„Að kvöldi 22. mars var hringt í vel stæðan kunningja minn og spurt hvort hann vildi ekki taka snöggan snúning á Íslandsbanka. Hann gæti líklega orðið 10 milljónum ríkari þegar hann vaknaði í fyrramálið.“
Svona hefst færsla Páls Magnússonar, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, titluð Sala af bankasölu, þar sem hann segir frá kunningja sínum sem keypti í Íslandsbanka í lokuðu útboði 22. mars síðastliðinn.
Samkvæmt Páli var sá sem hringdi vinur kunningja hans, og var sá starfsmaður hjá einum af söluaðilum bréfanna. Tilboðið þótti kunningja Páls stórsniðugt og keypti um milljón hluti á 117 krónur, 5 króna afslætti frá síðasta skráða markaðsgengi, sem hafði verið 122 krónur. „Við fyrsta hanagal morguninn eftir seldi svo kunningi minn bréfin á genginu 127. Loforð vinar hans frá því kvöldið áður stóðst nánast upp á krónu: Kunningi minn græddi um 10 milljónir á þessum tveimur símtölum; tæplega 1,5 milljónir á klukkutíma á meðan hann svaf,“ skrifar Páll.
„Svo komu menn hver um annan þveran; fjármálaráðherrann, Bankasýsluforingjarnir og jafnvel nokkrir þingmenn og útskýrðu fyrir okkur einfeldningunum hvað þetta hefði verið gríðarlega vel heppnað útboð. Einmitt.“
Færsla Páls hafði ekki staðið í klukkustund þegar hún hafði vakið mikla athygli og hörð viðbörgð. Meðal þeirra sem skrifar athugasemd við færsluna Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem þakkar Páli fyrir að deila sögunni og segir það mikilvægt. Þá hefur Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, deilt færslunni og látið þessi orð fylgja: „Ætla menn svo áfram að halda því fram að það eigi ekki að skipa rannsóknarnefnd Alþingis til að kryfja þessa bankasölu? Eigum við áfram að taka það gott og gilt að þetta verði ekki rannsakað af þeim sem mestar rannsóknarheimildir hefur? Hversu mikið þarf að koma í ljós til þess að ríkisstjórnarflokkarnir átti sig á að það þarf að velta við hverjum steini, en ekki bara sumum steinum."
Saga af bankasölu. Að kvöldi 22. mars var hringt í vel stæðan kunningja minn og spurt hvort hann vildi ekki taka snöggan...
Posted by Páll Magnússon on Saturday, April 9, 2022