Það er engin tilviljun að tvö alþjóðleg fyrirtæki eru með áform um að fá íblöndunarefni í sement frá Íslandi, segja forsvarsmenn Eden Mining, fyrirtækisins sem ætlar sér að vinna og selja móberg úr Litla-Sandfelli í Þrengslum til þýska sementsrisans Heidelberg Materials. Leitað sé „logandi ljósi“ að staðgengli fyrir kolaösku sem síðustu áratugi hafi verið notuð sem íblöndunarefni í sement en verði af skornum skammti á næstu árum eða áratugum. „Til að búa til sement og steypu þarf að fórna jarðmyndunum.“
Áform Eden Mining eru þau að vinna allt fjallið, fjarlægja það á um 30 árum. Stærstur hluti efnisins, móbergsins sem þar er að finna, yrði fluttur úr landi til sementsframleiðslu í Evrópu. En fyrst þyrfti að flytja það til hafnar í Þorlákshöfn, þar sem ætlunin er að vinna það í fyrirhugaðri verksmiðju Heidelberg. Ef reiknað er með að efni yrði flutt um 300 daga ársins færu vöruflutningabílar 222 ferðir á dag til og frá námunni.
Eden Mining ehf. er í eigu Kristins Ólafssonar og Eiríks Ingvars Ingvarssonar. Fyrirtækið starfrækir einnig námu í Lambafelli og á Hraunsandi. Litla-Sandfell er á jörðinni Breiðabólstað sem er í eigu Kirkju sjöunda dags aðventista og hefur fyrirtækið gert langtímasamning við trúfélagið um námuna.
Umhverfismatsskýrslan, sem verkfræðistofan Efla vann fyrir framkvæmdaaðilann, var lögð fram til kynningar í haust. Lögum samkvæmt veittu eftirlitsstofnanir umsagnir sínar þar sem ýmis gagnrýni kemur fram líkt og Kjarninn hefur rakið í fréttum síðustu vikur.
Demantar og gull
Í svörum við umsögnunum, sem Kjarninn fékk afhent, tekur Eden Mining að „ýmsu leyti“ undir með Náttúrufræðistofnun sem segir að hið íslenska móberg, sem verður til við eldgos undir jökli, sé í eðli sínu sérstakt á heimsvísu og með hátt verndargildi. „Virði móbergs mun líklega aukast í framtíðinni eftir því sem krafan um umhverfisvæn byggingarefni verður háværari og því mikilvægt að Íslendingar ákveði hvernig nýtingu þessarar auðlindar verður háttað,“ segja forsvarsmenn Eden Mining og Eflu.
„Nefna má sem dæmi að demantar, gull og allskonar málmar eru jarðmyndanir sem eru sjaldgæfar á heimsvísu en það stoppar aðrar þjóðir ekki í að vinna þær úr jörðu og myndi ekki stoppa okkur ef slíkt fyndist í vinnanlegu magni hér á landi – því sjaldgæfari því verðmætari. Móberg er í reynd ekkert öðruvísi nema hvað það er nýtilkomið að það sé farið að hugsa um það sem nýtanlega auðlind.“
Segja umhverfisáhrifin verulega jákvæð
Það sé ekki tilviljun að Litla-Sandfell hafi orðið fyrir valinu til útflutnings – í fyrsta verkefni sinnar tegundar. „Fellið er lítið, mikið raskað af fyrri efnistöku, efnisgæði eru góð, gróður og fuglalíf er takmarkað og það er nálægt góðri útflutningshöfn. Það er því tilvalið í nýtingarflokk.“
Í umhverfismatsskýrslunni er því haldið fram fullum fetum að heildaráhrif verkefnisins á loftslag yrðu verulega jákvæð og að það myndi falla vel að stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Í þeirri stefnu eru sett fram metnaðarfull markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi á næstu árum.
Meirihluti móbergsins er hins vegar ekki ætlaður til notkunar í steypu innanlands og því er erfitt að sjá, bendir Umhverfisstofnun á, hvernig framkvæmdin styðji við stefnuna nema að mjög litlu leyti.
Eden Mining tekur ekki undir þessi rök. Vissulega sé rétt að efnið færi í framleiðslu á sementi erlendis en allt sement sem notað er á Íslandi sé innflutt. „Í þessu sambandi er hægt að benda á að ef þjóðir heimsins mættu einungis nota auðlindir sínar til notkunar innanlands þá væri eyríkið Ísland ekki í góðum málum.“
Undrast umsögn Umhverfisstofnunar
Umhverfisstofnun ítrekar að loftslagsávinningur sem sé ætlað að koma fram í öðru landi geti ekki talist sem rökstuðningur fyrir umtalsverðum umhverfisáhrifum á Íslandi.
„Þessi afstaða Umhverfisstofnunar vekur nokkra undrun í ljósi þess að baráttan gegn hnattrænum loftlagsáhrifum vegna mikillar losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið er einmitt hnattræn en ekki háð einstaka landamærum,“ segir í svörum Eden Mining og Eflu. „Í því samhengi má benda á að stór hluti þeirrar losunar sem Ísland ber ábyrgð á í notkun sinni á byggingarefnum, samgöngutækjum, og neyslu og fjárfestingavörum af ýmsu tagi á sér stað utan landamæra og kemur ekki fram í bókhaldi Íslands.“
Þá megi einnig nefna að fjöldi þeirra lausna sem Íslendingar reiði sig á, svo sem rafvæðing samgöngutækja, feli í sér umfangsmikla námuvinnslu og tilfallandi kolefnisspor í öðrum löndum. „Það getur því vart verið ásættanlegt viðhorf út frá markmiðum Parísarsamkomulagsins að einungis sé horft til áhrifa hér innanlands af framleiðslu sem þessari en ekki hnattræn áhrif í loftlagsmálum. Það verður í það minnsta að teljast afar þröngt sjónarhorn í baráttunni gegn hnattrænum loftslagsbreytingum.“
Íslendingar vilji og muni nota sement og því fylgi umhverfisáhrif. „Við höfum aftur á móti hingað til látið aðrar þjóðir taka skellinn á sig fyrir okkur.“
Ein helsta gagnrýni umsagnaraðila á framkvæmdina er að í útreikningum í matsskýrslunni sé borin saman losun vegna notkunar móbergs og sementsklinkers, efnis sem kolaaska er þegar notuð sem staðgengill fyrir í miklum mæli. Þannig sé í raun verið að tala um loftslagsmarkmið sem þegar hafi náðst en yrði viðhaldið. Þá sé heldur ekki reiknað með að önnur hentug íblöndunarefni kunni að finnast.
„Fyrir utan kolaösku (sem er á útleið) er fátt annað í boði sem er til í nægjanlegu magni, hægt að vinna og afla á hagkvæman hátt í ásættanlegri fjarlægð frá mörkuðum, er umhverfisvænt og uppfyllir allar gæðakröfur, m.a. um endingu,“ svarar Eden Mining. „Móbergið úr Litla-Sandfelli uppfyllir öll þessi skilyrði.“
Fáir eða engir á ferli
Fyrir utan námuvinnsluna sjálfa og efasemdir um framsetningu loftslagsávinnings framkvæmdarinnar er það umferð stórra vöruflutningabíla milli námunnar og áformaðrar verksmiðju Heidelberg Materials í Þorlákshöfn sem umsagnaraðilar beina helst sjónum sínum að.
Umhverfisstofnun bendir t.d. á áhrif flutninganna á loftgæði, útblástur þeirra en einnig efnisagnir frá sliti á bremsuborðum og dekkjum. Einnig myndu flutningarnir þyrla upp vegryki og stuðla þannig að aukinni svifryksmengun. „Stórir bílar eru mun mikilvirkari í að þyrla upp vegryki heldur en litlir bílar,“ segir stofnunin.
Eden Mining tekur margoft fram í svörum sínum að flutningarnir til og frá námunni séu á vegum annars fyrirtækis, Heidelberg Materials. Fyrirtækið gerir þó lítið úr áhyggjum Umhverfisstofnunar og segir að „fáir eða engir“ séu á ferli meðfram Þrengslavegi og næsta byggð sé í meira en 600 metra fjarlægð frá veginum. „Útblástur stakra bíla og uppþyrlun vegryks hefur því hverfandi áhrif.“
Vilja flutningana af Þrengslavegi
Sveitarfélagið Ölfus, sem Litla-Sandfell er innan, segir að eftir að umhverfismatsskýrslan var kynnt hafi komið fram hugmyndir um að flytja efnið frá námunni til Þorlákshafnar á sérstökum námuvegi og á lokuðu færibandi. Þetta telur sveitarfélagið vænlegan valkost sem myndi minnka umhverfisspor og bæta umferðaröryggi verulega.
Eden Mining er jarðvinnuverktaki og flutningarnir yrðu ekki á þess vegum heldur Heidelberg, ítrekar fyrirtækið. Hugmyndir um námuveg og lokað færiband hafa aftur á móti komið til umræðu af hálfu Heidelberg. „Þar er einkum til skoðunar hvort hægt sé að finna leiðir fyrir efnisflutninga sem færu ekki nema að litlum hluta um þjóðvegakerfið. Þá væri ekki verið að auka á núverandi umferðarmagn þjóðvegakerfisins nema að mjög litlu leyti á stuttum köflum ef áætlanir ganga eftir.“
Flutningur efnis að námu yrðu þannig með bílum að jaðri Þorlákshafnar og þaðan með færiböndum að verksmiðju. „Með þessu fyrirkomulagi væri unnt að takmarka umferð í þéttbýli Þorlákshafnar.“
Þessi kostur verði skoðaður þegar verksmiðja Heidelberg í Þorlákshöfn fer í gegnum umhverfis- og skipulagsferli.
Ruglingsleg og ómarkviss
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands telur umfjöllun í umhverfismatsskýrslunni um móberg sem íaukaefni í sement „ruglingslega og ómarkvissa“ og vill fá á hreint hvort móberg eigi að koma í stað sementsklinkers eða kolaösku.
„Móbergið kemur í raun í staðinn fyrir bæði,“ svarar Eden Mining. „Sementsklinker er afar mengandi og til að minnka notkun hans er notuð kolaaska úr kolaorkuverum. Þegar kolaösku nýtur ekki lengur við þarf að finna annað efni til að koma í hennar stað, ellegar nota meira af sementsklinker.“
Litla-Sandfell yrði „afar lítið brot“
Heilbrigðiseftirlitið bendir ennfremur á að ekki komi fram í umhverfismatsskýrslunni hversu mikið af klinker sé framleitt á heimsvísu í dag né að hversu miklu leyti móberg úr Litla-Sandfelli myndi koma í staðinn. Án slíkra upplýsinga sé erfitt að átta sig á heildarávinningi framkvæmdarinnar.
Þessari spurningu svarar Eden Mining ekki beint en bendir á að heimsframleiðsla á sementi sé meira en 4 milljarðar tonna á ári. „Efnið úr Litla-Sandfelli er því afar lítið brot af því heildarmagni.“
Lítið en mikilvægt
En sé útgangspunkturinn við slíkt mat að heildarávinningur sé lítill, af því að verkefnið sé lítið hlutfall af heimsframleiðslu, „þá hefði það að sama skapi þá þýðingu að lítið sem Ísland gerir í þessum málum skiptir máli vegna þess að framlag okkar er almennt lítið hlutfall af heildarlosun mannkyns og í alþjóðasamhengi.“
Útflutningur á móbergi úr Litla-Sandfelli sé brautryðjendaverkefni sem sé mikilvægur liður í því að minnka kolefnislosun sementsiðnaðarins á heimsvísu og verði að skoða í því ljósi.
Aðrar þjóðir taka á sig „umhverfisskellinn“
Í umsögn Landverndar segir að mikilvægasta aðgerðin til að draga úr losun frá steypu sé að hanna og byggja með efnum sem valda sem minnstri losun. „Margar nýjar lausnir eru við sjóndeildarhringinn þegar kemur að kolefnishlutlausum byggingum.“
Eden Mining rifjar upp að íslensk stjórnvöld skrifuðu nýlega undir rammasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga um uppbyggingu á 35.000 íbúðum næsta áratuginn og allt stefni í að þær verði hefðbundnar steinsteyptar byggingar. „Eins og staðan er í dag er allt sement sem notað er á Íslandi unnið og framleitt erlendis og því lítill hvati til að breyta til, allir virðast sáttir með að láta aðrar þjóðir taka á sig umhverfisskellinn fyrir neyslu okkar,“ svara forsvarsmenn fyrirtækisins. „Með því að færa hluta framleiðsluferlisins hingað til Íslands mun fólk sjá hluta áhrifinna sem fylgja því að nota sement og það mun vonandi leiða til framþróunar í íslenskum byggingariðnaði.“
Vinnsla jarðefna nauðsynleg
„Það er óraunhæft að öll íslensk náttúra verði ósnortin um aldur og ævi, svo lengi sem framkvæmdir og uppbygging á sér stað er vinnsla jarðefna nauðsynleg, hvort sem hún er hérlendis eða erlendis,“ segja forsvarsmenn Eden Mining og Eflu.
„Framleiðsla sements er því miður ekki sjálfbær, þeim mun mikilvægara er að reyna að gera hana eins kolefnishlutlausa og hægt er. Þar spilar efnið úr Litla-Sandfelli mikilvægt hlutverk.“