Það er áhyggjuefni hversu margir hafa greinst með COVID-19 utan sóttkvíar hér innanlands að mati Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. „Það mynstur sem við sjáum núna bendir til að samfélagslegt smit sé útbreiddara heldur en talið var,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi Almannavarna.
Hann sagði óvenju marga hafa greinst innanlands yfir helgina. Á laugardag greindust sex einstaklingar með veiruna, þar af þrír í sóttkví en í gær greindust fimm með veiruna og þar af þrír í sóttkví. Þórólfur gerir ráð fyrir að á þriðjahundruð muni þurfa að fara í sóttkví vegna smita helgarinnar.
Alls greindust 19 á landamærunum, þar af fimmtán með virk smit. Inni í þeirri tölu eru tíu skipverjar á súrálsskipi sem kom til Reyðarfjarðar í gær frá Brasilíu. Beðið er raðgreiningar vegna smitsins í skipinu. Þórólfur gerir ráð fyrir að öll áhöfnin, alls 19 manns, sé smituð þrátt fyrir að tíu þeirra hafi greinst í gær.
Þórólfur sagði blikur á lofti varðandi faraldurinn hér innanlands. Það væri áhyggjuefni hversu margir hefðu greinst innanlands utan sóttkvíar. Hann hvatti því alla sem sýna minnstu einkenni að drífa sig í sýnatöku og halda sig til hlés þar til niðurstaða bærist. „Við erum enn að sjá fólk með einkenni COVID vera úti í samfélaginu og mæta ekki í sýnatöku fyrr en mörgum dögum síðar,“ sagði Þórólfur
Hefur undirbúið tillögur að breyttum aðgerðum á landamærum
Líklega megi rekja uppruna smita til landamæranna. „Við höfum einnig verið að sjá aukningu á smitum á landamærum og er það líka áhyggjuefni vegna þess að við höfum verið að sjá dreifingu frá þessum smitum á landamærum út í samfélagið og ég held að það geti verið uppruni þessara smita sem við höfum verið að greina að undanförnu,“ sagði Þórólfur.
Undirbúningur að tillögum um frekari aðgerðir á landamærum er hafinn og Þórólfur sagðist ætla að senda ráðherra þær tillögur á næstu dögum.
Tilkynningar um tvö tilvik blóðtappa
Alma Möller, landlæknir, hvatti fólk einnig til að fara í sýnatöku ef einkenni eru til staðar. Hún sagði það einnig mikilvægt að fólk þekkti einkennin sem hún svo tíundaði: „Hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta og slappleiki, hálssærindi og kvefeinkenni, skyndileg breyting á bragð- og lyktarskyni og síðan í sjaldgæfum tilfellum einkenni frá meltingarvegi eins og niðurgangur og uppköst.“
Alma sagði ávinninginn af notkun bóluefnis AstraZenica hafa verið metinn meiri en áhættan en áhættan sé fólgin í alvarlegum en sjaldgæfum aukaverkunum. Hún sagði áhyggjur vera uppi um að aukaverkanirnar séu algengari hjá yngra fólki og konum en það lægi ekki alveg ljóst fyrir. Aukaverkanirnar tengist fyrst og fremst blóðstorkukerfinu og væru þrenns konar.
Í fyrsta lagi væru um blóðsega eða blóðtappa í fótleggjum og lungum að ræða. Sjúkdómur sem Alma sagði vera vel þekktan. Hún sagði að ekki væri hægt að segja með vissu um að aukin áhætta á slíkum blóðtöppum fylgdi bólusetningu en áhættan sneri aðallega að ungu fólki. Hérlendis hefði lyfjastofnun fengið tilkynningar um tvö tilvik lungnablóðtappa.
Ekki hefði verið tilkynnt um hinar tvær sjaldgæfari aukaverkanirnar en þær eru annars vegar sjaldgæfir blóðsegar í bláæðum heila og sjaldgæfir blóðsegar í smáæðum.
Fréttin hefur verið uppfærð.