Sóttvarnalæknir hefur lagt til við heilbrigðisráðherra að einstaklingar sem framvísa vottorðum á landamærum, um ýmist bólusetningu eða fyrri sýkingu COVID-19, verði látnir undirgangast eina skimun gegn COVID-19 er þeir koma til landsins.
Ekki er búið að taka afstöðu til þess hvort farið verði að ráðum sóttvarnalæknis hvað þetta varðar, en samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu verður fjallað um þessa tillögu í ráðherranefnd og ríkisstjórn í vikunni.
Í minnisblaði Þórólfs til ráðherra segir að þetta sé lagt til sökum þess að fyrir nokkrum dögum hafi bólusettur farþegi greinst með kórónuveiruna í nefkoki. Ekki hafi verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti til þessa að bólusettir og þeir sem sýkst hafi af COVID-19 beri ekki með sér veiruna, þó að það sé talið ólíklegt.
„Þetta fyrirkomulag mun hjálpa við að skera úr um þetta atriði og á sama tíma lámarka áhættuna á að veiran berist hingað til lands. Þetta er sérstaklega mikilvægt á þessari stundu þar sem að faraldurinn er í miklum vexti víðast hvar og ný afbrigði veirunnar eru að koma fram. Á þessari stundu er óljóst hvort þessi nýju afbrigði sleppi undan vörnum núverandi bóluefna eða fyrri sýkinga,“ segir í minnisblaði Þórólfs.
Ekki öll vottorð utan verði viðurkennd
Sóttvarnalæknir lagði einnig til í minnisblaði sínu að tímabundið verði einungis tekin gild vottorð um fyrri sýkingu eða bólusetningarvottorð frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada.
Ekki er heldur búið að taka afstöðu til þessarar tillögu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hún verður rædd í ráðherranefnd og ríkisstjórn síðar í vikunni, rétt eins og tillaga Þórólfs um skima bólusetta og þá sem hafa áður fengið COVID-19 einu sinni við komuna til landsins.