Starfsmenn ríkissjónvarpsins í Ungverjalandi hafa fengið skipanir um að sýna ekki myndir af börnum flóttamanna í fréttum um flóttafólk. Skjáskot af skipun stjórnar sjónvarpstöðvarinnar til blaðamanna lak í aðra fjölmiðla í dag. Frá þessu er greint á vef The Guardian.
Ríkisstjórn Ungverjalands skipar í stjórn ríkissjónvarpsins þar. Stjórn stofnunarinnar hefur neitað því að hafa beiðið fjölmiðlafólk að reyna að takmarka samkennd almennings með flóttafólki. Heldur hafi skipunin átt að vernda börnin.
Stjórnvöld í Búdapest hafa lokað Keleti-lestarstöðinni þar fyrir flóttafólki sem reynir að komast vestar í álfuna, meðal annars til Þýskalands eins og Kjarninn greindi frá fyrr í dag. Flóttamenn hafa brugðist illa við því og mótmæla að gerðum lögreglu við lestarstöðina. Fjölmiðlaumfjöllun um mótmælin hefur hins vegar verið af skornum skamti í Ungverjalandi.
Eftir að Fidesz-flokkur popúlistans Viktor Orbán komst til valda árið 2010 var fjölmiðlalögum breytt á umdeildan máta og hefur Orbán forsætisráðherra verið gagnrýndir fyrir yfirgang gagnvart frjálsum fjölmiðlum í kjölfarið. Fjölmiðlamálanefnd Evrópusambandsins hefur til dæmis haft efasemdir um að stefna ungverskra stjórnvalda sé í samræmi við reglugerðir sambandsins.
Lögregla hefur meinað flóttafólki að fara inn í lestarstöðina í Búdapest. Ungverskir fjölmiðlar fjalla takmarkað um mótmælin.
Síðasta haust voru drög að sérstökum internetskatti lögð í Ungverjalandi sem varð til þess að meira en 100 þúsund manns mótmæltu á götum höfuðborgarinnar. Fallið var frá þessum áformum að lokum.
Í fyrra sóttu 40.000 flóttamenn um hæli í Ungverjalandi og hefur fjöldi flóttafólks aukist stöðugt síðan þá. Um 95 prósent þessa fólks kemst inn í landið yfir landamærin við Serbíu en nú hafa ungversk stjórnvöld reist fjögurra metra háa girðingu á landamærunum svo enginn kemst yfir.
Almenningsálitið í Ungverlandi gagnvart flóttamönnum hefur frá áramótum snúist við. Í lok árs 2014 sögðust 3 prósent Ungverja telja flóttamenn vera meðal stærstu þjóðmálanna en í samkvæmt könnun Republikon Institute sem kynnt var á dögunum telja nú 66 prósent Ungverja að „flóttafólk valdi hættu í Ungverjalandi og þess vegna ætti það ekki að fá að komast þangað.“ Aðeins 19 prósent sögðu það skyldu Ungverjalands að taka á móti þessu fólki.