Í nokkrum löndum Evrópu hefur verið tilkynnt um blóðtappa hjá fólki sem nýverið hafði fengið bóluefni AstraZeneca. Eitt dauðsfall hefur orðið í Danmörku og hafa stjórnvöld þar ákveðið að hætta notkun bóluefnisins tímabundið af þeim sökum. Íslensk yfirvöld hafa ákveðið að gera slíkt hið sama þar til frekari upplýsingar berast frá Lyfjastofnun Evrópu.
„Við skulum bíða og sjá hvað verður. Fyrstu niðurstöður benda ekki til þess að tíðni á blóðtappa samhliða bólusetningu [með bóluefni AstraZeneca] sé hærri en gengur og gerist í samfélaginu,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hins vegar verði að leita af sér allan grun og vinnur Lyfjastofnun Evrópu nú að því.
Einn greindist með veiruna innanlands í gær og var hann í sóttkví við greiningu. Um er að ræða einstakling sem hafði verið útsettur fyrir smiti. Hann hafði farið í sýnatöku fyrir nokkrum dögum en reyndist þá neikvæður. Í gær fór hann aftur í sýnatöku og kom þá í ljós að hann er sýktur. Þórólfur segir þetta ekki eiga að koma á óvart og að við þurfum að vera undir það búin að fleiri, sem nú eru í sóttkví, greinist á næstunni.
Fimm hafa greinst með veiruna sem rakin eru til manns sem kom til landsins í lok febrúar og var neikvæður í fyrri skimun á landamærum en jákvæður í þeirri seinni. Allir eru þeir sýktir af breska afbrigði veirunnar sem er meira smitandi en önnur afbrigði.
„Næstu dagar munu skera úr um hvort að einhver frekari dreifing hafi orðið frá hópsmitinu en mikið hefur verið skimað í kringum þá sem hafa verið að greinast,“ sagði Þórólfur.
Þórólfur segir að eins og staðan er núna standi ekki til að leggja til harðari aðgerðir er núverandi reglugerð rennur út í næstu viku. Hins vegar er einnig „nokkuð í ljós“ að tilslakanir verði gerðar. Sóttvarnalæknir er með minnisblað í smíðum sem hann mun bráðlega senda heilbrigðisráðherra. Hans tillögur munu væntanlega endurspegla „tölurnar sem við munum sjá næstu daga“.
Hann segir að ef fólk fari að greinast utan sóttkvíar og úti í samfélaginu „þá þarf að sjálfsögðu að hugsa til þess hvort að þörf sé á frekari og harðari aðgerðum“.
Tíu reynst smitaðir sem voru með neikvæð vottorð
Frá því að nýjar reglur voru teknar upp á landamærunum 19. febrúar og farþegar skyldaðir til að framvísa neikvæðu COVID-prófi, hafa átta greinst með veiruna innanlands. Þar af voru fjórir í sóttkví við greiningu.
Enginn greindist á landamærunum í gær en frá 19. febrúar hafa 30 greinst þar með veiruna og þar af 17 með virk smit. Af þeim voru 10 með neikvæð COVID-próf við komuna til landsins en greindust engu að síður í skimun – sex í fyrri og fjórir í seinni. Þórólfur segir þetta sýna að neikvæð PCR-próf séu ekki gulltryggingin fyrir því að viðkomandi sé ekki smitaður við komuna.
„Við getum sagt að góðar líkur eru á því að okkur hafi tekist að ná utan um hópsýkinguna en það er ekki alveg að fullu ljóst því eins og við vitum getur liðið upp undir vika þar til við förum að sjá veikindi.“