Alls segjast 42,8 prósent landsmanna vera hlynnt inngöngu Íslands í Evrópusambandið en 35,1 prósent eru andvíg því og 22,1 prósent eru óviss um afstöðu sína. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar Prósents um málið en niðurstöður hennar eru birtar í Fréttablaðinu í dag.
Þar kemur fram að stuðningur við aðild sé afgerandi á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 47 prósent styðja hana en 30 prósent eru á móti. Á landsbyggðinni mælist andstaða við aðild hins vegar nú meiri en stuðningur, en 35 prósent svarenda á henni segjast vilja ganga í Evrópusambandið á meðan að 44 prósent eru því mótfallinn.
Kjósendur Pírata og Viðreisnar mest fylgjandi
Frá því að Prósent kannaði síðast hug landsmanna til aðildar í júní hefur þeim sem eru fylgjandi aðild fækkað um 5,5 prósentustig, óákveðnum fjölgað 4,3 prósentustig og þeim sem eru andvígir fjölgað um 1,2 prósentustig.
Milli kannana hefur orðið sú breyting á að Kristrún Frostadóttir var kjörin formaður Samfylkingarinnar. Hún sagði í viðtali við Kjarnann í september, eftir að hafa tilkynnt um framboð, að stefna flokksins hvað varðar aðild að Evrópusambandinu væri alveg skýr og verði það áfram. „Við höfum verið fylgjandi Evrópusambandsaðild. Ég er sjálf stuðningsmaður Evrópusambandsins. Ég er hins vegar líka meðvituð um það að eins og er þá er ekki þingmeirihluti fyrir málinu þótt kannanir séu að fara upp á við varðandi viðhorf þjóðarinnar gagnvart aðild. Fyrsta skrefið fyrir mér er að spyrja þjóðina hvort við eigum að fara í þetta verkefni. Leggja aðildarviðræður í þjóðaratkvæðagreiðslu og taka svo stöðuna í kjölfarið.“ Í Fréttablaðinu í dag segir Kristrún að það geti verið að fólk sem tengir sig við jafnaðarstefnuna í grunninn en hafi varnagla gagnvart Evrópusambandinu sé að koma aftur til flokksins.
Fleiri eru fylgjandi aðild en andvígir henni á meðal kjósenda bæði Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna, flokks forsætisráðherra sem hefur þá yfirlýstu stefnu að telja hag Íslands betur borgið utan sambandsins. Minnstur er stuðningur við aðild á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks (19 prósent) og Miðflokks (ellefu prósent).
Viðsnúningur eftir rúman áratug af andstöðu
Í mars birtust niðurstöður úr Þjóðarpúlsi Gallup sem sýndu að 47 prósent landsmanna væru hlynnt aðild að Evrópusambandinu en 33 prósent mótfallin henni. Það var í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem meirihluti mældist fyrir aðild í könnunum hérlendis.
Hlutfall sem eru hlynntir inngöngu Íslands í sambandið hafði raunar ekki mælst meira en rúmlega 37 prósent í mánaðarlegum könnunum sem MMR framkvæmdi frá 2011 og út síðasta ár. Í síðustu könnun fyrirtækisins, sem var gerð í desember í fyrra, mældist stuðningurinn 30,4 prósent en 44,1 prósent voru á móti.
Í könnun Prósents í júní var niðurstaðan svipuð og hjá Gallup í mars, 48,5 prósent sögðust hlynnt aðild en 34,9 prósent voru andvíg. Alls 16,7 prósent sögðust ekki hafa neina skoðun á málinu.
Því liggur fyrir að í þremur könnunum í röð hafa fleiri svarendur verið á þeirri skoðun að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið en á móti aðild.
Könnun Prósents sem birt var í Fréttablaðinu í dag var framkvæmd 14. til 17. nóvember. Úrtakið var 2.600 og svarhlutfallið 51,3 prósent.