Í minnisblaði forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og utanríkisráðherra sem lagt var fyrir ríkisstjórnarfund í morgun er farið yfir sviðsmyndir fyrir breytt fyrirkomulag á landamærum. Núverandi aðgerðir gilda til 28. febrúar.
Þau meginsjónarmið sem horfa þarf til að mati stjórnvalda við ákvarðanir um breyttar aðgerðir eru samræming við aðgerðir innanlands, þörf á samræmingu við aðgerðir í nágrannalöndum, lagaleg sjónarmið, stefna ESB varðandi áframhaldandi takmarkanir á ónauðsynlegum ferðum óbólusettra þriðja ríkis borgara til Evrópu og nýlegar leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þar sem ríki eru hvött til að afnema kröfu um bólusetningarvottorð á landamærum.
Í minnisblaðinu er greint frá þremur sviðsmyndum um framhaldið:
- Öllum aðgerðum á landamærum verði aflétt.
- Aðgerðum á landamærum aflétt að mestu en tilmælum ESB um að takmarka ferðir óbólusettra þriðja ríkis borgara til Evrópu fylgt.
- Aðgerðum viðhaldið að hluta og fyrst og fremst horft til kröfu um bólusetningarvottorð eða neikvætt PCR-próf fyrir eða eftir komu til landsins, án kröfu um sóttkví. Taka þyrfti afstöðu til tilmæla ESB gagnvart óbólusettum þriðja ríkis borgurum.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að til stæði að aflétta öllum samfélagslegum takmörkunum vegna COVID-19 á föstudag og jafnvel fyrr.
„Við erum að fara í samtal með sóttvarnalækni, embætti landlæknis, almannavörnum og heilbrigðisstofnunum og hvernig við horfum núna inn í framhaldið,” sagði ráðherrann við blaðamenn eftir fundinn. „Við sjáum fyrir okkur að aflétta hér að fullu bæði innanlands og á landamærum.“
Áður hafði verið rætt um að aflétta að fullu um miðjan mars. Hins vegar segir heilbrigðisráðherra að vel hafi gengið undanfarnar vikur.