Stjórn RÚV hefur komið því á framfæri við lögmann á vegum Samherja að málefni einstakra starfsmanna RÚV séu ekki til úrlausnar á borði stjórnar RÚV. Stjórnin hlutist ekki til um fréttaflutnings eða dagskrá fjölmiðilsins, t.d. með þvi að leggja mat á hvaða starfsfólk sinni umfjöllun eða fréttaflutningi um tiltekin málefni.
Þetta kemur fram í svari stjórnarinnar til Samherja, sem birt er á vef RÚV í dag, en málið var rætt á stjórnarfundi í gær.
Samherji sendi stjórn RÚV erindi á mánudag þar sem þess var krafist að RÚV myndi meina fréttamanninum Helga Seljan að fjalla um mál sem tengjast fyrirtækinu eða koma að vinnslu efnis því tengdu. Sjávarútvegsfyrirtækið krafðist þess einnig að Helgi yrði áminntur í starfi.
Stjórn RÚV segir að það sé í höndum dagskrárstjóra, fréttastjóra sem og dagskrárgerðarfólks og fréttamanna að fara með þau verkefni, sem séu á ábyrgð útvarpsstjóra, samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið. Stjórn RÚV muni því ekki aðhafast neitt frekar vegna erindis Samherja.
Í yfirlýsingu frá fréttastofu RÚV eftir að úrskurður siðanefndar var kveðinn upp sagði að niðurstaða hennar myndi ekki hafa nein áhrif á störf Helga Seljan.
Ellefu starfsmenn kærðir fyrir ummæli
Samherja kærði ellefu starfsmenn RÚV í ágúst í fyrra vegna meintra brota á siðareglum miðilsins, sem kveða á um að fréttafólk þess taki ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í samfélaginu.
Í síðustu viku komst svo siðanefnd RÚV að því að fimm ummæli Helga á samfélagsmiðlum um Samherja hefðu brotið gegn siðareglum. Siðanefndin hefur síðan endurskoðað þá afstöðu sína og dregið til baka þá niðurstöðu að ein ummælin, sem snerust um fyrirtækið Eldum Rétt en ekki Samherja, væru brot á siðareglum.
Þorra ummælanna var vísað frá eða komist að þeirri niðurstöðu að þau brytu ekki í bága við siðareglur, fyrir utan nokkur ummæli Helga. Nefndin flokkar þessi ummæli, sem eru færslur á Twitter og Facebook, sem alvarleg brot á siðareglum RÚV, en bætti þó við að hún teldi ekki að Helgi hafi gerst brotlegur í starfi með þeim.
Niðurstaða stjórnar í takt við væntingar Félags fréttamanna
Stjórn Félags fréttamanna lýsti vonbrigðum sínum með niðurstöðu siðanefndar RÚV í síðustu viku og sagðist hafa áhyggjur af því hvaða afleiðingar niðurstaðan gæti haft fyrir gagnrýna fjölmiðlun. Stjórn félagsins sendi stjórn RÚV einnig erindi þar sem fjallað var um kröfu Samherja varðandi Helga og kom því á framfæri að stjórn RÚV ætti að vísa erindinu frá.
Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri fréttaskýringarþáttins Kveiks, sagði við Fréttablaðið í gær að hún spyrði sig að því hvers vegna stjórn Ríkisútvarpsins væri yfir höfuð að fjalla um kröfur Samherja. Til þess hefði hún ekkert umboð og það væri ekki hluti af hennar starfi.
„Þannig að ég ímynda mér og geri ekki ráð fyrir öðru en að þessu verði vísað frá og að það verði það sem verði sent til lögmanns Samherja. Stjórnin hefur ekkert með þetta erindi að gera,“ sagði Þóra við Fréttablaðið í gær.
Það hefur nú komið á daginn.