Mennirnir hafa skaðað hinn náttúrulega heim mikið á síðustu áratugum sem m.a. hefur leitt til þess að sumar dýrategundir hafa horfið af yfirborði jarðar.
Vitundarvakning hefur orðið um mikilvægi einstakra tegunda undanfarið og með vísindin að vopni og með hjartað á réttum stað vinna borgarar þessa heims ásamt sérfræðingum á ýmsum sviðum að því að lagfæra það sem úr lagi hefur gengið. Það tekst auðvitað ekki alltaf en við skulum ekki gera lítið úr þeim jákvæðu tíðindum úr heimi dýranna sem okkur hafa borist á þessu ári.
Skjaldbakan Jónatan varð 190 ára
Elsta landdýr jarðar, risaskjaldbaka kennd við Seychelles-eyjar, fagnaði 190 ára afmæli sínu á árinu. Talið er að Jónatan, eins og hann er kallaður, hafi fæðst árið 1832. Það var fyrir tíma talsímans og ljósmyndarinnar. Jónatan var fæddur er þrælastríðið í Bandaríkjum geisaði. Viktoría Bretadrottning fæddist á undan honum en hann var aðeins nokkurra ára er hún tók við völdum og lifði hana svo um munar og nokkra aðra arftaka krúnunnar til.
Jónatan hefur svo auðvitað orðið vitni að umbyltingu í sjávarútvegi og iðnaði sem hvort tveggja hefur haft afgerandi áhrif á búsvæði hans og annarra dýra á sjó og landi.
Var ekki útdauður eftir allt saman
„Þetta er eins og að finna einhyrning,“ sagði vísindamaðurinn John Mittermeier er fugl af ætt fashana, sem af flestum var talinn útdauður, sást fyrir víst í fyrsta skipti í 140 ár í september síðastliðnum. Fuglinn kallast black-naped pheasant pigeon á ensku, sem vísar til þess að hann er með svartan hnakka en latneska heiti hans er Otidiphaps insularis. Á íslensku mætti kalla hann fasandúfu.
Einhverjir veiðimenn hafa í gegnum tíðina sagst hafa rekist á hann en óyggjandi sönnun um tilvist hans hér á jörð fékkst með er fuglafræðingar sáu hann og náðu myndum af honum í haust. „Þetta er svona augnablik sem þig dreymir um allt þitt líf,“ sagði Mittermeier.
Sá fyrsti af sinni tegund sem fæðist í Bretlandi í þúsundir ára
Vísundskálfur, sá fyrsti sem fæðist í Bretlandi í þúsundir ára, kom í heiminn í haust. Þrír vísundar voru fluttir inn frá Írlandi og komið fyrir á verndarsvæði í Kent í byrjun júlí. Var þá ekki vitað að „laumufarþegi“ var í hópnum. Það er ekkert skrítið að mannfólkið hafi ekki vitað af því að ein kýrin gekk með kálf því vísundar fela þunganir sínar vel og eins lengi og þeir geta. Það er náttúruleg vörn þeirra gegn rándýrum sem hafa kelfdar kýr og nýfædd ungviði oft í sigtinu.
Það rándýr sem helst hefur ógnað vísundum í nútíma er þó ekki fjórfætlingur heldur mannskepnan.
Bjórinn friðaður
Loksins, loksins! Bjórar eru nú friðaðir í Bretlandi, um 400 árum eftir að þeim var næstum útrýmt með veiðum. Núna er hins vegar orðið ólöglegt að veiða þá, særa eða trufla
„Það breytir öllu að breyta lagalegri stöðu bjóra,“ sagði Joan Edwards, framkvæmdastjóri The Wildlife Trust, er ákvörðun um verndun bjóranna hafði verið tekin. Samtökin hafa barist hart fyrir því að tegundin verði friðuð.
Sterk endurkoma
Fimmtíu dýrategundir hafa átt „einstaka endurkomu“ í hina villtu náttúru Evrópu á árinu. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar á afkomu hinna ýmsu dýrategunda eru birnir, úlfar og vísundar meðal þeirra dýra sem eiga örlítið auðveldara uppdráttar nú en fyrir nokkrum árum.
Steypireyður, skjaldbökur og otrar eru t.d. að ná sér merkilega á strik eftir mikla hnignun í stofnunum síðustu ár og áratugi.
Hákarlar fara á hraðstefnumót
Beinhákarlar fara hring eftir hring í leit að ástinni. Að þessu komust vísindamenn sem rannsökuðu á nokkurra ára tímabili óvenjulega hegðun hóps þessara mögnuðu dýra úti fyrir ströndum Írlands. Hákarlar, yfirleitt jafnmargir af báðum kynjum, synda hægt og rólega í hringi, stundum við yfirborðið en stundum á meira dýpi. Þeir eru þannig að skoða hvern annan – eru með öðrum orðum í leit að félaga til að makast við – og því hafa vísindamenn, sem birtu niðurstöður rannsóknar sinnar í ár, líkt atferlinu við það þegar manneskjur hittast á hraðstefnumótum.
Vonir standa til þess að með því að vekja athygli á hinum sérstaka „ástardansi“ hákarlanna megi vekja almenning til vitundar um mikilvægi þeirra í vistkerfum en þeir eru í útrýmingarhættu á hafsvæðum Evrópu.
Maurar gætu komið í stað meindýraeiturs
Alls konar eitur sem notað er til að verja uppskeru getur haft mjög skaðleg áhrif á allt lífríkið, ekki síst á skordýr og þá sérstaklega býflugur. Í nýrri rannsókn er sýnt fram á að maurar geta varið ræktarland jafnvel og skordýraeitur. Og myndu kosta bændur mun minna.
Vísindamennirnir komust að því að maurar vernda uppskeru gegn plágum ýmissa annarra skordýra. Þá gagnast göng þeirra um jarðveginn líka plöntunum við súrefnisupptöku. Ekki eru allar maurategundir jafn hentugar til að nota til meindýravarna en vísindamennirnir gerðu tilraunir sínar með maurum af 26 tegundum.
Blettatígrar aftur til Indlands
Það eru sjötíu ár síðan að blettatígrar lifðu síðast villtir á Indlandi. En núna hefur orðið breyting á nokkur dýr voru á þessu ári flutt frá Suður-Afríku og Namibíu til Indlands þar sem vonast er til þess að þau fjölgi sér. Dýrunum var sleppt í þjóðgarða sem gætu þá, ef allt gengur að óskum, orðið búsvæði villtra blettatígra til framtíðar.
Blettatígrum var útrýmt í Indlandi með veiðum og vegna þess að þrengt var um of að búsvæðum þeirra.
Tígrisdýr loks frjáls
Fjögur tígrisdýr eru loks frjáls eftir að hafa verið fangelsuð í lestarvagni í Argentínu í fimmtán ár. Dýrin voru áður til sýnis í fjölleikahúsi en eftir að það lagði upp laupana voru þau skilin eftir, ein og yfirgefin í lestarvagninum. Talið er að þau hafi ekki fengið að ganga á grasi allan þennan tíma.
Yfirvöld vissu ekki af tígrisdýrunum í prísundinni fyrr en á síðasta ári og ákveðið var að teymi dýralækna og starfsmanna dýraverndunarsamtaka myndu taka að sér að frelsa þau og finna þeim samastað til framtíðar.
Ákveðið var að flytja þau með flugi í friðland í Suður-Afríku. Svæðið líkist þeirra náttúrulega umhverfi og vonast er til að þau geti dvalið þar í frelsinu við góða heilsu til æviloka.
Fiskurinn sem hvarf – en birtist aftur
Síðast sást til hans úti í náttúrunni árið 2003. En núna, öllum þessum árum síðar, syndir litli kardinálafiskurinn, sem kenndur er við tequila, aftur um heimaslóðir sínar í ám í suðvesturhluta Mexíkó.
Tequila-fiskum tók að fækka verulega á tíunda áratug síðustu aldar og er athöfnum manna í hans nánasta umhverfi kennt um. Ljóst þótti í hvað stefndi og þegar allt virtist vera um seinan fékk háskóli einn í Mexíkó fimm pör að gjöf frá sædýrasafni í Bretlandi. Þau voru geymd í búrum á rannsóknarstofu og allir krossuðu fingur um að þau næðu að fjölga sér.
Sem þau og gerðu. Nú eru fimmtán ár síðan að þetta verndarverkefni hófst og þá þótti loks óhætt að sleppa fiskunum út í sitt náttúrulega umhverfi eftir að þeir höfðu dvalið í tjörnum við háskólann í nokkurn tíma.
Um 15 þúsund Tequila-fiskar synda frjálsir um í Teuchitlán-ánni.