Undanfarnar þrjár vikur hafa komið upp þrjár hópsýkingar innanlands, allar á höfuðborgarsvæðinu og eru þær af völdum breska afbrigðis kórónuveirunnar. Raðgreining hefur tengt tvö hópsmitin saman þar sem uppruninn virðist kominn frá einstaklingi sem greindist á landamærunum. Uppruna þriðju hópsýkingarinnar er hins vegar ekki hægt að rekja.
Þetta kemur fram í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknir þar sem hann leggur til hertar aðgerðir innanlands að nýju. Þær aðgerðir voru kynntar á blaðamannafundi í Hörpu í dag.
„Síðustu dagana hefur rakning í kring um þriðju hópsýkinguna sýnt að um 200-300 manns hafa verið útsettir fyrir veirunni síðast liðna viku og í gær greindust 11 nemendur í 6. bekk Laugarnesskóla smitaðir og tengjast vafalaust þessari hópsýkingu,“ skrifar Þórólfur. „Þessir nemendur hafa útsett fjölda einstaklinga fyrir smiti á undangengnum dögum.“
Þannig má að sögn Þórólfs telja víst að töluverð samfélagsleg útbreiðsla hafi nú orðið á breska afbrigði kórónuveirunnar sem nauðsynlegt sé að bregðast við. „Rannsóknir erlendis hafa sýnt að breska afbrigðið er til muna meira smitandi en flest önnur afbrigði og norskar rannsóknir sýna að spítalainnlagnir eru meira en tvöfalt algengari hjá öllum aldurshópum, einnig hjá börnum eldri en sex ára,“ skrifar hann.
Af þessum sökum lagði hann í minnisblaði sínu til að farið yrði í sambærilegar aðgerðir og notaðar voru til að kveða niður þriðju bylgju faraldursins. Fjöldatakmarkanir verða færðar úr 50 í 10 frá og með miðnætti og gildir ný reglugerð, sem þá tekur gildi, í þrjár vikur.