Umfang kynferðisbrota og tilkynninga um kynferðislega áreitni innan framhaldsskóla er óljóst. Ekki er haldið utan um slíkar tilkynningar.
Þegar Kjarninn óskaði eftir upplýsingum um tilkynningar um kynferðisofbeldi og/eða kynferðislega áreitni í framhaldsskólum eins langt og þær ná aftur fengust þau svör frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, sem framhaldsskólarnir heyra undir, að „slíkur miðlægur gagnagrunnur yfir tilkynningar er ekki til staðar“ og að því sé ekki hægt að veita slíkar upplýsingar.
Viðbrögð skólastjórnenda við kynferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni innan framhaldsskóla hefur verið til umræðu undanfarið eftir að aðferð skólastjóra við Fjölbrautaskóla Suðurlands við að upplýsa nemendur um ásakanir um kynferðisbrot sem átti sér stað innan veggja skólans.
Tilkynning skólastjóra gagnrýnd: „Gerandi saklaus þar til sekt er sönnuð“
Í lok ágúst fengu nemendur og aðstandendur tölvupóst þess efnis að lögreglurannsókn stæði yfir vegna ásakana um kynferðisbrot þar sem nemandi er grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn samnemanda sínum innan skólans. Í tölvupóstinum voru nemendur sérstaklega beðnir um að ræða málið ekki á samfélagsmiðlum og dómstóll götunnar var sagður óvæginn. „Það er ekki búið að dæma í málinu og því er gerandi saklaus þar til sekt er sönnuð,“ segir meðal annars í tölvupósti skólastjórans.
Formaður nemendafélags FSu harmaði viðbrögð skólastjóra við málinu og sagði í Kastljósi að nauðsynlega vantaði aðgerðaáætlun þegar kemur að ofbeldismálum innan skólans.
Viðbragðsáætlun legið fyrir ef ráðuneytið hefði farið eftir tillögum starfshóps
Sólborg Guðbrandsdóttir, sem hefur beitt sér undanfarin ár fyrir heilbrigðum samskiptum, kynheilbrigði og ofbeldisvörnum, fór fyrir starfshópi um markvissari kynfræðslu og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum sem skilaði Lilju Alfreðsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra, tillögum í júlí í fyrra. Sólborg vakti athygli á því á Twitter að viðbragðsáætlun hefði legið fyrir í Fjölbrautaskólanum á Suðurlandi ef ráðuneytið hefði fylgt tillögum starfshópsins eftir í stað þess að „stinga henni beint ofan í skúffu“.
Ef mennta- og m.málaráðuneytið hefði gert e-ð annað við skýrsluna okkar en að stinga henni beint ofan í skúffu þá hefðu skólastjórnendur kannski vit fyrir því núna að tækla svona mál ekki með „saklaus uns sekt er sönnuð“ að leiðarljósi. En þú veist hverjum er ekki sama um börnin? pic.twitter.com/SpMP6JOsH0
— Sólborg Guðbrands (@solborgg) August 28, 2022
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, brást við með því að boða Sólborgu á fund. Þá sagði hann í samtali við mbl.is að lagt hafi verið til að framhaldsskólar kæmu sér upp viðbagðsáætlunum vegna kynferðisofbeldis og að ráðuneytið hefði hvatt til þess. Þá sagði ráðherra að setja þurfi meiri kraft í þessa vinnu í samvinnu við skólana og að þetta verði „eitt af áhersluatriðum vetrarins“.