Þær eru allt frá því að vera táningar og komnar yfir sextugt, konurnar sem fundið hafa fyrir óvenjulegum blæðingum eftir að þær voru bólusettar gegn COVID-19. Samtals hafa tilkynningar um 804 þeirra ratað til Lyfjastofnunar. Þeim hefur því fjölgað um allt að 200 frá því í byrjun mánaðarins.
Sársaukafullar tíðir
Langflestar tilkynningarnar snúa að röskun á tíðahring sem er með þeim hætti að tíðahringur var í eitt skipti annað hvort styttri eða lengri en vant er en þeirrar röskunar hafði ekki orðið vart aftur, skrifar Lyfjastofnun í svari við fyrirspurn Kjarnans. Ef algengustu einkennin sem tilkynnt hafa verið eru skoðuð eru það vandamál tengd tíðahring (menstrual disorder), tíðaþrautir/sársaukafullar tíðir vegna samdrátta í legi (dysmenorrhea), miklar blæðingar (heavy menstrual bleeding), milliblæðingar (intermenstrual bleeding) og stytting tíðahrings (polymenorrhoea). Einnig hafa borist tilkynningar vegna blæðinga kvenna á breytingaskeiði.
229 tilkynningar snúa að konum á aldrinum 16-29, 302 að 30-39 ára og 216 eru vegna kvenna á aldrinum 40-49 ára. Þá hafa 49 tilkynningar borist vegna kvenna á aldrinum 50-59 ára og ein vegna konu á sjötugsaldri.
Fjölmargar konur um allan heim hafa upplifað þetta sama. Að eftir bólusetningu hafi tíðir þeirra breyst. Um 35 þúsund konur í Bretlandi hafa tilkynnt slíka röskun. Flestar þeirra lýsa meiri verkjum en þær eru vanar og óreglulegri blæðingum.
Í byrjun ágúst tilkynnti Lyfjastofnun um upphaf rannsóknar „á tilkynningum vegna gruns um röskun á tíðahring í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19“, í samstarfi við landlækni og sóttvarnalækni. Þá hafði nokkrum sinnum verið fjallað um málið í fjölmiðlum og konur stigið fram og m.a. lýst miklum blæðingum, jafnvel í nokkrar vikur, eftir að hafa fengið bólusetningu.
Sú rannsókn stendur enn yfir en niðurstaðna er að vænta á næstu dögum.
Konurnar ekki teknar í læknisskoðun
Við rannsóknina var ákveðið að rannsaka nokkur valin tilfelli sem tilkynnt hafa verið Lyfjastofnun: Blæðingar eftir tíðahvörf, alvarlegar tilkynningar og langvarandi einkenni, þ.e. blæðingar í meira en þrjár vikur. Meðal annars er verið að skoða hvort líklegt sé að orsakasamhengi sé á milli tilfellanna og bólusetningar. Það er gert með því að skoða fyrirliggjandi gögn um þá sem upplifðu valin einkenni. Hringt er í viðkomandi og leyfis aflað til að skoða upplýsingar í sjúkraskrám um sjúkdómssögu, nýlegar fyrirliggjandi niðurstöður blóðprufa þar sem það á við, samhliða notkun annarra lyfja o.s.frv. Við rannsóknina var ekki talið nauðsynlegt að kalla þá sem um ræðir til sérstakrar læknisskoðunar.
Ef orsakasamband er talið líklegt milli tilfellanna og áhrifa á tíðahring verða sérfræðingarnir beðnir um að leggja mat á mögulegar ástæður (e. mechanism). Einnig er lagt upp með að setja saman ráðleggingar fyrir konur og heilbrigðisstarfsfólk.
Ekki enn sýnt fram á orsakasamband
„Að svo stöddu hefur ekki verið sýnt fram á orsakasamband milli bólusetningar og röskunar á tíðahring,“ segir í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn Kjarnans um hvað erlendar rannsóknir hafa sýnt hvað þetta varðar, þar sem niðurstaða þeirrar íslensku liggur ekki fyrir.
Í grein sem birtist í vikunni í BMJ segir að tilkynningarnar, sem skipti eins og áður segi tugþúsundum í Bretlandi, tengist ekki einu bóluefni frekar en öðru. Ekkert bendi til að tíðaröskun hefði langvarandi áhrif á frjósemi og að mánuði eftir að finna fyrir einkennum séu flestar konurnar búnar að jafna sig.
Í umfjöllun The Telegraph um grein BMJ (British Medical Journal) kemur fram að mögulegum áhrifum bólusetningar á tíðahring kvenna hafi lítill gaumur verið gefinn fyrst í stað. Í þeim klínísku rannsóknum sem fram fóru áður en bóluefnin fengu markaðsleyfi, þar sem margvíslegar aukaverkanir voru rannsakaðar og skráðar, voru áhrif á blæðingar kvenna ekki rannsökuð sérstaklega. Þess vegna var röskun á tíðahring ekki skráð sem aukaverkun þegar konur fóru að tilkynna um slíkt og eru það ekki enn. „Þetta er bara tilviljun – var okkur sagt,“ skrifar Caroline Criado-Perez, pistlahöfundur Telegraph, „að óreglulegar blæðingar séu algengt vandamál hjá konum“.
Í grein BMJ segir að þrátt fyrir að truflanir á tíðahring séu í flestum tilfellum ekki langvarandi þurfi að rannsaka rækilega hver orsökin sé. „Tregða til bólusetninga meðal ungra kvenna má að miklu leyti rekja til falskra staðhæfinga um að bóluefni gegn COVID-19 geti haft áhrif á frjósemi þeirra í framtíðinni. Verði orsakir röskunar á tíðahring ekki rannsakaðar ítarlega mun það ýta undir frekari ótta.“