Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, er undrandi á þeim orðum Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, um að hann treysti ekki Bankasýslunni eftir síðasta útboðið á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór fyrir um mánuði síðan. Orðin lét Sigurður Ingi falla á Alþingi í gær. Sagði hann sérfræðinga hafa brugðist.
Lárus segist í samtali við Fréttablaðið í dag ekki hafa orðið var við neina gagnrýni frá ríkisstjórninni varðandi framkvæmdina sem slíka og „ég er enn sannfærður um að framkvæmdin hafi verið í samræmi við það sem kynnt var í upphafi“.
Bankasýslan hafi viðurkennt að kynning á útboðinu gagnvart almenningi hafi ekki tekist sem skyldi. Að öðru leyti óttist hann ekki boðaðar úttektir Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlits. „Ég raunar fagna því að allir angar þessa máls verði skoðaðir ofan í kjölinn. Sérstaklega sá þáttur sem snýr að söluaðilunum. Þar komu fram atriði sem komu okkur í Bankasýslunni á óvart,“ segir Lárus.
Viðbrögð ráðamanna gætu borið þess merki að verið sé að bregðast við óánægjunni í samfélaginu. „Viðbrögðin einkennast af því að það eigi að beina þeirri óánægju yfir á okkur,“ segir Lárus við Fréttablaðið.
Hann óttast að frekari sala ríkiseigna muni frestast en formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja hafa boðað að Bankasýslan verði lögð niður. „Það er, að mínu mati, sorglegt því það bitnar fyrst og fremst á fjármálum ríkisins, skuldastöðu þjóðarbúsins og getu til að standa að nauðsynlegri innviðauppbyggingu á vegum hins opinbera.“
Meðal þess sem gagnrýnt hefur verið við bankasöluna er hvernig þátttakendur í útboðinu voru valdir, hverjir voru valdir, upphæðirnar sem þeir keyptu fyrir, að faðir fjármálaráðherra hafi m.a. tekið þátt og að söluráðgjafarnir sem ráðnir voru til verksins hafi átt að fá mjög væna þóknun. Og margt fleira hefur einnig verið gagnrýnt.
Stjórnarandstaðan hefur farið fram á að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd til að fara yfir allt ferlið en ríkisstjórnin segir það vera óþarft, að minnsta kosti að sinni, þar sem bæði Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið séu með málið til skoðunar.
Skiptar skoðanir eru hins vegar innan stjórnarinnar hvað varðar traust til Bankasýslunnar. Líkt og að framan er rakið er það ekki upp á marga fiska hjá Sigurði Inga innviðaráðherra en fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, er á annarri skoðun. Í síðustu viku sagði hann við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis, um tilkynningu sína og formanna hinna tveggja stjórnarflokkanna um að leggja ætti Bankasýsluna niður: „Ef að málið snerist um algert vantraust á Bankasýsluna þá hefðum við einfaldlega sagt það. Þá hefðum við óskað eftir því að stjórnin myndi víkja og stjórnendur. En það er ekki það sem við erum að gera.“