Allt stjórnarfólk í stjórn Ferðafélags Íslands lýsir yfir vonbrigðum og furðu með hvernig fráfarandi forseti lýsir viðskilnaði sínum við félagið og hafnar þeim lýsingum sem fráfarandi forseti hefur komið fram með.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðafélagi Íslands vegna afsagnar Önnu Dóru Sæþórsdóttur, forseta Ferðafélagsins, sem hún tilkynnti félaginu í morgun. Í færslu sem Anna Dóra birti á Facebook sagðist hún ekki getað starfað í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi, sem ganga þvert á hennar eigin gildi, ráða ríkjum.
Afsögnin snýr að vangetu stjórnar Ferðafélags Íslands að taka á málum sem snúa að áreitni og kynferðislegu ofbeldi. Eitt málið varðar fyrrverandi stjórnarmann í félaginu, Helga Jóhannesson, fyrrverandi yfirlögfræðing hjá Landsvirkjun.
Í tilkynningu frá stjórn Ferðafélags Íslands segir að stjórnin sé „skipuð fjölbreyttum hópi einstaklinga úr ólíkum áttum, bæði konum og körlum.“ Stjórnina skipa, eftir afsögn Önnu Dóru, þau Sigrún Valbergsdóttir varaforseti, Pétur Magnússon gjaldkeri, Gísli Már Gíslason, Ólöf Kristín Sívertsen, Tómas Guðbjartsson, Sigurður Ragnarsson og Gestur Pétursson.
Stjórnin vísar „algjörlega á bug þeim ásökunum og lýsingum“ sem Anna Dóra setur fram í yfirlýsingu sinni. Stjórnin segir fagleg ferli og viðmið vera til staðar hjá félaginu um hvernig tekið skal á málum sem koma upp í samskiptum innan félagsins, þar með talið mál er varða kynferðislega áreitni. „Tekið hefur verið á öllum málum af þessu tagi með faglegum og skipulögðum hætti og þau leidd til lykta,“ segir í yfirlýsingunni.
Stjórnin staðfestir hins vegar að „til staðar hafa verið vandamál í samskiptum innan stjórnar við fráfarandi forseta. Þessi samskiptavandi er tilkominn vegna stjórnarhátta hennar og framkomu hennar við framkvæmdastjóra félagsins.“ Framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands er Páll Guðmundsson, sem hefur gegnt starfinu frá 2004.
Uppfært klukkan 20:24: Upphaflega sagði að Margrét Hallgrímsdóttir ætti sæti í stjórninni en það er ekki rétt. Margrét sagði sig úr stjórn FÍ í vor þegar hún lét af störfum sem þjóðminjavörður. Beðist er velvirðingar á þessu.