Þjóðverjar hafa ekki dregið nógu mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda til þess að hægt sé að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins að mati Angelu Merkel Þýsklandskanslara. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Merkel á árlegum sumarblaðamannafundi kanslarans. Fundurinn var ef til vill hennar síðasta formlegi blaðamannafundur en hún lætur af embætti eftir kosningarnar í haust, eftir 16 ára setu í embætti kanslara.
Merkel sagði Þjóðverja hafa lagt þung lóð á vogarskálarnar í baráttunni við loftslagsbreytingar. Hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa hefði farið úr 10 prósentum upp í 40 prósent og losun gróðurhúsalofttegunda hefði dregist saman um 20 prósent á milli áranna 1990 og 2010 og svo um önnur 20 prósent á síðustu 10 árum.
Að hennar mati hafi árangurinn þó ekki verið nógur ef hann er metinn til hliðsjónar við markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun hitastigs jarðar innan við tvær gráður og helst innan við 1,5 gráður miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu. Merkel sagði að allar þjóðir heims ættu það sameiginlegt að hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar, ekki bara Þjóðverjar.
Þjóðin gæti sýnt gott fordæmi
Merkel sem er með doktorspróf í eðlisefnafræði sagði að hún gæti sagt það með fullri vissu að aðstæður í loftslagsmálum krefðust þess að meira væri gert og að aðgerðum þyrfti að hraða. Þjóðverjar einir gætu ekki breytt loftslaginu með aðgerðum sínum, en þjóðin gæti sýnt gott fordæmi. Hún sagði enn fremur umhverfismál hafa mótað allan hennar pólitíska feril en hún var umhverfisráðherra frá 1994 til 1998 í ríkisstjórn Helmut Kohl.
Loftslagsmálin eru ofarlega á baugi í þýskum stjórnmálum í kjölfar mikilla hamfaraflóða í vesturhluta landsins. Í umfjöllun Deutsche Welle segir að í framsögu sinni á fundinum hafi Merkel annars vegar fjallað um flóðin og hins vegar um kórónuveirufaraldurinn. Í kjölfarið tók við 80 mínútna spurningatími.
Merkel, sem hefur heimsótt flóðasvæðin tvisvar, talaði um þá eyðileggingu sem blasti við henni á flóðasvæðunum. Enn sé fólks saknað en að minnsta kosti 170 létust í flóðunum. Í vikunni samþykkti ríkisstjórn Merkel að veita 200 milljónum evra, um 30 milljarða króna, í aðgerðir handa fólki á flóðasvæðunum.
Kórónuveirusmit á uppleið á ný
Fjölgun kórónuveirusmita í landinu væri áhyggjuefni að mati Merkel og nú þyrfti að horfa aftur til aðgerða sem hindrað gæti smit. „Að koma í veg fyrir að heilbrigðiskerfið sligist undan álagi hefur verið leiðarstef í okkar aðgerðum,“ sagði Merkel á fundinum um aðgerðir stjórnvalda. Merkel lofaði í kjölfarið bólusetningar og sagði að fólk ætti að hvetja aðra í kringum sig til þess að fara í bólusetningar. Um 60 prósent Þjóðverja hafa fengið að minnsta kosti einn skammt bóluefnis en nú er útlit fyrir að Delta afbrigði veirunnar sé að koma af stað nýrri bylgju þar í landi.
Samkvæmt tölum frá Our World in Data greindust rúmlega 1900 með COVID-19 í Þýskalandi í gær og er sjö daga meðaltal yfir fjölda smita sem greind eru á degi hverjum komin yfir 1400. Þetta meðaltal stóð í tæplega 600 við upphaf mánaðar. Tæplega 3,8 milljónir hafa fengið COVID-19 í landinu frá upphafi faraldurs og rúmlega 91 þúsund hafa látist vegna veirunnar.