„Það stafaði engum hætta af verkinu og það var allt gert eftir réttum leiðum og leyfi fengust. Það er stórfurðulegt og alvarlegt að bæjarstjóri sjái sig knúinn til að grípa inn í með þessum drastíska hætti,“ segir listamannatvíeykið Libia Castro og Ólafur Ólafsson um beiðni bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Rósu Guðbjartsdóttur, um að listaverk Libiu og Ólafs skyldi fjarlægt af gafli Hafnarborgar – menningar og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar.
Verkinu var komið fyrir á gafli Hafnarborgar á föstudag en í gærmorgun hafði það verið fjarlægt að beiðni bæjarstjórans. „Hvað veldur því að bæjarstjóri fyrirskipar að verk sé tekið niður á sunnudegi með skyndi, utan opnunartíma safnsins, er enn ósvarað,“ segja þau um málið en samkvæmt bæjaryfirvöldum lágu ekki tilskilin leyfi fyrir uppsetningu verksins.
Náðu sér sjálf í leyfi
Þau segjast hafa fengið munnlegt leyfi til að setja verkið upp frá sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og umsjónarmanni fasteigna bæjarins. Það hafi hins vegar ekki gengið þrautalaust fyrir sig því upphaflega fór forstöðumaður Hafnarborgar formlega leið að leyfisveitingu. Forstöðumaðurinn sendi inn fyrirspurn til að athuga hvort ekki mætti setja upp verk á gafl Hafnarborgar á síðasta ári. „Málið var þæft, það fengust ekki skýr svör,“ segja þau.
Þau Ólafur og Libia ákváðu í kjölfarið að afla leyfisins sjálf. Það hafi loks fengist á fimmtudag þegar munnlegt leyfi fékkst. Þau segjast enn ekki vita hvar og hvers vegna upphafleg fyrirspurn safnstjórans strandaði.
„Við höfum aldrei fengið skrifleg svör um af hverju þetta var ekki hægt. Við fengum einhver óljós svör, það var til dæmis reynt að bera því við að þetta væri kostnaðarsamt en það kostar ekkert að bora tíu göt og svo er bara fyllt í með múr aftur og málið afgreitt.“
Tilkynnti um þjófnað á verkinu
Libia og Ólafur segja að ekkert samráð hafi verið haft við listamennina eða Hafnarborg áður en verkið var fjarlægt. Þau hafi fengið símtal í gærmorgun þar sem þeim var tjáð að bæjarstjóri hefði óskað eftir því við sviðsstjóra menningarmála að verkið yrði tekið niður. Að sögn þeirra hafi forstöðumaður Hafnarborgar andmælt því að verkið yrði fjarlægt með þessum hætti og óskaði forstöðumaðurinn eftir því að beðið yrði fram á mánudag til að hægt væri að ræða málið. Þegar Libia og Ólafur mæta svo í Hafnarborg um hádegisbil hafi verkið verið horfið.
„Þess vegna hringdi ég í lögreglu og tilkynnti að það væri búið að fjarlægja listaverk okkar af sýningunni af gafli Hafnarborgar, þannig að ég var í raun og veru að tilkynna þjófnað. Ég sagði líka að við hefðum rökstuddan grun um að bæjaryfirvöld hefðu látið fjarlægja verkið og væri því líklega með það,“ segir Ólafur.
Hjá Hafnarfjarðarbæ eru menningar- og markaðsmál sem og starfsemi menningarstofnana á könnu þjónustu- og þróunarsviðs. Í samtali við Kjarnann segir Sigurjón Ólafsson, sviðsstjóri á þjónustu og þróunarsviði, að yfirvöld í Hafnarfirði ætli ekki að tjá sig um málið. „Rósa er búin að tjá sig um þetta mál við Vísi svo ég hef í sjálfu sér ekkert við þetta að bæta. Það voru ekki tilskilin leyfi að okkar mati og við erum að skoða þetta,“ segir Sigurjón. Í frétt Vísis sem Sigurjón vísar í var haft eftir Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, að tilskilin leyfi hefðu ekki verið til staðar og að hún vildi ekki tjá sig nánar um málið.
Verkið hluti af verðlaunagjörningi
Verkið sem um ræðir er nákvæm uppstækkun á einum af miðunum sem voru fylltir út af þátttakendum þjóðfundarins sem haldinn var árið 2010. „Þessi þátttakandi hafði skrifað á miðann: „Ekki kjafta ykkur frá niðurstöðum stjórnlagaþings.” Þetta eru skilaboðin á miðanum og þetta er verkið sem er fjarlægt,“ segir Ólafur.
Verkið er hluti af stærra verkefni Libiu og Ólafs, gjörningnum Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Gjörningurinn fór fram í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur og á götum úti við Stjórnarráðið og Alþingi þann 3. október síðastliðinn. Fyrir gjörninginn hlutu Libia og Ólafur íslensku myndlistarverðlaunin.
Nú stendur yfir sýningin Töfrafundur – áratug síðar í Hafnarborg þar nýja stjórnarskráin er í forgrunni. Í texta á heimasíðu safnsins segir um sýninguna: „Þessi sýning er næsti kaflinn í starfi listamannanna, sem einkennist af félagslegri virkni og inngripi, þar sem þau kanna tengslin á milli listar og aktívisma, auk þess sem þau vinna með kynngi listarinnar og mögulegan kraft hennar til að stuðla að samfélagslegum breytingum.“