Sex konur á aldrinum 18-48 hafa fengið sjaldgæfa tegund blóðtappa innan tveggja vikna eftir að fá bóluefni fyrirtækisins Johnson & Johnson. Yfirvöld tóku í dag þá ákvörðun að hætta notkun efnisins tímabundið af þessum sökum á meðan rannsakað verður til hlítar hvort að tengsl séu milli bóluefnisins og sjúkdómsins hjá konunum. Ein þeirra er látin og önnur liggur þungt haldin á sjúkrahúsi að því er fram kemur í frétt New York Times um málið. Um er að ræða sömu tegund blóðtappa og mögulega tengjast notkun AstraZeneca-bóluefnisins en bæði lyfin eru framleidd með sambærilegum aðferðum. Sóttvarnayfirvöld hér á landi hafa ákveðið að konur yngri en 55 ára fái ekki bóluefni AstraZeneca.
Bóluefnis Johnson & Johnson var beðið með mikilli eftirvæntingu þar sem aðeins einn skammt þarf af því í stað tveggja af þeim bóluefnum sem þegar eru komin á markað. Efnið fékk neyðarleyfi í Bandaríkjunum og hefur verið notað þar í nokkrar vikur. Það hefur einnig fengið markaðsleyfi í Evrópu en bólusetning með því er ekki hafin í álfunni.
Um sjö milljónir manna í Bandaríkjunum hafa fengið bóluefnið hingað til og um níu milljónum skammta til viðbótar hefur verið dreift til ríkja landsins.
Sérfræðingar Smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna (CDC) sem og vísindamenn Matvæla- og lyfjastofnunar landsins munu nú sameina krafta sína og rannsaka hvort að tengsl geti verið milli bóluefnisins og blóðtappanna. Í kjölfarið verður tekin ákvörðun um hvort halda eigi áfram að gefa fólki efnið og þá hverjum. Neyðarfundur hefur verið boðaður hjá sérfræðingaráði CDC á morgun, miðvikudag.
Í bóluefnaáætlunum bandarískra yfirvalda spilar bóluefni Johnson & Johnson stórt hlutverk þó að skammtar af því hafi hingað til verið mun færri en af bóluefnum Moderna og Pfizer-BionNTech sem einnig eru gefin í landinu. Hins vegar hafði verið stólað á hraða bólusetningu með efni J&J þar sem það átti aðeins að þurfa að gefa í einni sprautu. Einnig er mun einfaldara að meðhöndla það, það þarf ekki gríðarlegan kulda til geymslu eins og hin tvö efnin sem fyrr voru nefnd.
Til stóð að ná að bólusetja alla fullorðna í Bandaríkjunum fyrir maílok. Hvort að það muni takast mun skýrast á næstu dögum.
Milli 300 og 600 þúsund manns fá blóðtappa í Bandaríkjunum á hverju ári, segir í frétt New York Times. Hins vegar fengu konurnar sex mjög sjaldgæfa tegund blóðtappa og því þótti ekki annað hægt en að stöðva frekari bólusetningu tímabundið. Sérfræðingar vita enn ekki hvers vegna þessi blóðtappi virðist fylgja bólusetningu með efnum AstraZeneca og Johnson & Johnson en telja mögulegt að veikindin tengist viðbragði ónæmiskerfisins við bóluefnunum.