„Þetta er algjörlega alrangt og ég vísa því til föðurhúsanna,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag, spurður um viðbrögð við þeim ummælum Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, að sóttvarnayfirvöld væru að grafa undan ákvörðun stjórnvalda sem stefna að því að taka upp litakóðunarkerfi á landamærunum 1. maí.
„Það sem við erum að gera er að halda okkur við faglega hluti,“ sagði Þórólfur með áherslu. Hann og landlæknir kæmu með faglegar ráðleggingar, sem taki mið af stöðu faraldursins innanlands sem og erlendis hverju sinni ásamt fleiri þáttum á borð við bólusetningar. „Og við erum heiðarleg í því að skýra frá því.“ Hann sagði ekki tímabært að ræða litakóðunarkerfið. Samkvæmt lögum bæri honum að koma með ráðleggingar til stjórnvalda. „Ég er ekki bundinn af litakóðunarkerfinu.“
Alma Möller landlæknir sagðist telja að við ættum að áfram að viðhafa „ítrustu varnir á landamærunum – sérstaklega vegna þess að faraldurinn er á mikilli siglingu erlendis. Nýju afbrigðin breyta leikreglunum.“
Hún benti m.a. á að þó að horfur væru á hraðari bólusetningu á næstu vikum væri yngra fólk enn bólusett, einmitt sá hópur sem breska afbrigði veirunnar virðist sýkja meira en önnur afbrigði. Hún sagði það sameiginlegt markmið „okkar og ríkisstjórnar“ að taka skynsamlegar ákvarðanir með tilliti til faraldursins í víðu ljósi.