Danska farsóttarnefndin telur að COVID-19 ógni ekki lengur samfélaginu og mælir með því að nánast allar takmarkanir verði afnumdar 31. janúar. Eina undantekningin verði skimun farþega sem koma til landsins og einangrun þeirra ef þeir greinast jákvæðir.
Þetta mun þýða, samþykki stjórnvöld tillögur nefndarinnar, að grímuskylda verður afnumin og engar fjölda takmarkanir verða á baðstöðum og stórum viðburðum svo dæmi séu tekin. Danska ríkisútvarpið segir að forsætisráðherrann Mette Frederiksen muni halda blaðamannafund í dag og tilkynna ákvörðun stjórnvalda.
Met fjöldi smita hafa greinst í Danmörku, rétt eins og á Íslandi, síðustu daga. Engu að síður telja margir sérfræðingar sem Danska ríkisútvarpið ræðir við að tímabært sé að „henda grímunum í ruslið“ og losa um allar takmarkanir í dönsku samfélagi.
„Jafnvel þótt smitfjöldinn sé mikill eru ekki margir sem þurfa á gjörgæslumeðferð að halda,“ segir Alan Randrup Thomsen, prófessor í veirufræðum við Háskólann í Kaupmannahöfn. Hann segir að ennfremur séu smitaðir íbúar öldrunarheimila fæstir alvarlega veikir. Thomsen hefði hins vegar viljað sjá losað um takmarkanir í nokkrum skrefum svo bregðast megi við ef eitthvað óvænt komi upp á. Hann nefnir sérstaklega næturlífið – skemmtistaðina – sem hann hefði viljað bíða með að opna án takmarkana. Ástæðan er ekki heilsufarsleg heldur sú að hann vill koma í veg fyrir að skortur verði á „vinnandi höndum“ vegna smita.
Thomsen spáir því að smitum eigi eftir að fjölga samhliða afléttingum en að sjúkrahúsinnlögnum eigi ekki eftir að fjölga skarpt líkt og þegar delta-afbrigðið geisaði.
Hættan er að líða hjá
„Í tvö ár höfum við aðvarað almenning um hversu hættulegur sjúkdómurinn er. Núna þurfum við að skýra út fyrir fólki að hættan er að líða hjá.“
Þetta hefur Danska ríkisútvarpið eftir Jes Søgaard, prófessor í heilsuhagfræði. Hann sér ekkert athugavert við það að aflétta takmörkunum. „Þetta hljómar skynsamlegt í mín eyru,“ segir hann og bætir við að hin „bráða hætta“ af völdum COVID-19 sé yfirstaðin. Søgaard segist ekki óttast afléttingarnar. Bæði sé ljóst að ómíkron valdi minni einkennum og eins hafi meðferðum við COVID-19 fleygt fram.
Danska ríkisútvarpið ræðir einnig við Viggo Andreasen, aðstoðarprófessor í lýðtölfræði við Hróarskelduháskóla. „Við erum að nálgast tímapunkt þar sem takmarkanir eru óþarfar. Það er ljóst að faraldurinn er á fleygiferð í augnablikinu en að fáir þurfa að leggjast inn á sjúkrahús.“ Hann er þó á því að bíða mætti með afléttingar í einhverjar vikur, leyfa faraldrinum að ganga yfir innan takmarkana til að vernda hjúkrunarheimili, skóla og spítala og þá á hann við hlífa þeim við smitum eða veikindum fjölda starfsmanna í einu.
Eskild Petersen, prófessor emertus í smitsjúkdómum, er hins vegar mun gagnrýnni á fyrirhugaða afléttingu. „Af hverju ósköpunum ættum við að gera þetta?“ segir hann við Ritzau-fréttastofuna. „Við vitum að það mun koma nýtt afbrigði,“ heldur hann áfram og það gæti sett sjúkrahúsin á hliðina.