Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp sem felur í sér að framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði verði lækkuð og sá atkvæðaþröskuldur sem flokkur þarf að klífa til að fá styrki verði hækkaður úr 2,5 í fjögur prósent. Sú breyting myndi ekki hafa áhrif á þá níu flokka sem fá styrki úr ríkissjóði í dag en sá eini þeirra sem náði ekki inn á þing í kosningunum í fyrrahaust var Sósíalistaflokkur Íslands, sem fékk 4,1 prósent atkvæða.
Í frumvarpi er einni lagt til að hver flokkur sem fær að minnsta kosti einn mann kjörinn á Alþingi, og á í dag rétt á 12 milljón króna grunnrekstrarframlagi, fái héðan í frá sjö milljónir króna og að styrkir til að mæta útlögðum kostnaði vegna kosningabaráttu verði aflagðir.
Þá vilja þingmennirnir fimm; Diljá Mist Einarsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Óli Björn Kárason, að hámarksgreiðslur einstaklinga og lögaðila til stjórnmálaflokka verði hækkaðar úr 550 þúsund krónum í 1,3 milljónir króna.
Flokkar í „öruggum faðmi hins opinbera“
Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu segir að það sé eindregið mat flutningsmanna þess að sú þróun sem hafi orðið hér á landi vegna hárra framlaga hins opinbera til stjórnmálaflokka dragi úr stjórnmálastarfi flokka og tengslum þeirra við flokksmenn sína og við atvinnulífið, enda þurfa flokkarnir sífellt minna á þeim að halda í öruggum faðmi hins opinbera.
Píratar vilja fara í allt aðra átt
Þetta er ekki eina frumvarpið sem lagt hefur verið fram í upphafi þings sem snýst um að breyta fjármögnun stjórnmálaflokka.
Þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér að lögaðilar megi ekki styrkja stjórnmálasamtök eða stjórnmálafólk með beinum hætti. Í núgildandi lögum mega lögaðilar gefa 550 þúsund krónur á ári til stjórnmálasamtaka og 400 þúsund krónur á ári til einstakra frambjóðenda.
Sömuleiðis vill þingflokkurinn að allir afslættir lögaðila af vörum og þjónustu og veittir eru af markaðsverði verði sérgreindir í reikningum. „Lögaðilar sem inna af hendi einhvers konar framlög til stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda, í formi afslátta eða hvers konar efnislegra gæða, skulu sérgreina heildarfjárhæð slíkra framlaga í ársreikningum sínum og gera Ríkisendurskoðun sérstaklega grein fyrir þeim afslætti. Telja skal saman framlög tengdra aðila. Afslættir mega ekki vera umfram það sem öðrum viðskiptavinum stendur almennt til boða.“
Þeir einstaklingar sem eigi fyrirtæki geti sem stendur ekki aðeins styrkt stjórnmálasamtök persónulega heldur einnig í krafti fyrirtækja sinna. „Þetta fyrirkomulag er ólíðandi í lýðræðissamfélagi og fer í raun þvert á markmið laganna um að tryggja gagnsæi, jafnræði og að berjast gegn spillingu. Því er lagt til í frumvarpi þessu að fella brott heimild lögaðila til að styrkja stjórnmálasamtök og stjórnmálafólk með beinum hætti.“
Í greinargerðinni er einnig bent á að fyrirtæki geti styrkt stjórnmálasamtök óbeint. „Það er ekki óalgengt að fyrirtæki gefi jafnvel þjónustu sína eða veiti meiri afslátt en gengur og gerist gagnvart öðrum viðskiptavinum. Því er nauðsynlegt að það sé greint frá því á gagnsæjan hátt til þess að aðrir viðskiptavinir geti notið sömu kjara.“
Verði frumvarpið samþykkt myndi það bitna mest á Sjálfstæðisflokknum, sem fékk alls 16,7 milljónir króna í fjárframlög frá lögaðilum á árinu 2020, sem er síðasti birti ársreikningum flokksins. Á meðal þeirra lögaðila sem greiddu Sjálfstæðisflokknum hámarksstyrk upp á 550 þúsund krónur á því ári voru sjávarútvegsfyrirtæki mest áberandi.
Flokkar settir á fjárlög
Framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði voru hækkuð verulega í byrjun síðasta kjörtímabils. Tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 um 127 prósent var samþykkt í fjárlögum sem voru afgreidd áður en þingi var slitið í lok desember 2017. Framlög til stjórnmálaflokka á því ári áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna. Framlögin hækkuðu síðan jafnt og þétt og voru 728,2 milljónir króna síðustu þrjú ár.
Til viðbótar við þær greiðslur er kostnaður vegna starfsmanna þingflokka greiddur af Alþingi.
Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi kemur fram að það eigi að lækka framlag til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði á árinu 2023, en nú eru þiggjendurnir níu þar sem Sósíalistaflokkur Íslands uppfyllir einnig skilyrði til að þiggja styrkina.
Ekki er um stórkostlega breytingu að ræða. Framlagið verður lækkað úr 728,2 í 692,2 milljónir króna á ári, eða um 36 milljónir króna.
Fjárhagsstaða flokka hefur kúvenst á fáum árum
Þorri tekna allra flokka sem eiga sæti á þingi á árinu 2020 voru framlög úr opinberum sjóðum. Í tilfelli Flokks fólksins og Pírata komu 98 prósent tekna úr ríkissjóði eða frá Alþingi eða sveitarfélögum, í tilfelli Miðflokksins var hlutfall tekna úr opinberum sjóðum tæplega 94 prósent, hjá Vinstri grænum 92 prósent og rúmlega 91 prósent tekna Viðreisnar komu úr opinberum sjóðum.
Framsóknarflokkurinn sótti 87 prósent tekna sinna á árinu 2020 í opinbera sjóði, Samfylkingin 75 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn 66 prósent.
Þessi framlög hafa kúvent fjárhagsstöðu flokkanna átta. Eigið fé þeirra jókst samtals um 748,5 milljarða króna frá árslokum 2017 og til loka árs 2020.
Bjarni vill draga úr opinberum styrkjum
Aukin framlög úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka hafa verið gagnrýnd víða á undanförnum árum. Þau komu aftur til umræðu í sumar eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, fór í tvö viðtöl. Í öðru þeirra, við Dagmál á mbl.is, sagði Bjarni að hann teldi það fjölflokkakerfi sem sé á Íslandi, þar sem átta flokkar eru á þingi og einn til viðbótar hafi ekki verið langt frá því að ná inn, sé að stóru leyti sjálfsköpuð staða. Flokkarnir hafi ákveðið að stórauka framlög úr ríkissjóði og setja þannig reglur að þeir flokkar sem fá ákveðið hlutfalla atkvæða, 2,5 prósent, fái líka mikið fjármagn, jafnvel þótt þeir nái ekki inn á þing.
Á Sprengisandi á Bylgjunni skömmu síðar sagði Bjarni að hann vildi draga úr opinberum styrkjum til stjórnmálaflokka og að það veki „athygli hve ríflegur stuðningur er við stjórnmálaflokka sem engan fulltrúa fá kjörinn á Alþingi í kosningum.“
Sagði Bjarna vilja ýkja völd Sjálfstæðisflokksins
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, svaraði þessu og sagði að hugrenningar Bjarna um að útiloka smærri stjórnmálaflokka frá opinberum styrkjum væru algjörlega á skjön við það sem gerist í okkar heimshluta. Tilgangurinn væri að ýkja völd Sjálfstæðisflokksins umfram fylgi og draga úr áhrifum kjósenda annarra flokka.
Auk þess taldi Gunnar Smári að sögulegar ástæður væru fyrir afstöðu Bjarna. „Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir stórauknum styrkjum til stjórnmálaflokka snemma á öldinni, þegar flokkurinn naut mikils fylgis og fékk lang mest af þessum styrkjum. Eftir Hrun minnkuðu styrkir til flokksins í takt við minna fylgi undir formennsku Bjarna. Þetta lék fjárhag flokksins illa, segja má að hann hafi étið upp allt það eigið fé sem lá í Valhöll, höfuðstöðvum flokksins sem verktakafyrirtæki reistu til að launa greiðasemi hans við stór verktakafyrirtæki. Nú hefur flokkurinn hins vegar fengið leyfi til að byggja íbúðir á lóðinni við Valhöll og mun líklega fá 1,5 milljarð króna að launum í það minnsta. Bjarni og flokkurinn eru því ekki jafn háðir bótagreiðslum frá ríkinu og áður. Hann treystir sér nú til að hefja umræðu um breytt kerfi.“
Bjarni svaraði í færslu á Facebook og sagði það rangt hjá Gunnari Smára að hann „vilji Sósíalistaflokkinn feigan“.