Samherji hefur krafið stjórn Ríkisútvarpsins (RÚV) í skriflegu erindi um að meina fréttamanninum Helga Seljan að fjalla um mál sem tengjast fyrirtækinu eða komi að vinnslu efnis því tengdu. Fyrirtækið hefur sömuleiðis krafist þess að Helgi verði áminntur í starfi.
Bréfið var sent í kjölfar þess að siðanefnd RÚV komst að þeirri niðurstöðu að Helgi hefði gerst brotlegur við siðareglur fyrirtækisins með ummælum sem hann lét falla á samfélagsmiðlum. Siðanefndin komst þó ekki að þeirri niðurstöðu að Helgi hefði gerst brotlegur í starfi að mati stjórnenda RÚV né að niðurstaða hennar varði fréttaflutning af Samherja. Samherji gerir athugasemd við þá staðhæfingu stjórnendanna. Með því er verið að biðja stjórn RÚV að snúa við ákvörðun stjórnenda fyrirtækisins.
Stjórn RÚV mun funda í dag og samkvæmt upplýsingum Kjarnans verður niðurstaða siðanefndarinnar, endurskoðun siðareglna og bréf Samherja rædd á þeim fundi.
Kærðu 11 fréttamenn
Líkt og Kjarninn hefur greint frá kærði Samherja ellefu starfsmenn RÚV í ágúst í fyrra vegna meintra brota á siðareglum miðilsins, sem kveða á um að fréttafólk þess taki ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni.
Kallað eftir því að siðareglur verði endurskoðaðar
Þorra ummælanna var vísað frá eða komist að þeirri niðurstöðu að þau brytu ekki í bága við siðareglur, fyrir utan nokkur ummæli Helga. Nefndin flokkar þessi ummæli, sem eru færslur á Twitter og Facebook, sem alvarleg brot á siðareglum RÚV, en bætti þó við að hún teldi ekki að Helgi hafi gerst brotlegur í starfi með þeim.
Stjórn Félags fréttamanna lýsti vonbrigðum sínum með niðurstöðu siðanefndar RÚV og hefur áhyggjur af því hvaða afleiðingar niðurstaðan getur haft fyrir gagnrýna fjölmiðlun. Þetta kemur fram í ályktun sem félagið samþykkti á laugardag.
„Upp er komin sú staða sem margir vöruðu við og óttuðust þegar siðareglur RÚV voru settar. Ákvæði þeirra um bann við tjáningu á samfélagsmiðlum er notað til að hefta tjáningarfrelsi fréttamanna og í tilraunum til að þagga niður í fréttamönnum og umfjöllun þeirra. Fréttamenn geta illa setið undir því að siðareglur RÚV séu notaðar til að kæla umfjöllun þeirra,“ segir í ályktuninni og kallað er eftir því að siðareglurnar verði endurskoðaðar.