Stjórn Félags fréttamanna lýsir vonbrigðum sínum með niðurstöðu siðanefndar RÚV og hefur áhyggjur af því hvaða afleiðingar niðurstaðan getur haft fyrir gagnrýna fjölmiðlun. Þetta kemur fram í ályktun sem félagið samþykkti fyrr í dag.
„Upp er komin sú staða sem margir vöruðu við og óttuðust þegar siðareglur RÚV voru settar. Ákvæði þeirra um bann við tjáningu á samfélagsmiðlum er notað til að hefta tjáningarfrelsi fréttamanna og í tilraunum til að þagga niður í fréttamönnum og umfjöllun þeirra. Fréttamenn geta illa setið undir því að siðareglur RÚV séu notaðar til að kæla umfjöllun þeirra,“ segir í ályktuninni og kallað er eftir því að siðareglurnar verði endurskoðaðar.
Í ályktun félagsins eru siðareglurnar sagðar hafa verið umdeildar frá upphafi og að fjölmargir hafi talið að með ákvæði um samfélagsmiðla væri brotið gegn tjáningarfrelsi starfsmanna. „Einnig hefur verið bent á að hægt væri að misnota siðareglurnar til að reyna að koma höggi á starfsmenn. Hvort tveggja hefur nú sannast,“ segir þar enn fremur.
Stjórn Félags fréttamanna lýsir auk þess undrun sinni á niðurstöðu siðanefndar að ein ummælin sem feli í sér alvarlegt brot á siðareglum séu ummæli sem beinast ekki að stjórnendum Samherja, kærendum í málinu, heldur að fyrirtækinu Eldum rétt. „Sem fyrr segir tiltók lögmaður kæranda tugi ummæla á annars tugs starfsmanna í kæru sinni. Slíkt er þekkt í meiðyrðamálum þar sem stefnt er vegna fjölda ummæla í von um að einhver verði metin brotleg. Samherji kastaði stóru neti og veiddi eina siðanefnd.“
Niðurstaða siðanefndar hefur ekki áhrif á störf Helga
Siðanefnd RÚV birti í gær niðurstöðu sína í kærumáli Samherja gegn ellefu starfsmönnum RÚV vegna ummæla sem þeir létu falla á samfélagsmiðlum. Í niðurstöðunni var málatilbúnaði gegn tíu starfsmönnum RÚV vísað frá eða ummæli þeirra ekki talin brot á siðareglum RÚV. Einn starfsmaður, Helgi Seljan, var talinn hafa gerst brotlegur við siðareglur með alvarlegum hætti vegna nokkurra ummæla sem hann lét falla á samfélagsmiðlum. Önnur ummæli hans sem kærð voru voru það hins vegar ekki.
Í yfirlýsingu sem birt er á vef RÚV er tekið fram að niðurstaðan myndi ekki hafa áhrif á störf Helga. Þar segir einnig að fréttastofa RÚV standi við allan fréttaflutning af málefnum Samherja og muni halda áfram að fjalla um fyrirtækið eins og tilefni er til.