„Minnisblað fer frá mér til ráðherra á næstu dögum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í svari við fyrirspurn Kjarnans um hvenær ljóst verður hvaða innanlandsaðgerðir munu gilda yfir jól og áramót. Þórólfur heldur oftast spilunum þétt að sér þegar minnisblöðin eru í smíðum. Á því hefur engin breyting orðið miðað við stutt og laggott svar hans til Kjarnans.
Núverandi reglugerð um takmarkanir á samkomum fólks vegna farsóttar tóku gildi 12. nóvember og gilda til 22. desember. Samkvæmt þeim mega 50 manns koma saman í sama rými en heimilt er að hafa allt að 500 manns í rými á viðburðum gegn því að fólk framvísi neikvæðu hraðprófi og að 1 metra nálægðarmörk séu tryggð. Ef það er ekki hægt skal fólk bera grímu fyrir vitum.
Eins metra nálægðarreglan er svo almenn, t.d. á vinnustöðum og í annarri starfsemi, eins og segir í reglunum. Það sama á við um grímuskyldu. Hana skal virða þar sem ekki er unnt að tryggja eins metra bil milli ótengdra einstaklinga.
Þegar þessar hertu takmarkanir voru settar á voru að greinast um 200 smit á dag. Þrýstingur var á þjónustu Landspítala og þar sem alvarleg veikindi og sjúkrahúsinnlagnir vegna COVID-19 koma í ljóst 1-2 vikum eftir að smit ná hámarki, voru engir sénsar teknir og takmarkanir hertar til að draga úr líkum á slíkri þróun.
Eftir að reglurnar voru settar hefur svo nýtt afbrigði veirunnar, ómíkron, skotið upp kollinum. Það virðist meira smitandi en delta-afbrigðið en að sama skapi eru vísbendingar um að það valdi ekki jafn alvarlegum veikindum þótt enn eigi margt í því sambandi eftir að skýrast.
Upp, upp
Víða í löndunum í kringum okkur hafa aðgerðir verið hertar umtalsvert. Þannig er því t.d. farið í Danmörku og Noregi. Smittölur rísa þar hátt sem og í flestum Evrópuríkjum. Hættan sem sóttvarnalæknar vara við er sú að þótt ómíkrón valdi mildari einkennum hjá flestum gæti smitfjöldinn, yrði hann gríðarlegur, engu að síður aukið álagið á heilbrigðiskerfið.
Svo virtist um tíma sem að hinar hertu aðgerðir hér væru að skila þeim árangri að niðursveifla væri í smittölunum. En síðustu daga hefur smitum fjölgað dag frá degi á ný.
Frá 1. júlí hafa 232 þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna COVID-19. 41 hefur þurft á gjörgæslumeðferð að halda. Af þeim sem greinst hafa með sjúkdóminn hér á landi hafa 36 látist frá upphafi faraldursins.
Tveir á gjörgæslu
Í dag liggja ellefu á sjúkrahúsi vegna COVID og tveir eru á gjörgæslu og báðir eru í öndunarvél. Meðalaldur inniliggjandi COVID-sjúkra á Lanspítalanum er 75 ár. Meira en þriðjungur þeirra sem eru í einangrun í augnablikinu og í þjónustu hjá COVID-göngudeildinni eru börn. Það er mikill munur frá því í fyrri bylgjum faraldursins.
Heil níutíu prósent landsmanna, 12 ára og eldri, eru fullbólusett. Það er með hæsta hlutfalli þjóðar sem þekkist í heiminum. Tæplega 150 þúsund hafa að auki þegið örvunarbólusetningu. Bólusetning barna á aldrinum 5-11 ára hefur verið boðuð í byrjun næsta árs.