Konunglegar erfðaskrár eru aldrei gerðar opinberar. Það verður því leyndarmál konungsfjölskyldunnar hvað verður um stóran hluta persónulegra eigna sem Elísabet II Englandsdrottning lætur eftir sig.
Raunveruleg auðæfi Englandsdrottningar hafa aldrei verið gerð opinber en samkvæmt úttekt sem bandaríska viðskiptatímaritið Forbes gerði í fyrra eru persónulegar eignir Elísabetar metnar á 500 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 70 milljörðum króna. Úttekt Sunday Times er ögn frábrugðnari, sem metur persónulegar eignir drottningar, umfram skuldir, á 370 milljónir punda eða sem nemur um 60 milljörðum króna.
Eignirnar samanstanda meðal annars af skartgripum drottningar, listaverkasafni, fjárfestingum og tveimur höllum, Balmoral-kastala í Skotlandi og Sandringham-höll í Norfolk. Báðar eignirnar erfði Elísabet frá föður sínum, Georgi sjötta konungi.
Leynilegar konunglegar erfðaskrár
„Konunglegar erfðaskrár eru leynilegar, við höfum í raun ekki hugmynd um hvað þær fela í sér og hvers virði þær eru. Innihald þeirra er aldrei gert opinbert,“ segir Laura Clancy, lektor í fjölmiðlafræði við Lancaster-háskólann og höfundur bókar um fjármál konungsfjölskyldna, í samtali við CNN.
En það er meira en fasteignir og landsvæði að finna í fórum drottningar. Hún átti til að mynda eitt stærsta frímerkjasafn heims sem hún erfði eftir afa sinn. Safnið er metið á 118 milljónir punda, eða tæpa 19 milljarða króna, og eru verðmætustu frímerkin metin á tæplega 300 þúsund krónur hvert.
Elísabet erfði einnig flestar eigur móður sinnar þegar hún lést árið 2002, allt frá postulínsstelli til hesta, auk verðmætra Faberge-eggja.
Auðæfi bresku konungsfjölskyldunnar í heildina eru metnar á 18 milljarða punda, jafnvirði rúmlega 2.850 milljarða króna. Mikilvægt er að gera greinarmun á persónulegum auðæfum drottningar, sem tiltekin eru í erfðaskrá hennar, og auðæfum konungsríkisins, þegar kemur að því hver mun erfa hvað.
Valkvæður tekjuskattur og enginn erfðaskattur
Karl III. Englandskonungur mun ekki borga skatt af því sem hann erfir en mun fylgja í fótspor móður sinnar og greiða tekjuskatt. Um valkvæðan tekjuskatt er að ræða þar sem tekjur konungs eru ekki gefnar upp og er upphæðin því úr lausu lofti gripin og hefur það verið gagnrýnt.
Hvorki Karl né systkini hans koma til með að greiða erfðaskatta en samkvæmt lögum sem samþykkt voru árið 1993 eru eignir sem metnar eru á 325 þúsund pund eða meira undanþegnar frá 40 prósent erfðaskatti sem annars þarf að greiða.
Fjölmargir eignasjóðir eru nú í umsjón Karls, þar á meðal eignasjóðurinn Duchy of Lancaster, sem komið var á fót árið 1265 og er metinn á 653 milljónir punda, eða sem nemur rúmlega 100 milljörðum króna. Sjóðurinn er notaður til að greiða fyrir það sem þjóðhöfðingjastyrkurinn (e. The Sovereign Grant) nær ekki yfir, og er auk þess nýttur til að styðja við aðra meðlimi konungsfjölskyldunnar.
Þjóðhöfðingjastyrkurinn samanstendur af framlagi frá breskum skattgreiðendum en greiðslur úr honum ná yfir opinberan kostnað drottningarinnar, nú konungsins, auk annarra helstu meðlima konungsfjölskyldunnar.
Kórónur, svanir, höfrungar og hvalir
Ef nánar er rýnt í hvað kemur í hlut Karls nú þegar hann er orðinn konungur má finna ýmislegt forvitnilegt. Meðal þess sem hann erfir er eignarhald á öllum svönum Bretlands, sem eru 32 þúsund talsins. Auk þess erfir hann eignarhald á öllum höfrungum og hvölum í breskri landhelgi, en þessi háttur hefur verið hafður á frá því á 12. öld.
Augu flestra beinast að því hvernig persónulegum eigum Elísabetar drottningar verður skipt. Búist er við að þeim verði skipt á milli fjögurra barna hennar og átta barnabarna, en í raun er henni frjálst að hafa erfðaskránni að vild. Konunglegum erfðaskrám hefur hins vegar verið haldið leyndum í áraraðir og ekki er búist við að nein breyting verði á því.