Í ljósi þróunar faraldursins erlendis og reynslunnar hérlendis af fullri afléttingu takmarkana „þá tel ég varhugavert að slaka meira á þeim sóttvarnaaðgerðum innanlands en þeim sem nú eru í gildi,“ skrifar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í nýjasta minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra. Í því leggur hann til að núverandi takmarkanir innanlands gildi óbreyttar í að minnsta kosti einn mánuð til viðbótar.
Heilbrigðisráðherra tók undir þá tillögu Þórólfs að framlengja innanlandsaðgerðir en að þær muni gilda óbreyttar til 20. október og verði þá endurskoðaðar. Áfram verða því fjöldatakmarkanir í gildi sem og eins metra nándarregla auk takmarkana á opnunartíma veitingahúsa svo dæmi séu tekin. Síðustu daga hefur smitum fjölgað nokkuð, aðallega vegna hópsýkingar á Akureyri.
Í minnisblaði Þórólfs til heilbrigðisráðherra er þróun faraldursins rakin frá því að öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum hér á landi var aflétt 26. júní og slakað á sýnatökum hjá farþegum á landamærunum. Þórólfur bendir á að þessar tilslakanir hafi verið gerðar í ljósi þess að smit voru fátíð og um 70 prósent þjóðarinnar fullbólusett og rétt þótti að láta reyna á hvort bólusetningin væri nægilega áhrifarík til að koma í veg fyrir útbreiðslu jafnvel þótt ljóst væri að smit myndu koma til landsins með ferðamönnum. Tveimur til þremur vikum eftir afléttingu sóttvarnaaðgerða tók hins vegar smitum að fjölga, fjölgun varð sömuleiðis á innlögnum á Landspítala og alvarleg veikindi jukust.
Bólusettir um helmingur innlagðra
Í þessari bylgju faraldursins eða frá 1. júlí hafa um 5.200 einstaklingar greinst smitaðir hér á landi, 117 þurft á spítalainnlögn að halda, tuttugu hafa lagst inn á gjörgæsludeild og þrír látist. „Um helmingur þeirra sem greindust smitaðir og þurftu að leggjast inn á spítala var fullbólusettur og því ljóst að smit og alvarleg veikindi geta sést einnig hjá bólusettum einstaklingum þó í minna mæli sé,“ skrifar Þórólfur.
Í þessari bylgju, heldur Þórólfur áfram, er sömuleiðis smit og alvarleg veikindi algengari hjá óbólusettum börnum en sést hefur í fyrri bylgjum og hafa til þessa tvö alvarlega veik börn lagst inn á sjúkrahús. „Ástæður þessarar hröðu útbreiðslu kórónuveirunnar eru ekki þekktar en líklegast má rekja skýringuna að stórum hluta til hins nýja delta-afbrigðis veirunnar sem er töluvert meira smitandi en önnur afbrigði, veldur skæðari sjúkdómi og sleppur meira undan verndandi áhrifum bóluefnanna.“
Ýmsar tilslakanir gerðar erlendis
Eftir að aðgerðir innanlands og á landamærum voru hertar á ný í lok júlí hefur daglegum smitum fækkað og eru þau nú um 20-60, breytileg eftir daglegum fjölda tekinna sýna. Sömuleiðis hefur innlögnum á sjúkrahús fækkað. Nú eru átta einstaklingar inniliggjandi á Landspítala, þar af einn á gjörgæslu í öndunarvél. Þórólfur fjallar svo í minnisblaðinu um hvað verið er að gera út í heimi í aðgerðum gegn faraldrinum. Hann segir að margvíslegar tilslakanir hafi undanfarið verið gerðar í ýmsum löndum, sérstaklega þar sem vel hefur gengið að bólusetja. Hins vegar er mismunandi hvort tilslakanirnar hafi leitt til aukinnar útbreiðslu en bæði Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) spá aukinni útbreiðslu nú í byrjun vetrar „og hafa hvatt þjóðir til að viðhafa áfram nauðsynlegar sóttvarnir þ.á.m. fjöldatakmarkanir, nándarreglu og notkunar andlitsgrímu við skilgreinda atburði,“ skrifar Þórólfur.
Í ljósi alls þessa mælir hann svo með að núverandi aðgerðir gildi í mánuði til viðbótar í það minnsta. Sem fyrr segir hefur ráðherra fallist á framlengingu en til 20. október í stað mánaðar líkt og sóttvarnalæknir lagði til.