Sautján lögfræðingar höfðu fyrir helgi sótt um að vera skráðir sem talsmenn umsækjenda um alþjóðlega vernd. Sextán þeirra hafa sýnt fram á fullnægjandi hæfni. Útlendingastofnun gerir ráð fyrir að þörf sé á 15-20 talsmönnum en frá og með næstu mánaðamótum rennur út samningur dómsmálaráðuneytis og Útlendingastofnunar við Rauða kross Íslands sem sinnt hefur talsmannaþjónustunni, auk fjölmargra annarra verkefna við hælisleitendur og flóttamenn, frá árinu 2014.
Rauði krossinn hafði óskað eftir því að samningurinn yrði endurnýjaður til eins árs, líkt og heimild var fyrir, en dómsmálaráðuneytið ákvað að fara aðra leið. Þjónustan var hins vegar ekki boðin út, líkt og rætt hafði verið um í samskiptum Rauða krossins og ráðuneytisins, heldur verður þjónustan á hendi einstakra lögfræðinga.
Í byrjun mars auglýsti Útlendingastofnun eftir lögfræðingum til að sinna þessu hlutverki. Þurfa þeir að uppfylla ákveðin skilyrði menntunar sem og hafa reynslu og þekkingu á málaflokknum. Greitt verður samkvæmt fyrir fram ákveðinni verðskrá.
Samkvæmt útlendingalögum ber Útlendingastofnun að tryggja umsækjendum um alþjóðlega vernd talsmann við meðferð máls hjá stjórnvöldum. Talsmaður er sá sem talar máli umsækjanda um alþjóðlega vernd hér á landi og gætir hagsmuna hans við meðferð máls gagnvart íslenskum stjórnvöldum á meðan mál hans er til meðferðar hjá Útlendingastofnun og eftir atvikum kærunefnd útlendingamála. Talsmaður sinnir réttaraðstoð og talsmannaþjónustu vegna umsóknar um alþjóðlega vernd á lægra og æðra stjórnsýslustigi í samræmi við vilja umsækjanda. Hlutverk talsmanns hefst við skipun hans og lýkur við endanlega ákvörðun á stjórnsýslustigi.
Í svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn Kjarnans um hvernig tilfærslu á opnum málum sem lögfræðingar Rauða krossins sinna nú verði háttað frá byrjun maí segir að úthlutun nýrra mála til lögfræðiteymis Rauða krossins hafi þegar verið hætt. Það sé gert til að tryggja að þeir hafi tækifæri til að klára sín mál.
Í þeim málum sem ekki næst að ljúka áður en samningurinn rennur út hafa talsmenn frest út mánuðinn til að sinna gagnaöflun og skila greinargerðum. Umsækjendum í þeim málum verður síðan skipaður nýr talsmaður fyrir birtingu ákvörðunar og verður það þá hlutverk nýs talsmanns að leiðbeina umsækjanda um réttindi sín í framhaldinu.
Mál á kærustigi, þ.e. þau sem send eru kærunefnd útlendingamála til ákvörðunar, verða færð milli talsmanna með sambærilegum hætti.
Rúmlega 500 hælisleitendur
Hjá Útlendingastofnun eru nú í vinnslu rúmlega 500 umsóknir um vernd frá umsækjendum sem eiga rétt á þjónustu talsmanns, inni í þeirri tölu eru umsækjendur sem þegar hefur verið úthlutað talsmanni.
Fimmtán lögfræðingum Rauða krossins, sem sinntu talsmannaþjónustu hælisleitenda, var sagt upp störfum er ljóst var að samningurinn við ríkið yrði ekki endurnýjaður.