Þrjú mál er varða kynferðislega áreitni hafa verið tilkynnt til mannauðssviðs Icelandair á síðustu fjórum árum og við úrlausn þeirra var unnið eftir því verklagi sem nú er í gildi.
Þetta kemur fram í svari Icelandair við fyrirspurn Kjarnans.
„Icelandair leggur ríka áherslu á vellíðan starfsfólks og að byggja upp menningu sem einkennist af jafnrétti og virðingu. Hvers kyns ofbeldi, áreitni eða einelti er aldrei liðið. Komi upp slík mál eru þau tekin fyrir miðlægt hjá mannauðssviði félagsins. Mannauðssvið vinnur eftir vel skilgreindu verklagi og getur auk þess kallað til utanaðkomandi sérfræðinga til ráðgjafar og úrlausnar ef um flókin og/eða alvarlega atvik er að ræða,“ segir í svarinu.
„Verðskuldum að okkur sé trúað og sýndur stuðningur.“
Tæplega sex hundruð konur í flugi skrifuðu undir áskorun þar sem þær höfnuðu kynferðislegri áreitni og mismunun í fyrstu bylgju metoo í desember 2017. Í henni sögðu þær að kynferðisofbeldi, áreitni og kynbundin mismunun ætti sér stað í flugstéttinni, rétt eins og annars staðar í samfélaginu. Þó margir jafnréttissigrar hefðu unnist með mikilli þrautseigju og vinnu starfssystra þeirra væru miklar leyfar af kynjamisrétti, stéttaskiptingu og hlutgervingu flugfreyja enn til staðar sem óprúttnir aðilar notfærðu sér til að lítillækka, misnota og áreita konur innan stéttarinnar.
„Óþarfi er að taka fram að allir karlar gerast ekki sekir um áreitni eða mismunun – en hins vegar verða nær allar konur fyrir því á starfsferli sínum og það er algerlega óásættanlegt. Við krefjumst þess að karlkyns samverkamenn okkar taki ábyrgð; að fyrirtækin og stéttarfélagið taki af festu á málinu og komi sér upp eða skerpi á verkferlum og viðbragðsáætlun. Við eigum ekki að þurfa að þegja lengur né leiða ástandið hjá okkur. Við verðskuldum að okkur sé trúað og sýndur stuðningur.
Fyrst og fremst á misréttinu að linna. Við krefjumst þess að fá að vinna vinnuna okkar án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Við stöndum saman og höfum hátt,“ sagði í áskoruninni.
Þær sendu einnig frá sér 28 nafnlausar sögur þar sem þær lýstu reynslu sinni í starfi. Frásagnirnar sýndu þann raunveruleika sem flugfreyjur þurfa að búa við í störfum sínu.
Starfsmönnum sem verða vitni að slíku athæfi ber skylda til að tilkynna það
Í verklagi Icelandair til að takast á við tilkynnt einelti, áreitni og ofbeldi kemur fram að mikilvægt sé að starfsmaður sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustaðnum tilkynni málið eins fljótt og auðið er. Starfsmönnum sem verða vitni að slíku athæfi beri einnig skylda til að tilkynna það.
Allar kvartanir um einelti og áreitni skulu kannaðar, samkvæmt verklaginu. „Brugðist verður hratt við og af aðgætni og þagmælsku þar sem slík mál eru viðkvæm. Rætt er við aðila sem eiga hlut að máli og aðra sem kunna að hafa vitneskju um málið.“
Eftir að kvörtun hefur verið borin fram er ásökunum rannsökuð. Þegar niðurstaða liggur fyrir er hún kynnt öllum hlutaðeigendum. Komi í ljós að tilkynning eigi við rök að styðjast skuli mannauðssvið tryggja að gripið verði til aðgerða til að stöðva hegðun, tryggja að aðstæður á vinnustað verði bættar og veita þolanda viðeigandi aðstoð.
Aðgerðir geta meðal annars falist í sáttamiðlun, áminningu, leiðsögn, fræðslu eða tilfærslu í starfi. Þegar um alvarleg atvik er að ræða leiða þau til uppsagnar geranda, að því er fram kemur í verklagi Icelandair. Síðasta skrefið er eftirfylgni en samkvæmt flugfélaginu er nauðsynlegt að fylgja málinu eftir með því að „fylgjast með líðan og félagslegri stöðu geranda og þolanda á vinnustað, veita geranda og/eða þolanda viðeigandi stuðning og hjálp og meta og endurskoða árangur inngrips“.