„Þetta er í vinnslu,“ segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, í svari við fyrirspurn Kjarnans þar sem hann er spurður hvort stofnunin sé búin að taka saman minnisblað um gjafir og greidda hádegisverði í kjölfar eða í aðdraganda beggja útboða sem fram hafa farið með hluti ríkisins í Íslandsbanka.
Fram kom á opnum fundi fjárlaganefndar í lok apríl síðastliðins að Jón Gunnar hefði meðal annars þáð vínflöskur, flugelda, konfekt og málsverði frá söluráðgjöfum í ferlinu. Nefndarmenn fóru fram á ítarleg svör um málið og sagðist forstjórinn ætla að taka saman minnisblað um þessar gjafir og greiddu hádegisverði.
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, var spurður sömu spurninga og svaraði hann neitandi fyrir sitt leyti.
Fundur fjárlaganefndar kom til vegna gagnrýni á sölu á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka þann 22. mars síðastliðinn á 52,65 milljarða króna. Alls fengu 207 fjárfestar þá að kaupa hluti á verði sem var samanlagt 2,25 milljörðum króna undir markaðsvirði bankans í lokuðu útboði sem fór fram samkvæmt tilboðsleið.
Jón Gunnar segir jafnframt í svari sínu til Kjarnans að ekki liggi fyrir hvenær fyrrnefnt minnisblaðið verði tilbúið eða hvort Bankasýslan muni birta það opinberlega.
Salan skoðuð
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands skoðar nú háttsemi einhverra þeirra fimm innlendu söluaðila sem Bankasýslan valdi til að vinna að útboðinu. Heimildir Kjarnans herma að þar sé verið að skoða mögulega hagsmunaárekstra, meðal annars vegna þess að starfsmenn sumra söluráðgjafa hafi sjálfir tekið þátt í útboðinu.
Ríkisendurskoðun vinnur einnig að stjórnsýsluúttekt á sölunni. Kjarninn greindi frá því í júní að skil á niðurstöðunni myndi frestast. Skýrslan átti sem sagt að koma út í júní en nú er stefnt að því að skila henni fyrir verslunarmannahelgi.