Ríkisendurskoðun hefur lokið vinnu við stjórnsýsluúttekt um aðkomu Samgöngustofu og Isavia í kringum að starfsemi og rekstri WOW air í aðdraganda og kjölfar gjaldþrots flugfélagsins. Gert er ráð fyrir að skýrslan verði tekin til umræðu á fyrsta fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis eftir páskafrí, þann 7. apríl.
Umhverfis- og samgöngunefnd þingsins óskaði eftir þessari skýrslu í júní árið 2019 og bað sérstaklega um að kannað yrði hvaða heimildir Isavia hefði til að veita flugrekendum greiðslufrest á lendingar- og þjónustugjöldum, eins og WOW air fékk á sínum tíma.
Í skýrslubeiðninni var þess sérstaklega óskað að kannað yrði hvernig fyrirgreiðslur Isavia við WOW air rímuðu við samkeppnislög og ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins.
Skuldasöfnun hjá Isavia og eftirlit Samgöngustofu með rekstrarhæfi
Isavia þurfti sem kunnugt er að afskrifa yfir tvo milljarða íslenskra króna vegna skuldar WOW air við opinbera hlutafélagið, sem Isavia leyfði WOW air að safna upp þegar félagið var komið í fjárhagserfiðleika. Isavia reyndi síðan, þegar WOW air var farið á hausinn, að kyrrsetja þotu sem WOW air hafði á láni frá flugvélaleigufyrirtækinu AirLease Corporation (ALC) sem tryggingu fyrir skuldinni.
Sú þota flaug af landi brott 19. júlí 2019 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, sem komst að þeirri niðurstöðu að Isavia gæti ekki krafið ALC um ógreidd gjöld WOW air önnur en þau sem tengdust þessari tilteknu flugvél.
Einnig var Ríkisendurskoðun falið að draga fram hvernig Samgöngustofa hefði uppfyllt lögbundið hlutverk sitt í aðdraganda falls WOW air, en stofnunin hefur meðal annars það hlutverk að hafa eftirlit með því að flugfélög sem eru með útgefin flugrekstrarleyfi séu rekstrarhæf.
Eftir að WOW air varð gjaldþrota 28. mars 2019 var stofnunin gagnrýnd fyrir að grípa ekki fyrr inn í rekstur félagsins, þar sem ljóst var að eiginfjárstaða félagsins var afar bágborin og illa gekk að fá nýja fjárfesta að rekstrinum.
Trúnaður um skýrsluna þar til hún hefur verið kynnt nefndum
Að skýrslubeiðni umhverfis- og samgöngunefndar stóðu þingmennirnir Helga Vala Helgadóttir, Jón Gunnarsson, Ari Trausti Guðmundsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Vilhjálmur Árnason, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Karl Gauti Hjaltason og Bergþór Ólason. Hún var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum 18. júní 2019.
Skýrslan fæst ekki afhent frá Alþingi, en samkvæmt svari frá nefndasviði Alþingis til Kjarnans er venjan sú að skýrslur Ríkisendurskoðunar séu ekki birtar opinberlega fyrr en ríkisendurskoðandi er búinn að kynna efni þeirra fyrir viðeigandi nefndum þingsins.