Síðastliðinn þriðjudag var ársfjórðungsuppgjör SAS, fyrir nóvember, desember og janúar, lagt fram. Lestur þessa uppgjörs var ekki það sem kalla mætti yndislestur, myndi frekar flokkast sem hrollvekja. Tap tímabilsins nam um það bil 1,7 milljarði danskra króna (34,5 milljarðar íslenskir). Í yfirlýsingu stjórnenda SAS sem birt var samtímis fjórðungsuppgjörinu var greint frá fyrirhugaðri niðurskurðar- og hagræðingaráætlun. Áætlunin sem gengur undir nafninu „SAS Forward“ gerir ráð fyrir að rekstrarkostnaður félagsins verði skorinn niður um 5,2 milljarða danskra króna (jafngildir 100 milljörðum íslenskum) á ári. Forsenda þess að þetta gangi eftir er að félagið leggi fram raunhæfa og trúverðuga áætlun sem fjárfestar og eigendur félagsins samþykki og trúi á.
Ekki í fyrsta sinn
SAS Forward er ekki fyrsta sparnaðar- og hagræðingaráætlunin sem félagið hefur lagt fram. Árið 2012 var kynnt áætlun í sama dúr, sú bar heitið Final Call. Þá stóð rekstur félagsins mjög tæpt en var á síðustu stundu bjargað.
Ekki allir jafn bjartsýnir
Ole Kirchert Christensen, danskur sérfræðingur um flugrekstur og ferðamál, sagði í viðtali við dagblaðið Politiken í liðinni viku að nú þurfi SAS að kíkja í alla króka og kima í rekstrinum, launakostnað, leigusamninga, samninga við samstarfsaðila, allt. „Öllu skiptir að allir leggist á árarnar (lægger hånden på kogepladen), ef það gerist ekki blasir verri kostur við, sem sé sá að ekki verði til neitt sem heitir SAS.“ Margir sérfræðingar um flugmál hafa talað á svipuðum nótum.
Miklar breytingar
Um og eftir síðustu aldamót urðu miklar breytingar í flugrekstri. Hinum svokölluðu lággjaldaflugfélögum fjölgaði mikið, þau buðu lægri fargjöld og minni þjónustu, það var til dæmis ekki sjálfsagt að hressing væri innifalin í miðaverðinu, og sama gilti um ferðatöskur. Gripaflutningavélar sögðu sumir. Slíkt tal breytti engu, lággjaldafélögin náðu til sín sífellt stærri sneið af „farþegakökunni“.
Hver er vandinn og hvað er til ráða?
Í stuttu máli er vandi SAS sá að tekjurnar eru ekki nógu miklar en kostnaður of mikill.
Til að fá auknar tekjur þarf fleiri farþega. En farþegi er ekki bara farþegi, það skiptir máli hvort hann er svokallaður túristi eða hvort hann er að ferðast vegna vinnunnar. Starfsemi SAS, einkum innan Evrópu, hefur að stórum hluta miðast við farþega sem ferðast hafa vegna vinnunnar. Keypti gjarna miða á síðustu stundu, betri sæti og borgaði meira. Þetta hefur breyst, þeim sem ferðast vegna vinnu hefur snarfækkað, m.a vegna fjarfunda, og æ fleiri fyrirtæki eru ekki tilbúin að borga fyrir dýrari sæti. Til að bregðast við þessu þarf SAS í auknum mæli að sníða áætlanir sínar að ferðamönnum, túristunum svokölluðu. Þegar greint var frá SAS Forward áætluninni í síðustu viku kom fram að á komandi sumri verður beinum flugferðum fjölgað verulega. Beint flug milli Kaupmannahafnar og Boston hefst á ný og fjölgað verður um eina ferð daglega frá Kaupmannahöfn til New York. Flug til Birmingham og Hannover hefst á ný og ferðum suður á bóginn ( í sólina) verður fjölgað til muna.
En til að draga úr kostnaði, hvað er til ráða þar? Forráðamenn SAS hafa lýst yfir að til viðbótar lækkun launakostnaðar og margs konar hagræðingu stefni félagið á að endurnýja allan flugflotann, sem er nú um 180 vélar, margar þeirra gamlar, og innan fárra ára verði allar vélar félagsins mun sparneytnari en nú er. Þetta skiptir verulegu máli í rekstrinum.
Á bjargbrúninni
Ljóst er að SAS stendur á tímamótum. Hallarekstur eins og verið hefur undanfarið getur ekki haldið áfram lengi enn. Þetta virðast sérfræðingar sammála um.
Jacob Pedersen, sérfræðingur í flugrekstri hjá Sydbank sagði í viðtali við fréttastofuna Ritzau, eftir að ársfjórðungsskýrslan var birt, að SAS standi á bjargbrúninni og hyldýpið blasi við. Verð hlutabréfa í félaginu hríðféll í kjölfar birtingar skýrslunnar. „Staðan er þannig að innan tiltölulega skamms tíma getur reynst mjög erfitt fyrir SAS að halda rekstrinum gangandi nema leita til eigendanna eftir fjármagni.“ Stærstu hluthafar SAS eru sænska og danska ríkið og sænska Wallenberg fjölskyldan.
Ósennilegt að SAS yrði látið rúlla
Danskir fjölmiðlar hafa undanfarna daga fjallað heilmikið um SAS, vanda félagsins, hverjar séu ástæður þess að reksturinn gengur ekki betur og hver sé framtíð félagsins. Flestir sérfræðingar eru sammála um að félaginu yrði, einn ganginn enn, bjargað með einhverjum hætti ef í það fer.
Þeir eru líka sammála um að mjög ósennilegt verði að teljast að SAS yrði látið rúlla.