Átta greindust innanlands í gær og voru fimm þeirra utan sóttkvíar við greiningu. „Við erum áfram að sjá töluverðan fjölda greinast daglega innanlands,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi dagsins. Flestir hafa verið í sóttkví en nokkrir utan hennar sem erfitt er að rekja.
„Ákveðnar vísbendingar eru um að þessi hópur gæti nú verið að fara vaxandi,“ sagði Þórólfur og tók fram að rakning stæði enn yfir og beðið væri eftir niðurstöðum úr raðgreiningu smita gærdagsins. Á þessari stundu væru engar vísbendingar um að þeir sem greindust utan sóttkvíar tengdust. Öll greindust smitin á Suðurvestur- og Suðurlandi. „Þetta er merki um það að við erum ekki búin að ná utan um samfélagssmit á þessari stundu.“
Frá því að innanlandsaðgerðir voru hertar í síðustu viku hafa 38 greinst innanlands. 28 voru í sóttkví og 10 utan hennar. Öll smitin eru af völdum nokkurra undirtegunda breska afbrigðis veirunnar.
Flest smitin tengjast smitum sem komu upp í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar, sagði Þórólfur, má stóran hluta smita sem greinst hafa utan sóttkvíar undanfarna daga rekja til ferðamanns – eða ferðamanna – sem greinst hafði í seinni skimun „og virðist hafa farið óvarlega í sinni fimm daga sóttkví.“
Spurður frekar út í þetta sagði Þórólfur að þegar „nánar hafi verið að gáð“ hafi sést að hópur fólks var að greinast með sömu veiruna sem hægt var að rekja til landamæranna. „Og þá sjáum við hvernig smitið hefur orðið og þannig höfum við getað lokað hringnum í nokkrum tilfellum.“
Búast má við alvarlegum veikindum
Sóttvarnalæknir segir því of snemmt að segja til um hvenær takist að ná utan um þau smit sem eru í gangi núna en vonast til að það verði á næstu tveimur vikum. Hann sagði viðbúið að fleiri smit ættu eftir að greinst hjá þeim sem eru nú í sóttkví. Einnig væri viðbúið að alvarleg veikindi og innlagnir á sjúkrahús ættu eftir að verða á næstu 1-2 vikum.
Hann telur því mikilvægt að halda áfram aðgerðum til að minnsta kosti 15. apríl.
Þórólfur sagðist ánægður með síðustu reglugerð heilbrigðisráðherra um enn hertari aðgerðir á landamærunum. Allir sem koma frá „dökkrauðum“ löndum eru nú skikkaðir til að afplána sína sóttkví í sóttvarnarhúsum. Þetta á jafnt við útlendinga sem Íslendinga. Honum var bent á að Íslendingum búsettum erlendis þætti þetta mörgum heldur hart. Hann svaraði því til að fyrir þessu væru góð og gild rök. Dæmin sýndu að fólk væri ekki „almennilega“ að halda sóttkví og þess vegna verði að bregðast við því með þessum hætti. „Og þetta er aðferðin til að gera það.“
Hægt væri að sækja um undanþágur en „ég á von á því að þar verðum við eins ströng og mögulegt er.“ Hann hélt svo áfram: „Við erum að reyna að vernda innviði hér á landi eins og mögulegt er og þetta er tilraun til þess.“
Bóluefnin koma hraðar
Nokkur upptaktur í bólusetningum er væntanlegur á næstunni að sögn Þórólfs. Þannig á hann nú von á því að fyrir apríllok verði komið hingað til lands bóluefni til að fullbólusetja um 80 þúsund manns. Rétt yfir 20 þúsund hafa verið fullbólusettir nú þegar.
Alma Möller landlæknir sagði á fundinum að það færi að styttast í að við náum undirtökunum i baráttunni við faraldurinn. Spurð hvort líkur færu á því að bólusetja þyrfti fólk reglulega í framtíðinni fyrir COVID-19 sagði hún að svo gæti mögulega farið.
„Þegar ég segi tímabundið ástand myndi ég halda einhverjir mánuðir í viðbót. Bóluefni eru að fara að berast á meiri hraða og bóluefnaframleiðendur eru að auka framleiðslugetu sína. En þessi nýju afbrigði eru áhættuþáttur. Allir framleiðendur eru að búa sig undir það að þurfa að breyta bóluefnunum í takti við ný afbrigði. Það getur verið að bæta þurfi nýrri bólusetningu ofan á þær sem við erum að fá núna. En mér þykir ólíklegt að það næðu að rísa jafnstórar bylgjur þegar lengra verður komið í bólusetningu.
Hins vegar gætum við þurft að endurtaka bólusetningar. Við vitum til dæmis ekki hversu lengi vörn þeirra dugar. Allir eru að huga að því að þetta gæti jafnvel verið með okkur lengur þó að við þurfum ekki jafn takmarkandi aðgerðir í framtíðinni og við erum með núna.“