Í breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar fram til ársins 2040, sem þessa dagana bíða afgreiðslu borgaryfirvalda, er verið að gera ýmsar breytingar á stefnu borgarinnar um íbúðabyggð og skilgreina nýja reiti, marga hverja inni í grónum hverfum, sem uppbyggingarreiti.
Nágrönnum eins slíks reits við Ægisíðu 102 í vesturbæ Reykjavíkur líst illa á áformin sem borgin hefur sett fram um viðmið uppbyggingar á reitnum og óttast að lóðarhafinn, Festi hf., muni láta skipuleggja þar íbúðabyggð sem rími illa við umhverfi reitsins, til að hámarka arðsemi byggingarreitsins.
Íbúarnir, sem sendu inn sameiginlega umsögn við skipulagsbreytingar borgarinnar undir lok ágústmánaðar, segjast mótmæla því að sá rammi sé lagður upp í aðalskipulaginu að á reitnum, sem er við Ægisíðu 102 og hýsir í dag bensínstöð N1, verði „heimilt að byggja allt að 5 hæða hús og/eða fleiri en 50 íbúðir“.
„Að okkar mati standa engar forsendur til svo umfangsmikillar uppbyggingar á þessari lóð, hvað sem líður almennum fyrirvörum um að endanlegar ákvarðanir um byggingarmagn o.fl. verði teknar í tengslum við gerð deiliskipulags,“ segir í umsögn íbúanna, sem allir búa í næsta nágrenni og segja fleiri í grenndinni deila áhyggjum þeirra af skilgreiningum reitsins.
Íbúarnir segja svæðið í kring einkennast af einnar til tveggja hæða íbúðahúsum á fremur litlum lóðum og vísa í nýlega umfjöllun Kjarnans um lóðir bensínstöðva sem Festi ætlar að skipuleggja íbúabyggð á samkvæmt samkomulagi við borgaryfirvöld.
Þar sagði auk annars frá því að í fjárfestakynningu Festis frá því í sumar hafi komið fram að byggingarmagn á reitnum væri áætlað 13 til 15 þúsund fermetrar, en samkvæmt samkomulagi borgarinnar við Festi, sem undirritað var í maí, eru hugmyndir fyrirtækisins um uppbyggingu húsa sem verði á 2-4 hæðum. Lóðin sem um ræðir er um 6.000 fermetrar að flatarmáli.
„Við munum bara búa til deiliskipulag og selja byggingaraðilum, við erum ekki að fara í byggingarbransann,“ sagði Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festis við Kjarnann um þessi áform og önnur á lóðum þar sem bensínstöðvar munu víkja samkvæmt samkomulagi við borgina.
Nágrannar lóðarinnar við Ægisíðu segja í erindi sínu til borgarinnar að út frá samkomulagi borgarinnar við Festi, auglýstri tillögu um aðalskipulagið og yfirlýsingum forstjóra Festis blasi við að ætlunin sé að „fullnýta ítrustu heimildir til uppbyggingar á lóðinni“.
Furða sig á því að Festi fái byggingarréttinn
Auk þess sem íbúunum hrýs hugur við því mikla byggingarmagni sem fyrirhugað er, samkvæmt fjárfestakynningu Festi, furða þeir sig á því að byggingarrétturinn á þessum reit, sem þeir áætla að sé rúmlega milljarðs króna virði, renni til Festis yfir höfuð.
„Það vekur furðu að þetta sé gert þegar haft er í huga að núgildandi lóðarleigusamningur Festi vegna Ægisíðu 102 rennur út árið 2027. Í 6. gr. samningsins kemur fram að vilji borgarstjórnin ekki að loknum leigutíma samningsins framlengja leigusamninginn skuli hún greiða leigutaka sannvirði mannvirkja sem á lóðinni standa. Í þessu felst að Festi á engan rétt til lóðarinnar eftir árið 2027 og rekstri bensínstöðvar þar sjálfhætt nema vilji Reykjavíkurborgar stæði til þess að framlengja samninginn,“ segja íbúarnir.
Þeir bæta því við að með vísan til þessa hefði mátt ætla að borgin myndi að minnsta kosti setja lóðarhafanum við Ægisíðu 102 „skýrar skorður varðandi þá uppbyggingu sem til álita geti þar komið“ og gæta þannig almannahagsmuna.
Íbúarnir telja að Reykjavíkurborg bæri að kynna sérstaklega fyrir íbúum vesturbæjar samkomulag sitt við Festi og útskýra hvernig borgin telji hagsmunum hverfisins best borgið með því að afhenda Festi skipulagsgerð og byggingarrétt vegna lóðar sem Reykjavíkurborg muni hafa fullan umráðarétt yfir eftir sex ár, gegn minniháttar uppgjöri við lóðarhafa.