„Það er auðvitað mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi. Og það vekur kannski spurningar vegna þess að við búum í mjög litlu samfélagi þar sem við höfðum ekki séð fyrir að þarna gætu slík náin tengsl verið uppi á borðum í þessum kaupendalista.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun þegar hún var spurð, af Sigmari Guðmundssyni þingmanni Viðreisnar, hvort það væri í lagi að ráðherra gæti tekið ákvörðun um sölu ríkiseignar þegar náinn ættingi viðkomandi væri á meðal kaupenda.
Þar vísaði Sigmar í að á meðal þeirra 207 fjárfesta sem fengu að kaupa 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars síðastliðnum í lokuðu tilboðsútboði var faðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, en hann ber ábyrgð á sölu ríkiseigna.
Katrín var mætt fyrir nefndina vegna setu sinnar í ráðherranefnd um efnahagsmál til að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluferlið, þar sem fram kom að fjölmargir annmarkar hafi verið á söluferlinu. Á fundinum sagði hún að fjármála- og efnahagsráðherra bæri ábyrgð gagnvart söluferlinu, að rökstuðningur fyrir framkvæmd þess væri málefnalegur og byggði á skýrum forsendum. „Það er hin almenna rannsóknarskylda sem ráðherrann hefur í þessu máli, en ekki að fara yfir 150-200 fjárfesta og kanna þar hver tengsl þeirra eru. En að því sögðu þá var mjög óheppilegt að þarna hafi verið um þessi nánu tengsl að ræða.“
Liggur ekki fyrir hvenær Bankasýslan verður lögð niður
Bankasýsla ríkisins var harðlega gagnrýnd í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir framkvæmdina á sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka, en forsvarsmenn hennar hafa hafnað þeirri gagnrýni og varið sig af hörku, meðal annars með birtingu athugasemda á heimasíðu sinni.
Ríkisstjórnin ákvað hins vegar 19. apríl, tæpum mánuði eftir söluna og mörgum mánuðum áður en skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út, að leggja niður stofnunina og setja alla frekari sölu á hlutum í Íslandsbanka á ís á meðan að á rannsókn Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á ferlinu stóð.
Katrín sagði á fundinum í dag þeir annmarkar sem höfðu verið staðfestir af Ríkisendurskoðun, en höfðu líka verið til umræðu í ríkisstjórn í vor, hefðu leitt í ljós þörfina fyrir endurskoðun á lagaumgjörð og stofnanafyrirkomulagi. „Það var niðurstaða okkar að eðlilegt væri að leggja niður Bankasýsluna og leggja til nýtt fyrirkomulag. Við erum ekki búin að leggja til nýtt fyrirkomulag.“
Þegar um sé að ræða sölu á almannaeign sé ekki nægjanlegt að hafa í huga það sem tíðkist á almennum mörkuðum. Það þurfi að hafa í huga önnur sjónarmið. „Þess vegna til dæmis lagði ég á það mikla áherslu að þessi færi listi yrði birtur, sem var ekki ráðgjöf Bankasýslunnar, á sínum tíma. Kannski má segja að það hafi valdið mér verulegum vonbrigðum að skynja þá afstöðu gagnvart sölu á almannaeign, að það væri ekki vlji til þess að upplýsa um þennan kaupendalista. Mér fannst það segja mér að þetta fyrirkomulag þarfnaðist verulegrar endurskoðunar. En hvernig það nákvæmlega verður ætla ég ekki að segja til um fyrr en við erum komin með einhverja mótaða tillögu um það.“ Það sé þó alveg á hreinu að það þurfi að skýra betur aðkomu Alþingis og tryggja betur nauðsynlegt gagnsæi sem þurfi að vera til staðar þegar almannaeignir eru seldar.
Listinn birtur gegn vilja Bankasýslunnar
Kaupendalistinn yfir þá 207 aðila sem fengu að kaupa hlut í Íslandsbanka í mars var birtur 6. apríl.
Þar kom í ljós að margir þeirra voru mun minni fjárfestar en flestir höfðu talið að ættu að fá að taka þátt í ferlinu. Þeir sem keyptu fyrir minna en 30 milljónir króna voru 59 talsins. Þeir sem keyptu fyrir minna en 50 milljónir voru 79.
Á meðal kaupenda voru síðan faðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Bjarni sagði í kjölfarið að hann hafi ekki vitað um þátttöku föður síns, Benedikts Sveinssonar, fyrr en hann fékk kaupendalistann afhentan.
Á meðal annarra sem var að finna á listanum voru starfsmenn söluráðgjafa útboðsins, fjölmargir aðilar sem voru fyrirferðamiklir í bankarekstri fyrir bankahrun, fólk í virkri lögreglurannsókn, útgerðareigendur með enga augljósa sérþekkingu á fjármálastarfsemi, skammtímafjárfestar sem höfðu keypt og selt aftur hratt eftir frumútboðið og einstaklingar sem fáum hafði fyrirfram dottið í hug að teldust vera fagfjárfestar. Sá sem keypti fyrir lægstu upphæðina keypti fyrir um 1,1 milljón króna.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar var söluferlið á Íslandsbanka gagnrýnt harkalega. Stofnunin sagði fjölþætta annmarka hafa verið á sölunni. Í niðurstöðu hennar sagði að standa hefði átt betur að sölunni og hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlutinn í bankanum. Ákveðið var að selja á undirverði til að ná fram öðrum markmiðum en lögbundnum. Huglægt mat hafi ráðið því hvernig fjárfestar voru flokkaðir og orðsporsáhætta af söluferlinu var vanmetin.