Strokufanginn Gabríel Douane Boama, sem strauk úr haldi lögreglunnar við Héraðsdóm Reykjavíkur fyrir þremur dögum, var handtekinn í nótt.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að lögreglan hafi ráðist í umfangsmiklar aðgerðir í gærkvöldi og í nótt þar sem húsleitir voru gerðar og ökutæki stöðvuð. Þær aðgerðir leiddu til þess að Gabríel var handtekinn undir morgun og er nú vistaður í fangageymslu lögreglu. Fimm önnur voru handtekin í aðgerðum lögreglu sem rannsakar hvort strokufanganum hafi verið veitt aðstoð við að losna undan handtöku. Þau eru einnig í fangageymslu lögreglu. Í tilkynningunni segir að þessar aðgerðir séu afrakstur mikillar rannsóknarvinnu og vinnslu á upplýsingum sem lögreglu hafi borist frá almenningi.
Leit af Gabríel hefur staðið yfir síðan á þriðjudagskvöld þegar hann strauk úr haldi. Lögreglu bárust fjölmargar ábendingar frá fólki sem taldi sig hafa séð Gabríel. Kjarninn greindi frá því í gær að 16 ára drengur hafi tvívegis verið stöðvaður af lögreglu á tveimur dögum vegna ábendinga um að hann væri Gabríel. Í annað skipti var h ann í strætisvagni og hitt skiptið að kaupa bakkelsi í fylgd með móður sinni.
Í umfjöllun Kjarnans sem birtist í gær má meðal annars lesa lýsingu af myndbandi sem tekið var þegar lögreglumenn höfðu afskipti af unga drengnum í bakaríinu í gær.