Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri RÚV, hefur óskað eftir því við stjórn Félags fréttamanna og stjórn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins að tilnefna fulltrúa starfsfólks í hóp sem hefur það hlutverk að ljúka endurskoðun á siðareglum RÚV. Nauðsynlegt sé að uppfæra reglurnar. Þetta kemur fram í tölvupósti sem hann sendi á starfsfólk RÚV fyrr í dag.
Tölvupósturinn var sendur í kjölfar þess að stjórn RÚV hafnaði því í gær að verða við kröfum lögmanns Samherja um að hlutast til um að blaðamaðurinn Helgi Seljan, sem starfa fyrir fréttaskýringaþátinn Kveik, verði áminntur og gert að hætta að fjalla um málefni fyrirtækisins. Sú krafa var sett fram í kjölfar þess að fjögur ummæli sem Helgi lét falla á samfélagsmiðlum voru úrskurðuð sem alvarlegt brot á siðareglum RÚV af siðanefnd. Sama nefnd komst að þeirri niðurstöðu að tíu aðrir starfsmenn RÚV sem kærðir voru til hennar hefðu ekki brotið gegn siðareglum eða kærum gegn þeim vísað frá. Sömu sögu er að segja varðandi flest þeirra ummæla sem Helgi hafði látið falla á samfélagsmiðlum og lögmaður Samherja kærði.
Mikilvægt að uppfæra reglurnar
Gagnrýnt hefur verið að umræddar siðareglur, sem tóku gildi 2016, séu sagðar samdar af starfsmönnum RÚV. Fulltrúi fréttamanna í starfshópi sem hafði það verkefni að vinna að undirbúningi reglnanna, Jóhann Hlíðar Harðarson, sagði í umræðum á Facebook um liðna helgi að reglurnar væru ekki verk hópsins. „Höfundanna þarf að leita annars staðar.“
Stefán hafnar þessari skýringu í tölvupóstinum í dag og segir vinnuhóp starfsfólks RÚV hafa unnið drög að reglunum og að fulltrúar allra miðla innan fyrirtækisins hafi skipað þann hóp. „Í þeirri vinnu var horft til erlendra siðareglna og leitað sérfræðilegrar ráðgjafar hér innanlands. Drög að reglunum voru kynnt starfsfólki (fundur og póstur í nóvember 2015) og tekið var við og unnið úr ábendingum og tillögum að breytingum sem bárust þá og í kjölfarið. Hópurinn skilaði í framhaldinu af sér tillögu að reglum (febrúar 2016) sem eru þær sömu og við búum við í dag, engar breytingar voru gerðar á þeim texta eftir að hópurinn skilaði þeim af sér. Reglurnar voru settar að loknu þessu ferli á sérstökum fundi (mars 2016) og eru settar af starfsfólki Ríkisútvarpsins eins og þar er skýrt tekið fram.“
Reglurnar hafi hins vegar verið gagnrýndar alla tíð síðan og sérstaklega tiltekið ákvæði þeirra sem talið er að með of fortakslausum hætti leggi bann við því að starfsfólk í fréttum og dagskrárgerð taki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild þjóðfélagsmál.
Stefán segir í tölvupóstinum að skýrt sé í allri framkvæmd hjá RÚV við fréttir og dagskrárgerð að fréttamenn og dagskrárgerðarfólk skuli gæta hlutlægni og sanngirni í störfum sínum og taki ekki efnislega afstöðu til mála sem þeir fjalla um. „Á því byggist m.a. það traust sem til okkar mælist, og ágætt að hafa það í huga að það hefur aldrei mælst hærra heldur en í síðustu mælingu sem framkvæmd var sl. haust. Á sama tíma getum við ekki haft í okkar reglum ákvæði sem veldur vandkvæðum við túlkun og er að mati þeirra sem best til þekkja of fortakslaust og/eða óljóst. Yfir þetta er því mikilvægt að fara og uppfæra reglurnar, líkt og við gerðum nýverið í framangreindum vinnureglum um fréttir og dagskrárefni tengt þeim.“
Fréttastjóri segir Samherja hafa beitt Helga ofbeldi
Fyrr í dag sendi Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, frá sér yfirlýsingu vegna erindis Samherja til stjórnar RÚV. Þar sagði að afstaða stjórnenda RÚV í málinu mótist fyrst og síðast af því að fréttaflutningur Kveiks og fréttastofunnar var ekki til umfjöllunar hjá nefndinni frekar en störf Helga. Sú umfjöllun standi að öllu leyti. „Hvort sem menn telja ummæli Helga Seljan á samfélagsmiðlun viðeigandi eða ekki er fráleitt að slíta þau úr samhengi við þá aðför eða herferð sem fulltrúar Samherja hafa skipulagt gegn frétta- og blaðamönnum sem fjallað hafa um málefni fyrirtækisins síðustu misseri. Aðför sem hefur þann eina tilgang að kæfa gagnrýna umræðu og koma í veg fyrir að fréttamenn geti sinnt starfi sínu. Að skjóta sendiboðann svo upplýsingar skili sér ekki til almennings.“
Rakel segir að í persónulegum árásum stórfyrirtækja gegn einstaklingum felist ofbeldi sem ekki verði við unað. „Það er ógerningur að slíta þau ummæli Helga, sem nefndin taldi brotleg, úr samhengi við þessa aðför.“