Þrettán manns greindust með COVID-19 innanlands í gær. Þrátt fyrir að fimm af þeim hafi verið í sóttkví hafði hún staðið stutt yfir, samkvæmt tilkynningu frá almannavörnum.
Þetta er mesti fjöldi smita sem greinst innanlands frá 23. mars, er fjórtán manns greindust með veiruna. Degi síðar, 24. mars, ákváðu stjórnvöld að herða sóttvarnaráðstafanir verulega og var fyrst slakað á þeim síðasta fimmtudag.
Í tilkynningu almannavarna segir að af þeim þrettán einstaklingum sem greindust í gær hafi tíu tengsl við leikskólann Jörfa í Reykjavík, en allir starfsmenn og nemendur þar eru nú í sóttkví. Tæplega 100 börn eru í leikskólanum og starfsmenn eru 33 talsins.
„Samkvæmt nýlegum leiðbeiningum um heimasóttkví þurfa allir sem dvelja á sama heimili að vera í sóttkví og því má búast við að mjög margir verði í sóttkví þessu tengt næstu daga,“ segir í tilkynningu almannavarna. Í dag verður öllum börnum, foreldrum og starfsmönnum boðið að fara í skimun.
Sóttvarnalæknir og almannavarnir hvetja líka alla þá sem hafa umgengist starfsmenn eða börn á leikskólanum Jörfa síðustu vikuna til þess að fara í skimun og á það við um börn jafnt sem fullorðna. Einnig eru íbúar sem búa í næsta nágrenni leikskólans hvattir til að fara í skimun – ástæðan er sögð mikil samskipti á milli fólks og krakkarnir eðlilega mikið á ferðinni.
Í tilkynningu almannavarna segir að mikilvægt sé að allir sem finni fyrir minnstu einkennum sem gætu bent til COVID-19 fari í skimun.
„Til upprifjunar geta einkenni COVID-19 verið mismunandi milli einstaklinga og sumir fá væg einkenni en þau geta verið: hiti, hósti, andþyngsli, kvef, hálsbólga, beinverkir, höfuðverkur; sjaldgæfari einkenni eru ógleði, þreyta, uppköst og skyndilegt tap á bragð- og lyktarskyni,“ segir í tilkynningunni.
Fólk ætti að fara í sýnatöku við lok veikinda
Almannvarnir segja að ef fólk verði veikt ætti það almennt ekki að snúa aftur til vinnu fyrr en það hefur fengið neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku, við lok veikindanna, þrátt fyrir að hafa fengið neikvæða niðurstöðu áður, til dæmis við upphaf veikinda.
„Stjórnendur og atvinnurekendur eru beðnir að huga sérstaklega að þessu,“ segir í tilkynningu almannavarna.