Stjórnendur Íslandsbanka segjast hlusta á þá gagnrýni sem fram hefur komið um þátttöku starfsfólks hans í lokuðu útboði á hlutum íslenska ríkisins í bankanum sem fór fram fyrir rúmum mánuði. Reglur um þátttöku starfsmanna séu nú rýndar í kjölfar þessa.
Þetta kemur fram í svari Íslandsbanka við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Þar segir að alls átta starfsmenn, eða aðilar tengdir starfsmönnum, hafi tekið þátt í útboðinu, en fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun Íslandsbanka voru á meðal umsjónaraðila þess.
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands er að rannsaka háttsemi einhverra þeirra fimm innlendu söluaðila sem Bankasýslan valdi til að vinna að útboðinu. Heimildir Kjarnans herma að þar sé verið að skoða mögulega hagsmunaárekstra, meðal annars vegna þess að starfsmenn sumra söluráðgjafa hafi sjálfir tekið þátt í útboðinu. Þar sé að minnsta kosti verið að horfa á þátttöku áðurnefndra átta starfsmanna eða tengdra aðila innan Íslandsbanka og kaup stærsta eiganda Íslenskra Verðbréfa, sem er einnig eiginkona forstjóra fyrirtækisins, keypti auk þess hlut.
Aldrei tíðkast erlendis
Í minnisblaði Bankasýslu ríkisins til fjárlaganefndar, sem birt var í fyrradag, kom fram að það væri stofnuninni „mikil vonbrigði að strax í kjölfar útboðsins hefðu vaknað spurningar um mögulega bresti í framkvæmd þess, m.a. hugsanlega hagsmunaárekstra hjá aðilum sem stóðu að framkvæmd sölunnar og mögulega ófullnægjandi athugun á hæfi fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu.“
Hann hafi rekið augun í nafn starfsmanns Íslandsbanka á væntum kaupendalista þegar verið var að safna áskriftum og spurt bankann út í það, en fengið þau svör að regluvörður hefði samþykkt þetta. Jón Gunnar sagði að erlendis hefði það aldrei tíðkast að starfsmenn söluráðgjafa tækju þátt í útboði og að það hefði verið litið hornauga.
Stjórnendur bankans meðvitaðir um reglurnar
Tveir starfsmenn verðbréfamiðlunar Íslandsbanka, sem var á meðal söluráðgjafa, keyptu hlut í útboðinu. Ómar Özcan, sem keypti fyrir 27 milljónir króna, og Geir Oddur Ólafsson, sem keypti minnst allra þeirra sem voru samþykktir, eða fyrir rúmlega 1,1 milljón króna.
Þá keypti Brynjólfur Stefánsson, sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum, sjóðstýringarfyrirtækis í eigu Íslandsbanka, fyrir 4,5 milljónir króna, Guðmundur Magnús Daðason, sem starfar í gjaldeyrismiðlun bankans, keypti fyrir 5,5 milljónir króna og Ásmundur Tryggvason, sem er framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingasviðs, keypti fyrir 11 milljónir króna.
Ari Daníelsson, stjórnarmaður í Íslandsbanka, keypti fyrir 55 milljónir króna, og Ríkharður Daðason, sambýlismaður Eddu Hermannsdóttur markaðs- og samskiptastjóra bankans, keypti fyrir tæpar 27 milljónir króna.
Kjarninn hefur ekki upplýsingar um hver áttundi aðilinn er.
Í svörum Íslandsbanka við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að allir ofangreindir séu flokkaðir sem fagfjárfestar og hafi fengið leyfi regluvarðar til að kaupa í samræmi við reglur bankans þar að lútandi. „Starfsfólk þurfti að sækja um heimild til regluvarðar og höfðu þrengri tímaramma en aðrir til þátttöku, kveðið var á um lágmarkseignarhaldstíma og hámarksfjárhæð kaupa í samræmi við reglur. Allir ofangreindir starfsmenn sóttu um heimild í samræmi við reglur bankans og var á þeim grundvelli veitt heimild.“
Aðspurð um hvort aðrir stjórnendur bankans hafi komið að ákvörðun um hvort starfsmenn mættu kaupa svaraði upplýsingateymi Íslandsbanka: „Stjórnendur bankans eru meðvitaðir um þær reglur sem bankinn fylgir.“
Búið að greiða út stóran hluta af grunnþóknun
Allir söluráðgjafarnir sem Bankasýslan valdi áttu samtals að fá 703 milljónir króna fyrir starf sitt við útboðið. Þar af áttu innlendir söluráðgjafar að fá 322,5 milljónir króna. Sú upphæð skiptist þannig að 193,5 milljónir króna áttu að greiðast í svokallaða grunnþóknun en 129 milljónir króna í svokallaða valkvæða þóknun.
Bankasýslan hefur þegar greitt 79 milljónir króna í grunnþóknun en lögmenn hennar skoða nú hvort möguleiki sé að halda þeim 114,5 milljónum króna sem eftir standa af henni eftir. Aðspurður um greiðslu valkvæðu þóknunarinnar sagði Jón Gunnar á fundinum í gær: „Valkvæða þóknunin, við þurfum ekki að greiða hana.“
Staðan er öðruvísi hvað varðar erlendu söluráðgjafanna í útboðinu Þeir eru þegar búnir að fá 158 af 201,4 milljón króna grunnþóknun sinni greidda og ógreidd valkvæð þóknun til þeirra er 134,4 milljónir króna.
Í áðurnefndu minnisblaði Bankasýslu ríkisins, sem birt var á þriðjudag, segir að engin ákvörðun verði tekin um greiðslu á valkvæðri þóknun „fyrr en að niðurstaða athugunar Fjármálaeftirlits Seðlabanka („FME“) liggur fyrir og hefur stofnunin sagt opinberlega að ef einhverjir söluráðgjafar hafi brugðist stofnuninni þá muni valkvæð þóknun vera skert eða ekki greidd út.“
Fjármálaráðgjafi Bankasýslunnar er búinn að fá allar þær 39,5 milljónir króna sem hann átti að fá greiddar og lögmenn sem unnu fyrir hana í ferlinu 3,6 af 5,1 milljón króna.