Fjölmiðlar og vísindamenn hafa gert að umfjöllunarefni sínu kosti og galla þess að leyfa kórónuveirunni að leika nokkurn veginn lausum hala. Enn er talsvert um smit, bæði á Íslandi og erlendis, þó staðan hér sé með betra móti. Í umfjöllun Atlantic er spurningarmerki sett við það hvort rétt sé að leyfa veirunni að ganga svo að segja óáreittri. Fleiri smit þýði jú fleiri stökkbreytingar og fleiri stökkbreytingar fleiri smit, sem skapi eins konar vítahring.
Í samtali við Kjarnann sagðist Þórólfur ósammála því að um vítahring væri að ræða, heldur einfaldlega eðlilega þróun. Rétt sé að faraldurinn sé ekki á undanhaldi, enda sé kórónuveiran öðruvísi en margar veirur að því leyti að hún valdi kvefeinkennum sem upp geti komið aftur og aftur, og búi ekki til gott ónæmi hjá fólki sem smitist. Það sé einfaldlega sá staður sem faraldurinn sé á og ómögulegt sé að segja til um hvort hann þróist í þá áttina að veiran muni einungis valda kvefi og engum alvarlegum einkennum, eða hvort upp komi nýtt afbrigði sem komist algjörlega hjá fyrra ónæmi. Hið síðarnefnda sé hins vegar ólíklegt.
Séu endursmit skoðuð megi sjá að þau séu langalgengust hjá þeim sem smituðust snemma í faraldrinum á árunum 2020 og 2021 og áður en ómíkron-afbrigðið leit dagsins ljós. Hjá þeim sem smitast hafi seinna og af ómíkron sé hlutfall endursmita langt undir 1%. Það gæti þó breyst með tolkomu nýrra afbrigða sem virðist vera að komast undan ónæmi. Hins vegar séu endursmit í nær öllum tilfellum vægari en fyrsta smit.
Spurður að því hvort ráðlegt væri að fara aftur í einhvers konar takmarkanir til þess að lækka smithlutfall segir Þórólfur að það myndi líklega hafa lítið uppá sig. Í janúar og febrúar á þessu ári, þegar strangar takmarkanir voru í gildi, höfum við samt sem áður horft upp á talsverðan vöxt í faraldrinum einfaldlega vegna þess að ómíkron-afbrigðið hafi verið mun meira smitandi en önnur afbrigði og takmarkanir haft takmörkuð áhrif.
Það afbrigði sem ráði ríkjum í augnablikinu, BA.5, sé meira smitandi og það afbrigði sem nú virðist vera að skjóta upp kollinum í heiminum, BA.2.75, enn meira smitandi. Til að koma í veg fyrir útbreiðslu þessara afbrigða þyrfti mjög strangar takmarkanir sem yrðu erfiðar í framkvæmd og samt sem áður væri óvíst með árangur slíkra aðgerða. Ólíklegt sé að stjórnvöld eða almenningur sé tilbúinn í slíkt. Enn sé fólk þó hvatt til að huga að persónulegum sóttvörnum.
Þórólfur segir þó að eðlilega verði takmarkanir skoðaðar ef staðan versni mikið, en það hafi hún ekki gert í langan tíma. Um 30 manns liggja inni á Landspítala vegna kórónuveirusýkingar, flestir með sína fyrstu sýkingu, og einn eða tveir á gjörgæslu. Hann vonast til þess að ónæmið verði fljótlega svo gott að tölur fari lækkandi.
Samfélagsónæmi sé þó þegar mjög gott á Íslandi og ef svo væri ekki væri ástandið allt annað og verra. Eins og stendur er ekki verið að mæla með fjórðu bólusetningarsprautu nema fyrir ákveðna hópa, en Þórólfur segir kapp áfram verða lagt á að bólusetja eldra fólk og aðra sem veikir eru fyrir. Að öðru leyti geti verið best að fá náttúrulega sýkingu í vel bólusetta þjóð þannig hægt verði að fá eins gott ónæmi og mögulegt er.