Kærunefnd útlendingamála felldi í dag úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að fella niður þjónustu umsækjanda um alþjóðlega vernd hér á landi, sökum þess að sá hinn sami vildi ekki undirgangast PCR-próf.
Eitt mál af þessum toga var kært til kærunefndarinnar og segir í úrskurði hennar, sem Kjarninn hefur undir höndum, að ekki verði séð að Útlendingastofnun hafi haft heimild í lögum til þess að beita sér með þeim hætti sem hún gerði.
„Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. maí 2021, um að fella niður þjónustu við kæranda er felld úr gildi,“ segir í úrskurðarorðum kærunefndarinnar.
Áshildur Linnet, teymisstjóri hjá Rauða krossinum, segir í samtali við Kjarnann að þetta ætti að hafa fordæmisgildi fyrir alla þá einstaklinga sem hafa verið sviptir þjónustu af hálfu Útlendingastofnunar að undanförnu. Þeir eigi þá rétt á að komast aftur í búsetuúrræði á vegum stofnunarinnar, eftir að hafa verið kastað á dyr fyrir um mánuði síðan.
„Við fögnum þessari niðurstöðu enda er hún í samræmi við túlkun okkar á þessari heimild í útlendingalögum og reglugerð um útlendinga,“ segir Áshildur.
Hún segir að Rauði krossinn hafi þegar sett sig í samband við Útlendingastofnun og að samtökin vonist til þess að allir þeir einstaklingar sem verið hafa sviptir þjónustu á undanförnum vikum komist aftur inn í búsetuúrræði strax í dag, en fjöldi þeirra er hátt á annan tug.
Úrskurðurinn hafi áhrif á alla í sömu stöðu
„Þetta var gagnvart umbjóðanda sem að nýtti rétt sinn til að synja líkamsrannsókn þegar sú líkamsrannsókn var hluti af því ferli að koma viðkomandi úr landi og tengdist lýðheilsusjónarmiðum ekki með nokkrum hætti heldur var einungis liður í því að geta framkvæmt brottvísun á viðkomandi aðila,“ segir Magnús Norðdahl lögmaður mannsins sem hafði betur í málinu í dag, um niðurstöðu kærunefndarinnar í málinu.
„Þessir aðilar vildu koma í veg fyrir sínar eigin brottvísun eins og gengur og gerist, það fer enginn sjálfviljugur úr landi þegar hann er að flýja lífshættulegar aðstæður. Útlendingastofnun refsaði þessum hópi með því að svipta húsnæði og fæði. Við sögðum að það væri ólögmætt og nú hefur kærunefnd útlendingamála fellt úr gildi þessa ákvörðun Útlendingastofnunar að svipta umbjóðanda okkar húsnæði og fæði með þessum hætti. Þetta hefur auðvitað áhrif á alla þá aðila sem í sömu stöðu eru,“ segir Magnús ennfremur, í samtali við Kjarnann.