Frá og með fyrsta september mega ekki fleiri en 8 þúsund rafskútur vera til útleigu í Ósló, höfuðborg Noregs. Einnig munu fyrirtækin sem leigja út rafskúturnar þurfa að læsa þeim að næturlagi og standa straum af umsýslukostnaðinum sem lendir á borgaryfirvöldum vegna farartækjanna. Þetta kemur fram í norska dagblaðinu Avisa Oslo.
Leigurnar, sem eru nú 12 talsins, munu þurfa að greiða borgaryfirvöldum alls 7,7 milljónir norskra króna á hverju ári vegna kostnaðarins sem hlýst af þeim. Þetta jafngildir rúmlega 108 milljónum íslenskra króna. Með nýju fjöldatakmörkunum á rafskútunum munu leigurnar því borga rúmlega sjö þúsund íslenskar krónur fyrir hverja rafskútu sem þeir leigja út.
Búist er við að stór hluti þessarar upphæðar fari í uppsetningu á völdum stæðum í borginni þar sem leggja má skúturnar, en hún verður einnig notuð til þess að fjármagna þróun hugbúnaðar sem mun gera borgaryfirvöldum kleift að hafa yfirsýn yfir öll farartækin.
Rúmlega fjórfalt fleiri rafskútur á íbúa en í Reykjavík
Samkvæmt frétt norska dagblaðsins VG frá því fyrr í sumar var talið að 25 þúsund rafskútur yrðu til leigu í sumar í borginni, sem jafngildir um 350 rafskútur á hverja 10 þúsund íbúa.
Til samanburðar eru samtals um 1.850 rafskútur til útleigu á höfuðborgarsvæðinu hér á landi hjá þremur stærstu rafskútuleigunum, Hopp, Wind og Zolo, en það jafngildir tæplega 79 rafskútum á hverja 10 þúsund íbúa. Því eru rúmlega fjórum sinnum fleiri rafskútur á hvern íbúa í Ósló heldur en í Reykjavík og nágrenni.
Hins vegar mun rafskútunum líklega fækka umtalsvert í Osló eftir að hámarksfjöldinn verður settur á um næstu mánaðarmót , en ef honum verður fylgt yrðu 112 rafskútur til leigu á hverja 10 þúsund íbúa. Þrátt fyrir það yrði fjöldi rafskúta enn meiri á höfðatölu í borginni en á höfuðborgarsvæðinu hérlendis, ef miðað er við fjölda rafskúta sem leigðar eru út hjá Zolo, Wind og Hopp.