Allt var með kyrrum kjörum í ferðamannabænum Barakh í Kúrdistan, sjálfstjórnarhérðai Kúrda í Írak, sem liggur skammt frá landamærum Tyrklands í norðurhluta landsins, þegar loftárás var háð með þeim afleiðingum að átta almennir borgarar létust og minnst 28 slösuðust. Ferðamannabærinn er staðsettur í fjöllunum í Kúrdistan, þar sem einnig halda til liðsmenn Kúrdíska verkamannaflokksins, sem eru á lista Tyrkja, Bandaríkjanna og Evrópusambandsins yfir hryðjuverkasamtök.
Tyrkir hafa um langt skeið háð stríð gegn Kúrdíska verkamannaflokknum, en aldrei áður hefur slíkt mannfall orðið á meðal almennra borgara. Barakh var stútfullur af ferðamönnum sem leitað höfðu upp til fjalla til að flýja 50 stiga hita sem víða hefur mælst í Írak undanfarna daga.
Fjölmargir hafa fordæmt árásina og meðal þeirra er Lenya Rún Taha Karim alþingismaður, en í færslu á Twitter gagnrýnir hún að Ísland sé í hernaðarbandalagi með landi sem fremji slík ógeðisverk. Einnig segir hún súrrealískt að vera hluta af þingi sem ekki hafi tekið neina sterka afstöðu gegn því „bandamenn“ Íslands geri öðrum þjóðum, til dæmis Kúrdum, en Lenya er sjálf af kúrdískum uppruna. Þá bendir hún á að Bandaríkin hafi fordæmt árásina og að Ísland hljóti að geta gert það sama „fyrst við lítum svona mikið upp til þeirra“.
Ábyrgð vísað á bug
Þess skal þó getið að í þeirri yfirlýsingu sem Lenya Rún vísar til, frá sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Írak, eru Tyrkir ekki sérstaklega nefndir, en yfirvöld í Tyrklandi hafa vísað ábyrgð á árásinni á bug og sagt hryðjuverkasamtök hljóta að bera á henni ábyrgð, og önnur lönd og alþjóðasamtök á borð við Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt árásina án þess að nefna Tyrkland sérstaklega á nafn.
Stjórnvöld í Írak eru þess þó fullviss að um tyrkneska árás hafi verið að ræða. Tyrkir hafi ítrekað farið yfir strikið í árásum sínum innan landsvæða Kúrdistan og árásin sé alvarlegt brot gegn landamærahelgi og fullveldi Íraks og Írak telji sig í fullum rétti til þess að bregðast við árásinni.
Það er eitthvað svo stórkostlega súrrealískt við það að Ísland sé í hernaðarbandalagi með landi sem fremur svona ógeðisverk. Svo súrrealískt að ég sé hluti af þingi sem hefur ekki tekið neina sterka afstöðu gegn því sem „bandamenn“ okkar eru að gera öðrum þjóðum, þ.á.m. Kúrdum. https://t.co/FDCT02fL0E
— Lenya Rún (@Lenyarun) July 21, 2022