„Sveitarstjórn samþykkti að hafna öllum slíkum áformum um vindorkuver í Hörgársveit.”
Svo mörg eru orðin í fundargerð sveitarstjórnar Hörgársveitar frá því í lok apríl um þau tillögudrög verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar að flokka áformaða Vindheimavirkjun í orkunýtingarflokk. Fimm vindorkukostir voru metnir af verkefnisstjórninni og lagt til að þrír fari í nýtingarflokk og tveir í biðflokk. Hin fimm fyrirhuguðu vindorkuverin eru auk Vindheimavirkjunar við Alviðru, Sólheima, í Garpsdal og ofan Búrfells.
Sveitarfélagið Hörgársveit við Eyjafjörð var stofnað 12. júní 2010 með sameiningu Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps og nær yfir Galmaströnd, Hörgárdal, Öxnadal og Kræklingahlíð. Íbúarnir voru í lok síðasta árs 623 talsins.
Fyrirtækið Fallorka ehf., sem er með hið allt að 40 MW vindorkuver í austanverðum Hörgárdal á prjónunum, er að fullu í eigu Norðurorku, sem aftur rekur veitur á Akureyri og víðar á Eyjafjarðarsvæðinu. Hörgárdalur er umkringdur bröttum og háum fjöllum. Um dalinn rennur Hörgá en í dalbotninum er aðallega ræktunarland og tún en einnig votlendi. Nokkur skógræktarsvæði eru austanmegin í dalnum „og geta þau haft talsverð áhrif á hrýfi og orkuframleiðslu á svæðinu,“ segir í skýrslu um virkjanakostinn sem verkfræðistofan Efla vann fyrir Fallorku. Í dalnum eru nokkrir bóndabæir sem og sumarhúsabyggð. Þjóðvegur 1 liggur um Hörgárdal sem og byggðalínan. Svæðið sem er fyrirhugað fyrir Vindheimavirkjun er í um 200-300 m hæð í aflíðandi hlíð. Myllurnar yrðu 8-10 talsins og 150-200 metrar á hæð í hæstu stöðu.
Í niðurstöðu verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar, sem sendi frá sér skýrsludrög í lok mars er hún lauk starfstíma sínum, segir að hið fyrirhugaða virkjunarsvæði í Hörgárdal hafi fengið fremur lága verðmætaeinkunn. Hins vegar yrðu áhrif virkjunarinnar á ferðaþjónustu og útivist neikvæð. Sýnileiki vindorkuversins yrði umtalsverður og mynd það blasa við öllum vegfarendum sem fara um Hörgárdal og Öxnadal og ferðamönnum á enn stærra svæði. Vindheimavirkjun er fyrirhuguð á svæði sem er mjög nærri byggð og nokkur fjöldi íbúa mun búa við viðvarandi sjónræn áhrif. Það má, að því er fram kemur í niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar, búast við að skiptar skoðanir verði um áformin. „Lítil kynning“ hafi farið fram á þessum áformum og að nokkur hætta geti verið á að deilur skapist um framkvæmdina.
Sveitarstjórn hafi stærsta hlutverkið
„Þegar um er að ræða vindorkukosti sem hafa fyrst og fremst áhrif í einu sveitarfélagi og snerta hagsmuni íbúa og landeigenda beint þá telur verkefnisstjórn mikilvægt að sveitarstjórn í lýðræðislegu samráði við íbúa hafi stærsta hlutverkið í ákvörðun um hvort heimila beri framkvæmdir,“ segir í almennum rökstuðningi verkefnisstjórnarinnar um að setja Vindheimavirkjun í orkunýtingarflokk. „Lokaákvörðun um leyfi til framkvæmda verður í öllum tilfellum í höndum sveitarstjórna á grundvelli niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum og að teknu tilliti til upplýsinga sem aflað er við vinnslu skipulagsáætlana.“
Í vinnu verkefnisstjórnarinnar var gerð rannsókn á mögulegum samfélagslegum áhrifum nokkurra virkjanakosta, þeirra á meðal Vindheimavirkjunar. Í henni voru að hluta til lögð til grundvallar viðtöl við sveitarstjórnarmenn og hagsmunaaðila.
Samkvæmt henni eygja talsmenn Hörgársveitar ekki umtalsverð efnahagsleg tækifæri af Vindheimavirkjun og telja að fasteignaskattar af henni yrðu ekki miklir. Væntingar um staðbundin efnahagsleg áhrif virðast helst tengjast jörðum þar sem virkjunin yrði reist með endurgjaldi fyrir land. Litlu máli virðist skipta að sveitarfélögin á svæðinu, þar á meðal Hörgársveit, eiga Fallorku sem er virkjunaraðilinn. Skiptar skoðanir voru um hvort Vindheimavirkjun hefði áhrif á raforkuframboð en takmörkuð flutningsgeta raforku er til Eyjafjarðar vegna gamallar byggðalínu og bentu talsmenn sveitarfélagsins á að litlar vatnsvirkjanir gætu verið hluti af lausn þess vandamáls. Lítil sem engin kynning hefur farið fram á verkefninu í sveitarfélaginu og gagnrýndu fulltrúar sveitarfélagsins það.
Í ljósi reynslunnar af neikvæðri umræðu um endurnýjun byggðalínunnar í Hörgársveit, sem sveitarstjórnarmönnum þótti einnig illa kynnt, er talin hætta á að neikvæð umræða og jafnvel deilur skapist um Vindheimavirkjun. Efasemdir eru um að Vindheimavirkjun falli að því samfélagi sem Hörgársveit vill leggja áherslu á, þ.e. svæði þar sem unnt er að búa nálægt þjónustu og störfum á Akureyri, en geta notið þess á sama tíma að vera í rólegra umhverfi.
Í niðurstöðum þess faghóps rammaáætlunar sem skoðaði áhrif á ferðaþjónustu og útivist kemur fram að viðhorf til Vindheimavirkjunar séu að mestu leyti neikvæð, sérstaklega meðal ferðaþjónustuaðila.
Helsti kostur að hafa minni sýnileika en aðrir vindorkukostir
Helsti kostur tillögunnar var talinn sá að fjöldi vindmylla og sýnileiki þeirra væri minni en annarra vindorkuvera sem metin voru og að virkjunin gæti stuðlað að auknu raforkuöryggi á Norðurlandi. Hins vegar töldu fleiri viðmælendur Vindheimavirkjun hafa neikvæð áhrif en jákvæð. Virkjunin myndi sjást vel frá Eyjafirði og Svalbarðsströnd/Grenivík sem og frá hluta af Tröllaskaga. Faghópurinn mat einnig sem svo að þegar ferðamenn sem ferðuðust umhverfis Tröllaskaga yrðu fyrir áhrifum af sýnileika vindorkuversins í Hörgárdal „myndu þau áhrif fylgja þeim eftir á ferðalaginu“.
Mjög margir ferðamenn eru alla jafna á svæðinu, þar eru miklir afþreyingarmöguleikar og fjölbreyttar ferðaleiðir sem standa ferðamönnum til boða sumar sem vetur.
„Það er engu líkara en runnið hafi æði á fyrirtæki og rafmagnsriddara sem vilja reisa vindorkuver víða um land,“ skrifar Sveinn Runólfsson, fyrrverandi Landgræðslustjóri í nýjasta tölublað Bændablaðsins. Hann bendir á að á fjórða tug vindorkuhugmynda hafi ratað inn á borð síðustu verkefnisstjórnar rammaáætlunar. „Svo virðist sem fjárfestar og aðrir vilji festa sér hagstætt stæði í landinu þrátt fyrir að undirbúningur margra þeirra virðist vera afar skammt kominn,“ skrifar Sveinn. Hann segir það „vekja furðu“ hversu langt undirbúningur er kominn í uppbyggingu nokkurra vindorkuvera án þess að nokkur kynning hafi átt sér stað til sveitarstjórna og íbúa hlutaðeigandi byggða.
Rafmagnsvíkingarnir
„Meirihluti fyrirhugaðra vindorkuvera virðist vera í eigu erlendra fyrirtækja með hérlenda samverkamenn – rafmagnsvíkinga. Stórfellt erlent eignarhald á raforkuframleiðslu hér á landi hlýtur að vera stjórnvöldum og þjóðinni allri umhugsunarefni. Lætur nærri að ef öll þessi vindorkuver verða að veruleika væri uppsett afl mun meira en öll raforkuframleiðslan landsins um þessar mundir. Hvað á að gera við alla þessa orku og hverjir ætla að kaupa hana?“
Hann bendir á að staðsetning vindmylla og vindorkuvera í byggð hafi „mikil og víðtæk“ búsetuáhrif. Víti til varnaðar sé uppsetning tveggja vindmylla fyrir nokkrum árum við byggðina í Þykkvabæ sem þó séu lægri en vindmyllurnar sem rætt er nú um að reisa víða um land. „Þrátt fyrir að vindmyllurnar í Þykkvabænum hafi verið óstarfhæfar síðustu misserin hafa þær ekki verið fjarlægðar og eru öllum til ama [...] Íbúar Þykkvabæjar gleðjast þó yfir að gnýrinn frá þeim angrar þá ekki lengur.“
Að mati Sveins skortir ekki aðeins heildarsýn fyrir landið allt í þessum málaflokki heldur einnig yfir hvar vindorkuver eigi alls ekki að vera með tilliti til áhrifa á landslag. Enn fremur vantar sárlega leiðsögn og „tæki“ fyrir sveitarstjórnir til að taka vandaðar og samræmdar ákvarðanir um nýtingu vindorku. „Á meðan framangreint liggur ekki fyrir eiga sveitarstjórnir aðeins þann kost að hafna öllum hugmyndum um vindorkuver eða fresta ákvörðunum.“
Til þess að varðveita sérstöðu íslensks landslags er ljóst að mati Sveins að það fyrirfinnst „enginn staður hér á landi þar sem vindorkuver geta verið í sátt við náttúruna og okkur sjálf. Alþingi ætti að taka þá ákvörðun að vindorkuver verði ekki reist hér á landi. Slík ákvörðun kemur í veg fyrir óafturkræf umhverfisslys.“
Á tímamótum
„Íslendingar standa á tímamótum varðandi nýtingu orkuauðlinda því virkjun vindorku er að hefjast af fullum krafti,“ skrifaði Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar í skýrslunni um tillögudrögin. „Þótt vindurinn sé óþrjótandi er land undir vindorkuver það ekki. Landið er hin takmarkaða auðlind í þessu tilfelli. Vindmyllur eru nú um 150 m háar og fara hækkandi. Þær eru því afar áberandi í landslagi og sjást víða að. Vindorkuver munu valda miklum breytingum á ásýnd landsins ef ekki verður varlega farið.“
Verkefnisstjórnin telur brýnt að sett verði heildarstefna um virkjun vindorku hér á landi og tekin ígrunduð ákvörðun um hvort afmarka eigi fá vel skilgreind svæði fyrir vindmyllur eða setja því litlar skorður hvar vindorkuver fá að rísa. „Nú er einstakt tækifæri að setja slíka stefnu áður en framkvæmdir hefjast víða um land.“