Góðkunningjar“ lögreglunnar í þeim efnum verða m.a. undir sérstakri smásjá.
Hver sá sem þykir ógna konungsfjölskyldunni, hvort sem er með orðum eða öðru, gæti verið tekinn umsvifalaust úr umferð. Symon Hill, karlmaður frá Oxford, hefur þegar fengið að finna fyrir því. „Ekki minn kóngur““ hrópaði hann er hann stóð í mannfjölda sem safnast hafði saman er tilkynnt var formlega að Karl væri orðinn kóngur Bretlands. Lögreglumenn viku sér þegar í stað að honum, gripu í hann, handjárnuðu og settu inn í lögreglubíl. Hann segir í viðtali við CNN að hann telji slík viðbrögð ekki eiga heima í lýðræðisríki.
Lögreglan hefur haft í nógu að snúast síðustu daga enda gríðarlegur áhugi á því að sjá kistu drottningar. Fólk hefur staðið í allt að sólarhring í röð í þeim tilgangi. En í dag er stóri dagurinn: Útfarardagurinn sjálfur.
Jarðarförin verður „stærsti einstaki viðburður“ sem lögreglan í London hefur þurft að sinna, segir varalögreglustjórinn Stuart Cundy. Lög- og öryggisgæslu þarf að sinna jafnhendis, valdafólkið þarf sína vernd en almenningur að sjálfsögðu einnig. Það eitt hvernig fyrirmennin koma til athafnarinnar er hernaðarleyndarmál en ljóst er að loka þarf götum og greiða farartækjum þeirra leið um borgina að Westminster Abbey. „Aðgerðirnar eru sannarlega geysimiklar,“ sagði Cundy á blaðamannafundi á föstudag.
Lögreglan hefur fátt látið uppi um hvernig öryggisgæslu hefðarfólks og fyrirmenna verði háttað en sérfræðinga í öryggismálum hafa bent á að álagið verði svo mikið að ljóst sé að einhver verði að sætta sig við minni fylgd, t.d. færri bíla í lest, en þau myndu fá undir öðrum kringumstæðum. Fregnir hafa meira að segja borist af því að gestir verði ferjaðir í rútum til Westminster Abbey en margir hafa lýst efasemdum um slíkt. Að minnsta kosti er talið ólíklegt að Joe Biden Bandaríkjaforseti verði um borð í rútunni.
En það eru miklu fleiri en lögreglumenn þúsundavís, bæði frá embættum í London sem og annars staðar frá, sem koma að aðgerðum í dag. Tryggja þarf aðgengi fólks sem safnast saman á götum úti að salernisaðstöðu, sjúkraflutningamenn og annað heilbrigðisstarfsfólk þarf að vera í viðbragðsstöðu og einhver þarf svo að hreinsa til eftir herlegheitin.