Starfsmaður Hagkaups í Garðabæ greindist jákvæður fyrir COVID-19 á mánudagskvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagkaup, sem birtist á Facebook í morgun. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra gefur ekki upp hvort fleiri smit greindust í gær.
Yfir þúsund manns fóru í skimun í gær eftir að breska afbrigði veirunnar greindist úti í samfélaginu um helgina.
„Umræddur starfsmaður vinnur á nóttunni við áfyllingar og var við störf aðfaranótt laugardags og sunnudags sl. helgi. Starfsmaðurinn var lítið sem ekkert í samskiptum við viðskiptavini, bar grímu við störf sín og fór eftir þeim sóttvarnarreglum sem gilda á vinnustaðnum,“ segir í tilkynningunni frá Hagkaup, þar sem fram kemur að umfangsmikil sótthreinsun á snertiflötum í versluninni hafi átt sér stað.
„Þeir starfsmenn sem unnu á sömu vöktum og umræddur starfsmaður um helgina verða sendir í skimum í dag og munu halda sig heima þar til rakningarteymi almannavarna hefur gefið grænt ljós á endurkomu. Öll viðbrögð við þessari stöðu eru unnin í nánu samstarfi við almannavarnir,“ segir í tilkynningu sem Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups skrifar undir.
Sem áður segir fást ekki upplýsingar frá almannavörnum um það hvort þetta var eina smitið sem greindist í gærkvöldi eða ekki, en tölur um hversu mörg smit greindust verða birtar kl. 11 á vefnum Covid.is.